Gæðavottun

Gæðavottun fræðsluaðila

 

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) er með European Quality Mark ( EQM+) gæðavottun. Með gæðavottun EQM+ er staðfest að SÍMEY stenst evrópskar kröfur um gæði í fræðslustarfi, raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir gæðavottunina en Fræðslumiðstöðin hefur unnið að þróun gæðaviðmiða í fræðslustarfi fyrir fullorðna á liðnum árum.

Mat á starfi.

Kveðið er á um lögbundið innra og ytra eftirlit með gæðum skólastarfs í framhaldfræðslu samkvæmt 14. gr. laga um framhaldsfræðslu. Tilgangur þess er að veita hagsmunaaðilum upplýsingar um árangur og gæði fræðslustarfsins, svo og til þess að tryggja gæði náms og stuðla að umbótum.

Innra mat er skipulagt í starfi SÍMEY og er leitast við að virkja starfsfólk, verktaka og nemendur í matsferlinu.  Innra mat tekur til fjölbreyttra matsaðferða, námskeiðsmats, sjálfsmats kennara/ leiðbeinenda. Endurskoðun á starfi, kennsluaðferðum, verkferlum sem og virkri endurgjöf til kennara, starfsmanna og þátttakenda. SÍMEY er með frávikaskráningu og umbótaáætlun. SÍMEY er einnig með lögbundna persónuverndarstefnu.

SÍMEY hlaut fyrst gæðavottun EQM (European Quality Mark) árið 2012. Árið 2018 var fékk SÍMEY staðfestingu á EQM+ gæðavottun en hún staðfestir gæði raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar auk hönnunar, þróunar og umsýslu fræðslu. 

EQM er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi náms og sameiginleg gæðaviðmið fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis. EQM tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem fræðsluaðili veitir,
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum fræðsluaðila,
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.

Gæðahandbók

Verkferlar, vinnulýsingar, gátlistar og eyðublöð eru skjalfest í gæðahandbók SÍMEY er vistað á  innra kerfi stofnunarinnar (0365).