Skóli lífsins er vanmetinn

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir.
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir.

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir er ný í starfi verkefnastjóra hjá SÍMEY, hún hóf störf fyrr í þessum mánuði. Verkefni hennar eru fjölbreytt, ásamt öðrum hefur hún umsjón með vottaða náminu og lengri námsleiðum, t.d. leikskólaliða- og stuðningsfulltrúanáminu, einnig Menntastoðum og hún mun líka koma að raunfærnimatinu.

Rætur Jónínu Margrétar eru á Blönduósi þar sem hún er fædd og uppalin. Hún fór í Menntaskólann á Akureyri og brautskráðist þaðan árið 2001. Leiðin lá síðan í sálfræðinám við Háskólann á Akureyri þaðan sem hún lauk BA-prófi og síðar bætti hún við sig MS-gráðu í menntavísindum við sama skóla og aflaði sér kennararéttinda.

Í mörg undanfarin ár hefur Jónína fengist við kennslu í bæði grunn- og framhaldsskólum, m.a. við MA og VMA, Brekkuskóla og Oddeyrarskóla, grunnskólana á Hrafnagili og Grenivík og einn vetur kenndi hún á starfsbraut Menntaskólans á Ísafirði.

Síðustu ríflega þrjú árin hefur fjölskyldan búið á Höfða 2 í Grýtubakkahreppi og verið í kúabúskap en sl. vor var búið selt og fjölskyldan flutti fram í Eyjafjarðarsveit.

Gefandi starf

„Þegar ég sá þetta starf í SÍMEY auglýst ákvað ég að sækja um. Mig langaði að takast á við nýja hluti, ekki endilega kennslu en þó eitthvað sem tengdist námi. Í þessu starfi sá ég tækifæri til þess að nálgast nám og kennslu frá nýju sjónarhorni. Ég hef ánægju af því að fræða fólk og hjálpa því að láta drauma sína rætast.
Í kennarastarfinu í gegnum tíðina hef ég sett upp áfangana og kennt en núna er hlutverk mitt meira að leiðbeina fólki og vísa því veginn í vali á námi.
Það er afar gefandi að vinna með fullorðnu fólki sem hefur ekki lokið formlegu námi en aflað sér gríðarlega mikillar og góðrar reynslu úr skóla lífsins, sem oft og tíðum er mjög vanmetin. Raunfærnimatið kemur síðan sterkt inn til að meta þessa dýrmætu reynslu,“ segir Jónína.

Aldarfjórðungur í íshokkí

Kennslan og að leggja fólki lið í námi er ekki eina ástríða Jónínu. Eitt af hennar stóru áhugamálum er íshokkí og hefur lengi verið. Fyrir um aldarfjórðungi, þegar Jónína sat á skólabekk í MA, tóku nokkrar vinkonur í skólanum sig til og stofnuðu kvennalið í íshokkí innan Skautafélags Akureyrar en áður hafði félagið ekki teflt fram kvennaliði í Íslandsmóti. Jónína segir að hún hafi á þessum tíma ekki þekkt til íshokkísins, nema í gegnum sjónvarpið, enda var íshokkí og er raunar enn spilað bara á tveimur stöðum á landinu, á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu. Það var eitthvað í íshokkíinu sem heillaði á sínum tíma og það hefur ekki vikið frá Jónínu æ síðan. Hún hefur með öðrum orðum spilað íshokkí með Skautafélagi Akureyrar í öll þessi ár og meira að segja þegar hún bjó á Vestfjörðum lét hún sig hafa það að sækja æfingar og spila leiki með Skautafélaginu.

Allar líkur eru á að Jónína Margrét, sem er 44 ára gömul, sé leikjahæsta konan í íshokkí á Íslandi og hún gefur ekkert eftir, þrátt fyrir að hafa sl. vor náð 25 ára spilafmæli. Fjölmargir Íslandsmeistaratitlar eru í húsi en hún er þó síður en svo södd og verður á fullu með liðskonum sínum í Skautafélaginu í vetur. Hún er langelst í liðinu og segir að snerpan og hraðinn sé auðvitað ekki alveg eins og á árum áður en leikskilningurinn og reynslan bæti það upp. Aldursmunur á Jónínu og yngsta leikmanninum í liði Skautafélagsins er 31 ár!
Jónína segir að það væri ánægjulegt ef hún næði að fagna Íslandsmeistaratitli með dóttur sinni, sem einnig er í íshokkíliði Skautafélagsins, í vor en ekkert sé þó gefið í þeim efnum, baráttan milli Skautafélagsins og sunnanliðanna hafi verið og verði án efa hörð í vetur.