Fréttir

Hugmyndir um að Eyjafjarðarsvæðið verði „skapandi svæði“

Verður Eyjafjarðarsvæðið í framtíðinni svokallað „skapandi svæði“ eða District of Creativity? Það er hreint ekki útilokað. Hér er um að ræða töluvert breytta hugsun og áherslurnar eru nokkuð frábrugðnar því sem verið hefur í bæði menntakerfinu og atvinnulífinu. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hefur nú hleypt af stokkunum verkefni sem miðar að því að taka fyrstu skref í að innleiða þessa hugsun á svæðinu, sem mætti kalla „hagnýting ímyndunaraflsins“. Í því skyni hefur SÍMEY ráðið til sín í tímabundið verkefni Arnór Sigmarsson lögfræðing, sem lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2012. Arnór hóf störf fyrir röskum hálfum mánuði.

Áhugaverð stjórnendanámskeið til vors

Til vors stendur SÍMEY fyrir áhugaverðri röð námskeiða sem ætluð eru stjórnendum. Fyrsta námskeiðið verður nk. miðvikudag þegar Ingrid Kuhlman, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf. verður með námskeið sem hún kallar Að ráða rétta fólkið. Viku síðar, miðvikudag fyrir páska, verða Guðný Sverrisdóttir og Svanfríður Jónasdóttir hjá Ráðgjafarfyrirtækinu Ráðrík með námskeið sem þær kalla Fjármál sveitarfélaga fyrir byrjendur. Síðasta námskeið mánaðarins verður 30. mars, í apríl verða þrjú námskeið og síðustu tvö námskeiðin á þessari önn verða 4. maí. Hér má sjá skrá yfir öll stjórnendanámskeið sem verða í boði hjá SÍMEY til vors.

Tuttugu og tveir ljúka raunfærnimati í almennri starfshæfni

Undanfarnar vikur hafa 22 atvinnuleitendur á Akureyri og Dalvík farið í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni í samvinnu við Vinnumálastofnun og í dag var komið að formlegum lokapunkti þegar niðurstöður matsins voru afhentar þátttakendum og þeim veittar staðfestingar á því að þeir hafi lokið raunfærnimatinu.

Nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú viðurkennt til launahækkunar

Frá árinu 2010 hefur Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar boðið upp á nám sem hefur verið nefnt  leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Námið er ætlað ófagmenntuðu fólki í leik- og grunnskólum. Þangað til undir lok síðasta árs var þetta nám ekki metið til launa, þ.e. þeir sem luku því fengu það ekki viðurkennt til hækkunar í launatöflu, en skömmu fyrir áramót náðist þetta loksins í gegn í nýjum kjarasamningi og bókun Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins og héðan í frá hækka laun allra þeirra sem ljúka þessu námi. Hildur Bettý Kristjánsdóttir og Valgeir Blöndal Magnússon, verkefnastjórar hjá SÍMEY, segja það mikið fagnaðarefni að tekist hafi eftir nokkurra ára baráttu að fá nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú viðurkennt til hækkunar launa viðkomandi starfsfólks. Áðurnefnt samkomulag kveður á um að þessi launaflokkshækkun er afturvirk til 1. maí á síðasta ári og nær hún til þeirra rösklega 50 sem hafa lokið slíku námi hjá SÍMEY. Stór hluti þeirra starfar í leik- og grunnskólum á Akureyri. Til þess að námið, sem tekur fjórar annir, sé metið til launahækkunar þarf að skila ákveðnum lágmarksfjölda eininga og þar að auki eru fagtengd námskeið og/eða starfsreynsla metin til eininga. Í framtíðinni miðast leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú – þ.m.t. fagtengd námskeið og/eða starfsreynsla – við 70 einingar. Til þess að innritast á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú þurfa nemendur að vera 22ja ára gamlir og hafa að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu af viðkomandi starfssviði. Þeir sem ljúka náminu fá starfsheitin leikskólaliði og stuðningsfulltrúi. SÍMEY er alltaf með í boði nám á leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú og fer kennslan fram í húsnæðinu við Þórstíg. Auk þess tekur SÍMEY nú þátt í tilraunakennslu ásamt Farskólanum – Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra og Fræðslumiðstöð Vestfjarða þar sem um 40 nemendur taka þetta nám í fjarnámi. Kennt er í gegnum Skype for Business. Námið er skipulagt sem svokallað ,,vendinám" eða  ,,spegluð kennsla", sem þýðir m.a. að nemendur hlusta á fyrirlestra um efnið heima, áður en þeir hittast til verkefnavinnu í kennslustundum í námsverunum í Eyjafirði, Skagafirði, á Blönduósi, Hólmavík og Ísafirði. Næsta haust er áætlað að byrja með nýjan hóp í fjarnámi – sjá upplýsingar hér.

