Skipulagsskrá

 

Skipulagsskrá fyrir

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar

 

1. grein

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili og varnarþing hennar er á Akureyri. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum.

 

2. grein

Stofnendur Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar eru: Háskólinn á Akureyri, Mennta­smiðjan á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Tónlistarskólinn á Akureyri, Myndlistaskólinn á Akureyri,Akureyrarbær og sveitar­félög í Eyjafirði, stéttarfélög í Eyjafirði, félög atvinnurekenda og fyrirtæki og stofnanir í Eyjafirði, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, sem því til staðfestu undirrita skipulags­skrá þessa. Fjárhagslegar skuldbindingar mið­stöðvar­innar eru stofnendum óvið­komandi umfram stofnframlag.

 

Stofnfé Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar er kr. 3.660.000,- þar af kr.1.000.000,- óskerðanlegt stofnfé að raungildi.

3. grein

Markmið Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar er að efla símenntun í Eyjafirði og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs á svæðinu og bjóða einstaklingum hagnýta og fræðandi þekkingu á öllum skólastigum. Einnig að veita ráðgjöf til fyrirtækja um símenntun og einstaklingum starfs- og námsráðgjöf. Í þessu skyni mun Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar m.a.:

 

  • Stuðla að auknu framboði á símenntun í Eyjafirði og miðla því til almennings og atvinnulífs. Þar er átt við formlega og óformlega menntun, starfsmenntun, tómstundanám, nám í lífsleikni og bóknám.
  • Bjóða upp á nám á framhalds- og háskólastigi í Eyjafirði í samstarfi við framhalds- og háskóla.
  • Leggja áherslu á samstarf menntastofnana við fyrirtæki, stofnanir og aðila vinnu­markað­arins.
  • Fylgjast með og nýta bestu fáanlegu kennslutækni og leggja áherslu á fjarkennslu.
  • Hafa samstarf við aðra aðila er sinna símenntun á Íslandi og erlendis.
  • Stuðla að auknu samstarfi þeirra sem sinna símenntun í Eyjafirði, annast markaðs- og kynningarmál og samræma starf þeirra.
  • Selja ráðgjafaþjónustu til fyrirtækja um símenntun í samstarfi við fræðslustofnanir, atvinnu­þróunar­félög og/eða aðrar símenntunarstöðvar.
  • Bjóða upp á starfs- og námsráðgjöf í samstarfi við starfs- og námsráðgjafa við menntastofnanir í Eyjafirði.

 

4. grein

Stjórn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar er skipuð sjö mönnum til tveggja ára í senn og sjö til vara. Menntastofnanir (Háskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri ) tilnefna einn fulltrúa, stéttarfélög í Eyjafirði sem aðild eiga að miðstöðinni tilnefna tvo fulltrúa, sé annar fulltrúi verkafólks á almennum vinnumarkaði en hinn fulltrúi opinberra starfsmanna, atvinnurekendur tilnefna tvo fulltrúa og sé annar fulltrúi einkafyrirtækja og hinn opinberra stofnana, Akureyrarbær tilnefnir einn fulltrúa og sveitarfélög í Eyjafirði tilnefna einn fulltrúa. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Stjórn skiptir með sér verkum. Einfaldur meirihluti gildir á stjórnarfundum.
Forstöðumaður situr að jafnaði stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

 

 

5. grein

Stjórn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar ber að vinna að markmiðum stofnunarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þeim sem veita henni fjárhagslegan stuðning. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofnunarinnar. Stjórnin ákveð­ur meginþætti í stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar og setur sér og miðstöðinni starfsreglur. Boða skal stjórnarfundi með tryggilegum hætti. Stjórnar­maður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef málefnið varðar hann persónulega.

 

6. grein

Stjórnin skal kalla stofnaðila saman til ársfundar eigi síðar en í apríllok ár hvert. Þar skal stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar gera grein fyrir starfi hennar og leggja fram endurskoðaða ársreikninga til staðfestingar. Þar skal einnig kosning löggilts endur­skoðanda og stjórnarfulltrúa fara fram. Á ársfundi gildir einfaldur meirihluti og hver fulltrúi stofnaðila hefur eitt atkvæði nema varðandi breytingar á skipulagsskrá samanber 11. grein.

            Ársfund skal boða skriflega með viku fyrirvara. Tillögu um breytingar á skipulags­skrá Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar skal getið sérstaklega í fundarboði.

Heimilt er að boða framhalds ársfund ef tilefni er til. Skal boða hann með þriggja vikna fyrirvara og halda hann eigi síðar en að tveimur mánuðum liðnum frá því að ársfundi var frestað. Ársfundur boðaður í fjarfundi er jafnlögmætur og staðfundur enda sé boðað til hans með sama hætti og til staðfundar væri.

 

 

7. grein

Stjórn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar ræður framkvæmdastjóra og setur honum erindis­bréf. Framkvæmdastjórinn ber ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar. Hann annast daglegan rekstur, ræður starfsfólk stofnunarinnar, vinnur að fjáröflun og annast reikningsskil. Framkvæmdastjórinn undirbýr fjárhagsáætlun næsta starfsárs, sem skal lögð fyrir stjórnina í nóvember ár hvert.

 

8. grein

Tekjur Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, auk vaxta af stofnframlagi, eru frjáls fram­lög frá ríki, sveitarfélögum, samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum, og tekjur af þjónustu.

 

9. grein

Til þess að Símenntunarmiðstöðin geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd miðstöðvarinnar að eiga samstarf við aðra og gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma. Halda skal kostnaði af slíkri starfsemi að fullu að­greindum frá öðrum rekstri miðstöðvarinnar.

 

 

 

10. grein

Reikningsár Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.  Forstöðumaður skal eigi síðar en í lok febrúarmánaðar leggja fram eftirtalin gögn fyrir stjórn miðstöðvarinnar til afgreiðslu:

 

  1. Skýrslu um starfsemi síðasta starfsárs.
  2. Endurskoðaðan ársreikning liðins starfsárs.

 

Reikningar Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðaðir reikningar skulu sendir Ríkisendurskoðun eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næst liðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári.

 

11. grein

Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt ef 2/3 fulltrúa á ársfundi samþykkir slíkar breytingar enda sé fundur lögmætur og tillaga um slíkt hafi verið kynnt sérstaklega í fundarboði.

 

12. grein

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar verður slitið með ákvörðun 2/3 fulltrúa á ársfundi.

Verði starfsemi Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar hætt og miðstöðin lögð niður skulu ráðstafanir um eignir hennar kynntar á ársfundi en endanleg afstaða til ráðstöfunar tekin á framhaldsársfundi sem halda þarf innan tveggja mánaða en ekki fyrr en að þremur vikum liðnum.

 

13. grein

Um reikningshald fer að lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa sam­kvæmt staðfestri skipulagsskrá.

 

14. grein

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari, sem og breytingum sem kunna að verða gerðar á henni.

 

 

 

Skipulagsskrá þessi var staðfest á stofnfundi Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar 29. mars 2000. Breyting á 4. grein á ársfundi 15.maí 2017. Breyting á 2. 4. og 6. greinum á ársfundi í apríl 2021.

 

Akureyri,  14. apríl 2021

Stjórn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar