Góðir gestir frá Cork á Írlandi

Írarnir sex sem komu í heimsókn í SÍMEY í liðinni viku. Með þeim eru á myndinni tveir af verkefnastj…
Írarnir sex sem komu í heimsókn í SÍMEY í liðinni viku. Með þeim eru á myndinni tveir af verkefnastjórunum í SÍMEY, Helena Sif Guðmundsdóttir (lengst til vinstri) og Heiða Björk Pétursdóttir (lengst til hægri).

Á dögunum komu góðir gestir frá Írlandi í heimsókn í SÍMEY, nánar tiltekið frá borginni Cork og nágrenni, til þess að kynna sér eitt og annað í menntamálum á Íslandi, ekki síst varðandi framhaldsfræðslu. Þessi heimsókn var í framhaldi af heimsókn starfsfólks SÍMEY til Írlands, m.a. til Cork, í maí 2024. Ferð írska skólafólksins til Akureyrar var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB.

Auk þess að heimsækja SÍMEY heimsóttu gestirnir frá Írlandi Amtsbókasafnið á Akureyri, Háskólann á Akureyri, Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri. 

Ein af sexmenningunum frá Írlandi er Nuala Glenton sem starfar sem stjórnandi, á ensku Adult Education Officer, hjá Cork Education and Training Board (Cork ETB), sem hefur á sinni könnu m.a. fullorðinsfræðslu og starfsþjálfun af ýmsum toga á Norður-Cork svæðinu. Hún hefur tvisvar áður komið til Íslands en aðrir í ferðinni voru að koma hingað í fyrsta skipti og segir Nuala að þeim hafi þótt mikið til koma. Flogið var með Easy Jet frá Gatwick í Englandi á þriðjudag í síðustu viku og sömu leið til baka sl. laugardag.

Nuala segir að fólksfjöldi á Cork-svæðinu sé ekki ósvipaður og íbúafjöldi Íslands. Hún segir fjölda grunnskóla á Írlandi vera nátengda kirkjunni en ríkisstjórn Írlands hafi á stefnuskránni að gera á þessu breytingar í þá veru að draga úr tengslum skólakerfisins við kirkjuna, hvort sem er kaþólsku kirkjuna eða mótmælendatrúar kirkjuna, ekki síst vegna aukins fjölda innflytjenda til Írlands á síðustu árum.

Cork Education and Training Board (Cork ETB) varð til árið 2013 og undir þessari regnhlíf eru þrír grunnskólar á Cork-svæðinu. Framhaldsskólarnir á svæðinu (nemendur 13 til 19 ára gamlir) eru 29. Áður voru þeir aðskildir verknáms- og bóknámsskólar en Nuala segir að á þessu hafi orðið breyting og í auknum mæli sé bæði verk- og bóknám í boði í skólunum, eins og t.d. er gert í VMA.

Nuala segir að með heimsókn starfsfólks SÍMEY til Cork fyrir hálfu öðru ári hafi komist á gott samband við SÍMEY og í framhaldinu hafi verið ákveðið að endurgjalda heimsóknina og koma til Akureyrar og sjá hvernig unnið sé að fullorðinsfræðslu og fá upplýsingar um eitt og annað varðandi menntun á Íslandi. Heimsóknin hafi verið mjög skemmtileg og lærdómsrík, alltaf sé gaman að sjá hlutina með öðrum augum og læra eitthvað nýtt.