Níutíu og sjö nemendur útskrifaðir

Haustönn í SÍMEY lauk formlega í dag með útskrift 97 nemenda. Athöfnin fór fram í húsnæði SÍMEY við Árstíg. Nemendurnir 97 útskrifuðust af eftirtöldum námsleiðum: Félagsliðabrú á Akureyri, Félagsliðabrú við utanverðan Eyjafjörð, Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, Skrifstofuskólinn - kvöldnám, Skrifstofuskólinn – dagnám, Sölu-, markaðs- og rekstrarnám við utanverðan Eyjafjörð (haldið á Dalvík), Menntastoðir í dagnámi, Fræðsla í formi og lit, Listasmiðja – málun, Listasmiðja – teiknun og Málmsuðusmiðja. Um tónlistarflutning í upphafi og lok athafnar sáu þau Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir. Valgeir Blöndal Magnússon, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, stýrði útskriftinni í forföllum Erlu Bjargar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra. Ávörp fluttu Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og stjórnarmaður í SÍMEY, Jónasína Arnbjörnsdóttir, útskriftarnemandi í námsleiðinni Fræðsla í formi og lit og Dragan Pavlica, sem fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY árið 2010 í málaraiðn og í framhaldi af því tók hann bóklegar greinar í námi og þjálfun. Síðan lá leið hans í VMA þaðan sem hann lauk sveinsprófi og núna er hann í meistaraskólanum í málaraiðn. Dragan var í nóvember sl. útnefndur fyrirmyndarnemandi innan fullorðinsfræðslunnar á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Dragan fór í ávarpi sínu yfir námsferil sinn í SÍMEY og VMA og hvernig hann væri kominn á þann stað að vera nú í meistaraskólanum í málaraiðn. Útskriftarnemar í dag sem lengst hafa stundað nám í SÍMEY hófu nám í byrjun síðasta árs og hafa því stundað nám í fjórar annir. „Dagurinn í dag er uppskera árangurs, þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga,“ sagði Valgeir Blöndal Magnússon í ávarpi sínu á útskriftinni í dag. „Þið hafið bætt við ykkur þekkingu  og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Hugtakið ævimenntun er orðið tamt í notkun í umræðu um menntamál en eins og orðið felur í sér þá er öflun nýrrar þekkingar og aðlögun að því hluti af lífi okkar. Þetta er breytt heimsmynd frá því fyrir einhverjum árum og áratugum, þegar fólk lauk námi upp úr 20 ára aldri eða viðhélst í sama starfi alla ævi. Þekkingarleit og öflun nýrrar reynslu á vinnumarkaði er orðin eðlileg krafa í dag. Í umhverfi okkar eru hraðar breytingar, hvort sem það tengist auknum kröfum um tækniþekkingu, samskiptagreind, fjölmenningu eða þekkingaröflun.  Dæmi um þetta er sá veldisvöxtur sem á sér stað í tölvu- og upplýsingatækni. Nám hefur gjarnan líka mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og sá þáttur að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi. Öll eigum við okkur drauma eða við eigum að eiga okkur drauma. Ekki er óalgengt að við ýtum draumum okkar til hliðar vegna álags í persónulegu lífi eða vegna starfskrafna. Það getur verið erfitt að finna rétta tímann og erfitt að koma sér af stað. Af hverju ætti ég að vera að standa í þessu? En löngunin til að fara út fyrir þægindahringinn getur verið sterk og breytir lífi okkar. Þið getið tekið ykkur sjálf til fyrirmyndar, það er ekki sjálfgefið að ná þessum áfanga sem þið hafið náð hér í dag,“ sagði Valgeir Blöndal Magnússon. Valgeir nefndi að á þessu ári hafi SÍMEY fagnað 15 ára afmæli. Á þessum 15 árum hafi orðið markverðar breytingar í starfseminni og hún vaxið verulega. Á síðasta ári sagði Valgeir að nemendastundir hafi verið 120.000 og þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustuna 3600 manns. Nú séuu 11 starfsmenn hjá SÍMEY og á ársgrunni starfi þar að auki allt að 100 verktakar.    „Verkefni okkar eru á víðum grunni. Stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskerasniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds og mannauðsráðgjafar. Við bjóðum upp á íslensku fyrir útlendinga, námskeiðahald fyrir Fjömennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða, og sinnum þróunarstarfi af ýmsum toga og margt fleira.Framhaldsfræðslukerfið er ungt í árum á Íslandi en mikill vöxtur hefur verið innan þess á síðustu árum og er hér um að ræða 5. stoð menntakerfisins, reikna má að um 15.000 nemendur stundi nám innan þessa kerfis á landsvísu, til samanburðar er það um helmingur af nemendafjölda framhaldsskólakerfisins. Þessi hópur er afar dýrmætur fyrir samfélag og atvinnulíf, kemur með dýrmæta reynslu úr sinni starfsreynslu og persónulega lífi, tvíeflist gjarnan í námi og kemur með enn dýrmætari þekkingu og reynslu út í atvinnulífið og sitt samfélag. Þessi hópur er að hækka menntunarstig þjóðarinnar og er ég að tala um ykkur, kæru útskriftarnemendur, þið eruð að hækka menntunarstig þjóðarinnar og það skiptir miklu máli,“ sagði Valgeir. Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, sagði m.a. í ávarpi sínu að 21. öldin væri öld upplýsingarinnar. „Við getum litið svo á að við séum í raun að endurlifa upplýsinguna sem var hér á 17. og 18. öld. Þið eruð hluti af þekkingarsamfélaginu,“ sagði Eyjólfur. Hann sagðist að undanförnu hafa velt tímanum fyrir sér. „Tíminn líður hratt og eftir því sem við eldumst finnst okkur tíminn líða hraðar. Þið hafið varið tíma ykkar mjög vel með því að afla þeirrar þekkingar sem þið hafið aflað hér. Þið skulið halda áfram að nýta tímann ykkar vel því að í nútímanum er í raun bara ein auðlind sem þið fáið ekki tækifæri til að nýta aftur. Það er tíminn. Hann er það mikilvægasta sem þið eigið. Nú hafið þið þekkingu og færni  til þess að nýta tímann eins og mögulegt er. Notið tímann ávallt á sem hagkvæmasta og besta hátt. Ég get trútt um talað því ég á það til að gleyma mér stundum í vinnu. Það að vinna fjórtán tíma á sólarhring er ekki að nýta tímann vel. Og það að vinna sjö daga vikunnar er heldur ekki að nýta tímann vel. Það að nota tímann með vinum og ástvinum til jafns við þá vinnu sem við vinnum á hverjum tíma er hins vegar góð nýting á tímanum,“ sagði Eyjólfur. Jónasína Arnbjörnsdóttir, útskriftarnemandi í námsleiðinni Fræðsla í formi og lit, rifjaði upp að hún hafi ákveðið að drífa sig í nám í SÍMEY þegar hún sá auglýsingu haustið 2013 um námskeið þar sem Bryndís Arnardóttir – Billa var kennari. Síðar hafi Guðmundur Ármann komið líka inn í kennsluna.  Bæði hafi þau reynst nemendum sérlega vel, enda með gríðarlega reynslu í myndlistarkennslu. „Öll höfum við þörf fyrir að tjá okkur með einhverjum hætti. Sumir í leiklist, aðrir í söng og dansi. Hér í dag er staddur hópur sem kaus að skrá sig í málaralistina, stökk út í djúpu laugina, ef svo má segja. Sumir án nokkurrar reynslu af slíku, aðrir örlitla,“ sagði Jónasína og bætti við að þegar upp væri staðið hafi þessi tími í SÍMEY verið sér og fleiri nemendum algjörlega ómetanlegur. Hún sagðist vilja hvetja alla sem hefðu áhuga og möguleika til að sleppa ekki því tækifæri að setjast á skólabekk og afla sér aukinnar þekkingar og færni. Sem fyrr segir voru 97 útskrifaðir frá SÍMEY í dag, en hluti þeirra gat ekki verið viðstaddur útskriftina. Hér má sjá nokkrar myndir frá útskriftinni í dag. Í lok athafnarinnar setti hluti nemendanna upp útskriftarhúfurnar.

