Núna í október standa SÍMEY, Dalvíkurbyggð og leikskólinn Krílakot á Dalvík að starfstengdu námskeiði í íslensku fyrir fjóra starfsmenn Krílakots sem eru af erlendum uppruna. Sérstaða þessa námskeiðs felst ekki síst í því að það er á starfstíma leikskólans.
Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri í SÍMEY, segir að mikil ánægja sé með þetta fyrirkomulag og ástæða sé til að hrósa Dalvíkurbyggð og stjórnendum Krílakots fyrir að hvetja starfsfólk sitt af erlendum uppruna til að styrkja sig í íslensku með þessum hætti. Afar mikilvægt sé að starfsfólk eigi þess kost að stunda íslenskunám á vinnutíma í stað þess að sækja námskeið seinnipart dags eða á kvöldin, að loknum löngum vinnudegi.
„Dalvíkurbyggð setti fram hugmyndir um íslenskunámskeið fyrir erlent starfsfólk Krílakots. Í framhaldinu lögðum við sl. vor stöðupróf í íslensku fyrir ellefu starfsmenn leikskólans af erlendum uppruna til þess að gera okkur grein fyrir hver kunnátta hvers og eins væri í tungumálinu. Í framhaldinu var ákveðið að bjóða upp á starfstengt íslenskunám fyrir fjóra af þessum starfsmönnum en í því felst að lögð er áhersla á þjálfun talmáls og hagnýts orðaforða út frá daglegu starfi starfsmanna leikskólans, m.a. er varðar samskipti við börnin og foreldra þeirra,“ segir Sigurlaug.
Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar, segir afar mikilvægt að gefa starfsfólki af erlendum uppruna tækifæri til þess að styrkja kunnáttu sína í íslensku, ekki síst sé það mikilvægt þegar um er að ræða störf í uppeldis- og menntunargeiranum. Staðreyndin sé sú að eftir langan vinnudag sé tæpast hægt að ætlast til þess að fólk af erlendum uppruna sæki íslenskunámskeið síðla dags eða á kvöldin enda eigi það sínar fjölskyldur sem þurfi að sinna. „Þess vegna fórum við þá leið að bjóða starfsfólki okkar á Krílakoti af erlendum uppruna að taka íslenskunámskeiðið innanhúss, þ.e.a.s. í leikskólanum, á vinnutíma. Niðurstaðan var að leggja áherslu á talmálið og orðaforðann sem starfsfólkið notar mest í starfi sínu á leikskólanum. Það hefur mælst mjög vel fyrir,“ segir Gísli.
„Dagbjört Ásgeirsdóttir, sem er menntaður leikskólakennari og hefur kennt á íslenskunámskeiðum hjá okkur, tók að sér kennsluna. Við byrjuðum núna í október og námskeiðið, sem í það heila er 40 klukkustundir, hefur farið mjög vel af stað. Að því loknu verður metið hvort boðið verður upp á framhaldsnámskeið.
Það sem mér finnst mikilvægt og til fyrirmyndar er að námskeiðið er starfsfólkinu að kostnaðarlausu því Dalvíkurbyggð greiðir námskeiðsgjöldin að fullu. Og ekki síður tel ég mikilvægt að kennslan er öll á vinnutíma, Dagbjört fer á Krílakot og kennir þar tvisvar í viku, hálfan annan tíma í senn. Þessi stuðningur sveitarfélagsins og leikskólans við starfsfólkið er að mínu mati afar hvetjandi og til fyrirmyndar, hér leggjast allir á eitt við að gera starfsfólkinu kleift að styrkja íslenskukunnáttu sína með því að sinna íslenskunáminu á vinnutíma, sem er afar mikilvægt, jafnt fyrir þessa einstaklinga, leikskólann og samfélagið,“ segir Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir.