Þórdís Gísladóttir hefur verið ráðin í stöðu verkefnastjóra/ráðgjafa hjá SÍMEY. Hún hóf störf 7. ágúst sl.
Þórdís ólst upp í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu og var í grunnskóla í Hafralækjarskóla. Námi til stúdentsprófs lauk hún að hluta í Framhaldsskólanum á Húsavík.
Frá 1999 til 2003 bjó Þórdís í Mývatnssveit er hún flutti til Akureyrar og lærði förðunarfræði. Árið 2006 settist hún á skólabekk í Háskólanum á Akureyri og innritaðist í nútímafræði en söðlaði um að einni önn lokinni, fór í sálfræði og lauk BA prófi árið 2009. Til hliðar við námið starfaði Þórdís á geðdeild SAk og einnig starfaði hún um tíma á öldrunarheimili við Bakkahlíð. Veturinn 2009-2010 lauk Þórdís námi í HA til kennsluréttinda. Að því loknu starfaði hún við heimaþjónustu Akureyrarbæjar í Akursíðu, svo á heimili við Brálund, sem síðar færðist í Hafnarstræti.
Þórdís starfaði frá 2016 til 2023 hjá Barnavernd Akureyrar og á þeim tíma bætti hún við sig diplóma í áfengis- og vímuvarnamálum. Í janúar 2023 fór Þórdís í meistaranám í áfallastjórnun á Bifröst og í tvö skólaár, frá haustinu 2023 til sl. vors, var hún kennari á unglingastigi í Brekkuskóla.
„Þegar ég sá auglýsinguna frá SÍMEY ákvað ég að sækja um. Það sem heillaði mig við starfið var ekki síst hversu fjölbreytt verkefnin eru og það kom mér í raun á óvart hversu viðamikil starfsemin hér er. Mér finnst mjög heillandi að leggja fólki lið sem hefur haft takmörkuð tækifæri til þess að mennta sig. Mér líst mjög vel á þetta nýja starf og vinnustaðinn, hér er gott að vinna og andrúmsloftið er sérlega notalegt,“ segir Þórdís Gísladóttir.