Heiða Björk Pétursdóttir hóf í september sl. störf sem verkefnastjóri/ráðgjafi í SÍMEY. Á hennar borði eru m.a. ýmis verkefni á fjölmenningarsviði (t.d. vottuð námskeið eins og Íslenskuþjálfarinn og Landneminn) og fyrirtækjasviði auk þess sem á hennar borði eru samskipti við Vinnumálastofnun og VIRK.
Heiða Björk er Eyfirðingur í húð og hár. Á fæðingarárinu 1985 bjuggu foreldrar hennar, Ingibjörg Siglaugsdóttir og séra Pétur Þórarinsson, á Möðruvöllum í Hörgárdal, þar sem hann var sóknarprestur. Fjölskyldan flutti síðan til Akureyrar og bjó þar þau ár er séra Pétur þjónaði í Glerárkirkju en þegar Heiða var sex ára lá leiðin út í Laufás við austanverðan Eyjafjörð og öll grunnskólagangan var því á Grenivík. Aftur flutti Heiða til Akureyrar en frá árinu 2012 hefur hún búið með fjölskyldu sinni á Grenivík. Hún svarar því afdráttarlaust að hún sé Grenvíkingur – eða kannski Höfðhverfingur svo Laufás, sem hún tengist svo sterkt, sé líka þar undir.
Að grunnskólanum á Grenivík loknum fór Heiða í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi af félagsfræðibraut vorið 2005. Að því loknu starfaði hún um tíma á Hæfingarstöðinni við Skógarlund á Akureyri en flutti til Danmerkur 2006 þar sem ætlunin var að fara í sálfræðinám. Þær fyrirætlanir breyttust og Heiða kom heim 2007 og fór þá um haustið í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Með BA-próf útskrifaðist hún 2011 og í framhaldinu lauk hún meistaranámi í kennslufræðum frá sama skóla árið 2014.
„Eftir að ég lauk kennsluréttindanáminu horfði ég í kringum mig með kennslu. Þá var ekki laus kennarastaða á Grenivík en mér bauðst kennsla við Hlíðarskóla og þar var ég einn vetur. Þetta var frábær reynsla og gott veganesti fyrir mig sem nýútskrifaðan kennara. Ég hefði örugglega kennt lengur í þessum frábæra skóla ef mér hefði ekki boðist kennarastaða á Grenivík, sem ég þáði því þar með þurfti ég ekki lengur að keyra í 40 mínútur í vinnuna. Við Grenivíkurskóla starfaði ég til vors 2023 er ég var ráðin í tímabundna afleysingastöðu hjá Vinnumálastofnun á Akureyri. Þar voru fræðslumálin á minni könnu og því var ég meðal annars í samskiptum við SÍMEY og fékk innsýn í það fjölbreytta starf sem hér er unnið, m.a. varðandi kennslu fyrir fólk af erlendum uppruna,“ segir Heiða Björk.
Heiða segist hafa haft mikla ánægju af því að setja sig inn í þau fjölmörgu störf sem eru á hennar borði og mikilvægt sé að vinnuandinn sé afar góður í SÍMEY og starfsfólkið samhent. Hún geti því ekki annað en horft jákvæðum augum fram á veginn, enginn skortur sé á spennandi verkefnum framundan.
Það er vissulega hálftíma akstur eða svo milli Grenivíkur og Akureyrar en Heiða segist ekki setja það fyrir sig, gott sé að nýta aksturstímann til þess að hlusta á góða hljóðbók. Eiginmaður Heiðu er sjómaður og er jafnan mánuð á sjó og næsta mánuð í landi. Þau eru foreldrar þriggja barna á grunnskólaaldri.
Heiða segir að auk daglegrar vinnu og fjölskyldulífs sé hennar helsta afslöppun að grípa í penslana og mála. Hún segist hafa farið að prófa sig áfram í málun fyrir nokkrum árum og sótt sér í netheima þá kunnáttu sem hún búi yfir á því sviði. Eitt hafi leitt af öðru og áður en hún hafi vitað af hafi fólk viljað eignast verk eftir sig. Eina sýningu hefur hún haldið, á læknastofunum á Akureyri. Heiða segir fátt meiri núvitund og afslöppun frá daglegu amstri en að grípa í penslana og skapa eitthvað á strigann.