Fréttir

Ánægja með fyrsta markþjálfanámskeiðið á Akureyri

Síðastliðinn föstudag, 11. desember, lauk staðarnámi hjá SÍMEY í markþjálfun. Þetta er jafnframt fyrsta námskeið sinnar tegundar sem SÍMEY býður upp á en til þessa hafa slík námskeið verið í boði í Reykjavík. Leiðbeinandi var Matilda Gregersdotter, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hún er MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation. Fimm konur luku þessu fyrsta markþjálfanámskeiði í SÍMEY og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. Matilda Gregersdotter er fædd og uppalin í Stokkhólmi en hefur búið hér á landi síðan 1998. „Þetta námskeið í markþjálfun hér á Akureyri er það fyrsta utan Reykjavíkur,“ segir Matilda en hún setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama ári hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Í SÍMEY var boðið upp á grunnnám í markþjálfun – svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku fimm konur staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. „Við hófum námið hér í september og erum núna að ljúka kennslulotunum en síðar í vetur munum við verða áfram í sambandi við þessa nemendur í gegnum netið þar sem þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun. Við munum verða í sambandi í netumhverfi vikulega í tíu vikur frá og með lok febrúar.“ En hvað er markþjálfun? Matilda segir að um sé að ræða samtalsaðferð sem lúti ekki síst að því að einstaklingurinn læri ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins. Á heimasíðunni www.markthjalfun.is segir m.a.: Markþjálfun er samstarf um krefjandi og skapandi ferli sem vinnur með styrkleika til að hámarka árangur. Markþjálfun byggir á gagnkvæmu trausti og trúnaðarsambandi markþjálfa og viðskiptavinar. Markþjálfun aðstoðar einstaklinga við að skilgreina hvað virkilega skiptir þá máli og hvers vegna, finna kjarnann. Markþjálfar vinna að því að virkja sköpunargleði einstaklinga og hvetja þá til athafna, rúlla hlutum af stað og finna farveg til þess að koma markmiðum í framkvæmd. Markþjálfun nýtist vel á vinnustöðum við að efla enn frekar hæfni starfsmanna og stjórnenda eða stuðla að lausnum á afmörkuðum vandamálum varðandi frammistöðu.  Matilda segir reynsluna sýna að markþjálfun nýtist fólki á ýmsan hátt. Til dæmis komi það stjórnendum fyrirtækja að góðum notum og það sama megi segja um uppalendur. „Markþjálfun nýtist fólki líka vel í hjónabandi. Almennt má segja að það nýtist fólki vel í samskiptum af ýmsum toga. Ég er mjög ánægð með útkomuna hér á Akureyri og tel að þetta námskeið hafi verið mjög árangursríkt,“ segir Matilda. Ekki verður látið staðar numið við þetta eina námskeið í markþjálfun í SÍMEY því 15. febrúar nk. hefst nýtt námskeið. Skráning á það er nú þegar hafin og er hér hægt að fá nánari upplýsingar. Einnig veitir Kristín Björk Gunnarsdóttir hjá SÍMEY nánari upplýsingar. Ekki var annað að heyra að þátttakendur á þessu fyrsta markþjálfanámskeiði á Akureyri væru mjög ánægðir með útkomuna. Á meðfylgjandi mynd eru þátttakendur á námskeiðinu með sín viðurkenningarskjöl ásamt leiðbeinanda. Frá vinstri: Ragnhildur Sverrisdóttir, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, Matilda Gregersdotter, Kristín Björk Gunnarsdóttir, Ingibjörg Lóa Birgisdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir.  

Frestun nemendasýningar Gallerý SÍMEY

Vegna veðurs frestast opnun nemendasýningar í Gallerý SÍMEY í dag. Nánar auglýst síðar.

Auka einbeitingu, draga úr kvíða, efla sjálfsmynd

Hugarfrelsi býður upp á annað námskeið þann 19.11. Fyrr í haust sóttu um 20 manns námskeið sem mikil ánægja var með.

300 manns í námi

Miðvikudaginn 21.október voru hátt í 300 manns í námi hjá SÍMEY þann dag. 170 starfsmenn Búsetudeildar voru á námskeiði um lög og réttindi fatlaðra sem sérfræðingar Velferðaráðuneytis sáu um. Um 50 stjórnendur sátu námskeið á vegum ICE-Lean um straumlínustjórnun (Lean management). Með annarri starfsemi þá var þessum fjölda náð. Þessi námskeið eru dæmi um fjölbreytileika starfseminnar, við hvetjum alla til að kynna sé þá möguleika sem eru í boði, ekki síst stjórnendur á Eyjafjaðarsvæðinu varðandi möguleika í stjórnendanámskeiðum og sí- og endurmenntun fyrir sína vinnustaði.

