Síðsumars og í haust hefur SÍMEY annast skipulagningu námskeiða fyrir annars vegar grunnskóla Akureyrar og hins vegar velferðarsvið Akureyrarbæjar. Námskeiðin voru hluti af fræðsluáætlunum fyrir starfsfólk grunnskólanna og velferðarsviðs bæjarins.
Námskeið fyrir starfsfólk grunnskóla
Dagana 19. og 20. ágúst sl., á starfsdögum starfsfólks grunnskólanna áður en kennsla hófst, var efnt til tveggja námskeiða. Annars vegar var Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur með námskeið fyrir almennt starfsfólk grunnskólanna sem hún kallaði Þín líðan, streitustjórnun, heilsusamleg vinnuhegðun og lífsgæði og hins vegar var Eyþór Víðisson, öryggisfræðingur hjá Reykjavíkurborg, með námskeið fyrir alla starfsmenn skólanna sem hann kallaði Erfið og ógnandi hegðun. Eyþór nálgaðist efnið út frá aðferðafræði vinnuverndar þar sem öryggi starfsfólks grunnskólanna og ekki síst þjónustunotendanna, þ.e. grunnskólanemendanna, er í fyrirrúmi.
Í það heila sóttu 230 starfsmenn grunnskólanna námskeiðin.
Námskeið fyrir starfsfólk velferðarsviðs Akureyrarbæjar
Í síðustu viku voru fræðsludagar velferðarsviðs Akureyrarbæjar og þar var Eyþór Víðisson einnig með fyrirlestur sinn Erfið og ógnandi hegðun. Einnig fjölluðu Anna Marit Níelsdóttir og Arna Jakobsdóttir, sem báðar starfa hjá velferðarsviði, um atvikaskráningar og gæðamál, hvernig atvikaskráningar geti stuðlað að betri þjónustu, auknu öryggi og meiri ánægju notenda.
Bæði fræðsludagar fyrir starfsfólk grunnskóla Akureyrarbæjar og starfsfólk velferðarsviðs Akureyrarbæjar voru settir upp samkvæmt virkri fræðsluáætlun sem gildir til þriggja ára og nú er unnið eftir. Sú fræðsla sem starfsmenn grunnskólanna og velferðarsviðs bæjarins fengu á þessum fræðsludögum var samkvæmt fræðsluáætluninni og óskum starfsfólksins.
Sigurlaug Indriðadóttir Unnardóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að almennt hafi tekist mjög vel til og mikil ánægja hafi verið með það efni sem farið var yfir, bæði á námskeiðum starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks velferðarsviðs. Einnig hafi fyrirlesararnir verið afar ánægðir með áhuga og virkni þátttakenda á námskeiðunum. Um þrjú hundruð starfsmenn velferðarsviðs sóttu námskeiðin.
Áfram verður unnið samkvæmt fræðsluáætlunum starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks velferðarsviðs. Haldin eru stök námskeið, bæði stað- og fjarnámskeið, og aftur verður efnt til fræðsludaga fyrir velferðarsviðið í nóvember nk.