Dragan Pavlica fyrirmynd í námi fullorðinna 2015

Undir lok nóvember var Dragan Pavlica, þjónustuliða í VMA, veitt viðurkenning á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem „fyrirmynd 2015 í námi fullorðinna“. SÍMEY tilefndi Dragan til viðurkenningarinnar og var hann einn fjögurra einstaklinga sem fengu slíka viðurkenningu í ár, en hún er í formi heiðurs, hvatningar og spjaldtölvu. Dragan fór á sínum tíma í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og settist þar síðan á skólabekk. Einnig tók hann verklegt nám í VMA og lauk málaraiðn. Nú hefur hann tekið upp þráðinn í náminu í meistaraskólanum og stefnir að því að ljúka honum innan tveggja ára. Dragan lýsti ferli sínum í náminu við útskrift í SÍMEY í dag. Þar kom m.a. fram að hann hefði í hyggju í framtíðinni að stofna eigið fyrirtæki í málaraiðn. Dragan er 48 ára gamall Serbi en bjó í Króatíu þegar stríðið braust út í gömlu Júgóslavíu. Fjölskyldan neyddist til að yfirgefa heimili sitt og fékk skjól í flóttamannabúðum í Serbíu, þar sem hún dvaldi næstu átta ár.  Árið 2003 kom Dragan og fjölskylda (eiginkona, tveir synir og móðir) til Akureyrar í hópi 24 serbneskra flóttamanna, sem höfðu allir búið í Króatíu en flúið þaðan.  „Fljótlega eftir að við komum til Akureyrar fórum við að læra íslensku og það gekk bara nokkuð vel. Eftir eitt ár gat ég lesið aðeins og skrifað en mér fannst erfiðast að tala. Íslenskan er ekki lengur vandamál fyrir mig og konu mína, sem vinnur á elliheimilinu hér, og strákarnir okkar tala málið eins og innfæddir. Annar þeirra, sá yngri, er að ljúka stúdentsprófi frá VMA núna í desember. Móðir mín, sem er núna 67 ára gömul, talar ekki íslensku en hún skilur töluvert.“ Fljótlega eftir að Dragan og fjölskylda komu til Íslands árið 2003 fékk hann vinnu hjá Stefáni Jónssyni, málarameistara. Fimm árum síðar, árið 2008, benti Stefán honum á að nýta sér þjónustu Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.  „Ég fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og fór síðan að læra að verða málari. Tók bókleg fög hér í SÍMEY en verkleg fög í VMA. Úr þessu námi útskrifaðist ég með sveinspróf í málaraiðn. Ég hóf að vinna í VMA árið 2010 en síðar ákvað ég að halda áfram námi og er núna, auk daglegarar vinnu í VMA, að ljúka þriðju önn í meistaraskólanum í fjarnámi, til þess að verða málarameistari. „Mér finnst mjög gott að geta tekið meistaraskólann í fjarnámi. Auðvitað er þetta mikil vinna, mörg hugtök á ég ekki auðvelt með að skilja en þá leita ég bara aðstoðar og það hefur gengið vel,“ segir Dragan. Hann segir að það hafi komið sér mjög á óvart þegar hann fékk upphringingu um að hann hefði verið útnefndur einn af fjórum fyrirmyndarnemendum 2015 í fullorðinsfræðslu. „Það kom mér skemmtilega á óvart en ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þetta,“ segir Dragan Pavlica.   

Útskrift SÍMEY

Útskrift SÍMEY fer fram við hátíðlega athöfn í húsnæði SÍMEY föstudaginn 18. desember kl. 17:00. Nemendur okkar eru hvattir, hér með til að taka daginn frá! Starfsfólk SÍMEY

Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði komið á fót

Á næsta ári verður Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði ýtt úr vör og verður hún til húsa í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Fab Lab smiðjan er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum. Stofnfundur félagsins FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur smiðjunnar, var haldinn á Akureyri í gær. Samþykktir FabEy staðfestu fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Verkmenntaskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Í stjórn FabEy voru kjörnir aðalmenn: Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, atvinnumálafulltrúi Akureyrarbæjar, Benedikt Barðason, áfangastjóri VMA, Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY og Sigurður Steingrímsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri.  Í samþykktum fyrir FabEy kemur fram að með rekstri á stafrænni smiðju í Eyjafirði sé stefnt að því að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum, verkefninu sé ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Þá er einnig tilgreint það markmið með verkefninu að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda. FabEy mun gera samstarfssamning við VMA um rekstur Fab Lab smiðjunnar. Stefnt er að því að ráða tvo starfsmenn að smiðjunni. Auk Akureyrar hafa sveitarfélög við Eyjafjörð sýnt mikinn áhuga á verkefninu og mun FabEy gera sérstaka samninga við hvert og eitt sveitarfélag sem vill taka þátt. Nú þegar hafa Eyjafjarðarsveit og Hörgárbyggð ákveðið að koma að verkefninu. Auk þess hafa fagfélög við Eyjafjörð lofað stuðningi.  Fab Lab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í Fab Lab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl. Reynslan af Fab Lab smiðjunum sem þegar hefur verið komið á fót hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru Fab Lab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu. Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf Fab Lab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „Fab Lab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra. FabEy mun verða þátttakandi í þessu samstarfi

Höldur lýkur fræðslustjóra að láni

Höldur-Bílaleiga Akureyrar lauk í gær fræðslustjóra að láni verkefni sem hófst formlega í febrúar á þessu ári. Verkefnið fólst í því að þarfagreina allt fyrirtækið m.t.t. sí- og endurmenntunar, þjálfunar í starfstengdri færni og annara jákvæðra breytinga. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar-SÍMEY og IÐAN fræðslusetur unnu verkið. Fyrir liggur fræðsluáætlun til 3ja ára. SVS-Starfsmenntasjóður verslunar og skrifstofufólks styrktu verkefni, Landsmennt og IÐAN fræðslusetur. Fræðsluáætlunin mun ná til allra starfsmanna og felur í sér aukið framboð námskeiða á vinnutíma og utan vinnutíma, aukinni innleiðingu innri fræðslu, bætt upplýsingaflæði, og auknu framboði þjálfunar fyrir Iðnaðarmenn. Höldur-Bílaleiga Akureyrar er rótgróið fyrirtæki með um 200 starfsmenn, höfuðstöðvar eru á Akureyri, og stórar starfsstöðvar í Reykjavík og Reykjanesbæ. Fyrirtækið rekur stærstu bílaleigu landsins, er með alhliða bílaþjónustu, dekkjaverkstæði og bílasölu. Á meðfylgjandi mynd eru samstarfsaðilar í verkefninu: Geir Kr. Aðalsteinsson mannauðsstjóri Hölds, Selma Kristjánsdóttir frá Starfsmenntasjóði verslunar og skrifstofufólks, Iðunn Kjartansdóttir Markvissráðgjafi IÐUNNI fræðslusetri, Kristín Njálsdóttir frá Landsmennt, Valgeir Magnússon Markvissráðgjafi SÍMEY, Sigrún Árnadóttir verkefnisstjóri hjá Höldi / fulltrúi í stýrihóp, Sigurbjörg Sigurðardóttir frá Höldi Reykjavík, Ragnar B. Ingvarsson sviðsstjóri bílgreinasviðs IÐUNNAR.

MIG MAG suðusmiðja-nokkur sæti laus!

SÍMEY býður upp á námskeið í málmsuðu. Í þessari smiðju verður lögð áhersla á MIGMAG suðu. Nemandi sem hefur lokið smiðju í málmsuðu er fær um að sjóða samkvæmt verklýsingum og hefur þekkingu til að vinna sjálfstætt eftir suðuferilslýsingu. Einnig öðlast hann nægilega færni, leikni og öryggi í vinnubrögðum til að hann sé gjaldgengur á vinnumarkaði. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrarformi og verklegri vinnu en auk þessa þurfa þátttakendur að halda verkdagbók á meðan á námskeiði stendur. Miðað er við að fagbókleg kennsla nemai að lágmarki 13 klukkustundum af 80 klukkustunda heildarnámstíma námsins. Lengd:80 klst. Byrjar fljótlega þegar þátttaka hefur náðst. Kennt verður á mánudögum og miðvikudögum kl.16:30-20:30 og föstudögum kl.15:00-19:00 Verð: 28.000 kr. Skráning sendist á valgeir@simey.is eða undir lengri námsleiðir Málmsuðu hér á heimasíðunni