Að efla einbeitingu og sjálfstraust nemenda

Á námskeiðinu eru kenndar aðferðir Hugarfrelsis; sjálfsstyrking, öndun, jóga, slökun og hugleiðsla. Aðferðirnar miða að því að efla einbeitingu, styrkleika, sjálfsmynd, draga úr kvíða og auka ró og kyrrð nemenda.Innifalið. Kennslubók, verkefnahefti, heilræðaspjöld, geisladiskur með slökunartónlistLengd: 6 klst.kennari: Leiðbeinendur frá Hugarfrelsi (www.hugarfrelsi.is)Hvar: SÍMEY, Þórsstíg 4Hvenær: 13.október kl.13:00-20:00Verð: 29.900

LIFÐU núna! Mindfullness á Akureyri

LIFÐU NÚNA! Mindfulness byltingin er komin til Akureyrar Í boði er hugarró, núvitund, vellíða, gleði og sátt!   — Opinn fyrirlestur með Ásdís Olsen laugardaginn 11. apríl kl. 10:00 til 11:30.  Ef þú hefur ekki stjórn á huganum, hefur hugurinn stjórn á þér!  Mindfulness er öflugasta leiðin sem við þekkjum í dag til að vinna á streitu og efla heilbrigði, jákvætt hugarfar, vellíðan og sátt.  Þetta er áhrifaríkur og umbreytandi fyrirlestur sem veitir þér nýjan skilning á hugarfari, líðan og hegðun.  Við kynnumst því hvernig við getum valið okkur viðhorf og lærum nokkrar hagnýtar Mindfulness æfingar og aðferðir sem gagnast til að staldra við líðandi stund, efla hugarró og sátt.  Lengd: 90 mín.   Kennari: Ásdís Olsen Hvar: SÍMEY Þórsstíg 4 Hvenær: Laugardaginn 11.apríl kl. 10:00 – 11:30 Verð: 5.000,-  ———————— Ásdís Olsen (B.Ed. og M.A.) er skemmtilegur og hrífandi Mindfulness kennari. Hún hefur áralanga reynslu af að kenna Mindfulness við Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í Mindfulness á vinnustöðum.  Ásdís gaf út metsölubókin Meiri hamingja og gerði sjónvarpsþættina Hamingjan sanna á Stöð 2.
— Ásdís lauk kennaranámi í Mindfulness frá Bangor háskóla í Wales – Centre for Mindfulness Research and Practice og sérfræðinámi í Hugrænni atferlismeðferð (HAM) frá Endurmenntun Háskóla Íslands/Oxford, árið 2008. Sjá nánar á www.hamingjuhusid.is    SKRÁNING á www.simey.is eða 460-5720

Samstarf við Sjómennt

SÍMEY hefur gert samning við Fræðslusjóðinn Sjómennt um að þróa bóklegt nám fyrir sjómenn, tungumála og upplýsingatækninámskeið.  Þessi námstilboð verða í boði frá og með næsta hausti. Sjómönnum innan samstarfsfyrirtækjanna verður boðin þátttaka í raunfærnimati m.a. í iðngreinum, fiskveiðum, fiskvinnslu, netagerð ofl.  Þetta er unnið í samstarfi við MÍMI símenntun, IÐUNA fræðslusetur, MSS Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Visku Fræðslu og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja. Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins er einnig samstarfsaðili. Samstarfsaðilar eru valin fyrirtæki á svæðum samstarfsaðila og stéttarfélög. Megintilgangur verkefnisins er að hvetja sjómenn til símenntunar og náms og að búa til námstilboð sem henta starfsvettvang þeirra. Verkefni þetta hefur mikið yfirfærslugildi.

IPAD og Viský

Hátt í 40 manns sóttu námskeið sem Eining Iðja stóð fyrir í samstarfi við SÍMEY í vikunni. Snorri Guðvarðarson hélt Viskýnámskeið sem var afar vel heppnað og Dóróthea Jónsdóttir hélt grunnnámskeið í notkun spjaldtölvunnar. Almenn ánægja var á meðal þátttakenda og áhugi fyrir frekari lærdómi á þessum sviðum. Eining Iðja hefur á undanförnum misserum verið í samstarfi við SÍMEY um námskeiðaframboð fyrir sína félagsmenn sér að kostnaðarlausu. Fleiri námskeið verða eftir áramót.

SAk og SÍMEY í samstarf

SÍMEY og SAk (Sjúkrahúsið á Akureyri) mun fara í samstarf varðandi fræðslu fyrir þá starfsmenn sem eru í ræstingu, býtibúri og mötuneyti. Þetta samstarf kemur í framhaldi af Fræðslustjóra að láni- verkefni sem unnið hefur verið að á þessu ári. Þar sem þarfir þessa hóps voru til símenntunar og annarar uppbyggingar voru skoðaðar. Ríkismennt hefur styrkt þessa vinnu og það námskeiðahald sem framundan er á næsta ári. Sú fræðsla tekur til öryggismála, tölvufærni, samskipta/liðsheild og fleira.

Fræðslustjóri að láni til Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar

Þann 3.september undirrituðu aðilar Ríkismenntar, Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar og SÍMEY samning um Fræðslustjóra að láni. Verkefnið gengur út á að vinna með starfsmönnum að þarfagreiningu nú á haustdögum til að draga fram þarfir vinnustaðarins um fræðslu, þjálfun og aðra uppbyggingu. MARKVISS ráðgjafar frá SÍMEY mundu leiða verkefið ásamt stýrihópi starfsmanna og er áætlað að þessari vinnu ljúki í desember. Ríkismennt styrkir verkefnið að fullu.