Heiða Björk Pétursdóttir hóf í september sl. störf sem verkefnastjóri/ráðgjafi í SÍMEY. Á hennar borði eru m.a. ýmis verkefni á fjölmenningarsviði (t.d. vottuð námskeið eins og Íslenskuþjálfarinn og Landneminn) og fyrirtækjasviði auk þess sem á hennar borði eru samskipti við Vinnumálastofnun og VIRK.
Núna í október standa SÍMEY, Dalvíkurbyggð og leikskólinn Krílakot á Dalvík að starfstengdu námskeiði í íslensku fyrir fjóra starfsmenn Krílakots sem eru af erlendum uppruna. Sérstaða þessa námskeiðs felst ekki síst í því að það er á starfstíma leikskólans.
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir er ný í starfi verkefnastjóra hjá SÍMEY, hún hóf störf fyrr í þessum mánuði. Verkefni hennar eru fjölbreytt, ásamt öðrum hefur hún umsjón með vottaða náminu og lengri námsleiðum, t.d. leikskólaliða- og stuðningsfulltrúanáminu, einnig Menntastoðum og hún mun líka koma að raunfærnimatinu.
Námskeið í íslensku sem annað mál eru komin í fullan gang núna á haustönn og segir Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, að vel líti út með aðsókn á námskeiðin.
Síðsumars og í haust hefur SÍMEY annast skipulagningu námskeiða fyrir annars vegar grunnskóla Akureyrar og hins vegar velferðarsvið Akureyrarbæjar. Námskeiðin voru hluti af fræðsluáætlunum fyrir starfsfólk grunnskólanna og velferðarsviðs bæjarins.
Í annað sinn verður í haust boðið upp á námsleiðina Færni á vinnumarkaði í SÍMEY.
Um er að ræða starfstengt nám ætlað einstaklingum með fötlun eða raskanir sem vilja hefja störf á almennum vinnumarkaði. Nánari upplýsingar má sjá á meðfylgjandi mynd. Einnig má endilega hafa samband við Jenný, jenny@simey.is .