Fréttir

Dragan Pavlica fyrirmynd í námi fullorðinna 2015

Undir lok nóvember var Dragan Pavlica, þjónustuliða í VMA, veitt viðurkenning á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem „fyrirmynd 2015 í námi fullorðinna“. SÍMEY tilefndi Dragan til viðurkenningarinnar og var hann einn fjögurra einstaklinga sem fengu slíka viðurkenningu í ár, en hún er í formi heiðurs, hvatningar og spjaldtölvu. Dragan fór á sínum tíma í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og settist þar síðan á skólabekk. Einnig tók hann verklegt nám í VMA og lauk málaraiðn. Nú hefur hann tekið upp þráðinn í náminu í meistaraskólanum og stefnir að því að ljúka honum innan tveggja ára. Dragan lýsti ferli sínum í náminu við útskrift í SÍMEY í dag. Þar kom m.a. fram að hann hefði í hyggju í framtíðinni að stofna eigið fyrirtæki í málaraiðn. Dragan er 48 ára gamall Serbi en bjó í Króatíu þegar stríðið braust út í gömlu Júgóslavíu. Fjölskyldan neyddist til að yfirgefa heimili sitt og fékk skjól í flóttamannabúðum í Serbíu, þar sem hún dvaldi næstu átta ár.  Árið 2003 kom Dragan og fjölskylda (eiginkona, tveir synir og móðir) til Akureyrar í hópi 24 serbneskra flóttamanna, sem höfðu allir búið í Króatíu en flúið þaðan.  „Fljótlega eftir að við komum til Akureyrar fórum við að læra íslensku og það gekk bara nokkuð vel. Eftir eitt ár gat ég lesið aðeins og skrifað en mér fannst erfiðast að tala. Íslenskan er ekki lengur vandamál fyrir mig og konu mína, sem vinnur á elliheimilinu hér, og strákarnir okkar tala málið eins og innfæddir. Annar þeirra, sá yngri, er að ljúka stúdentsprófi frá VMA núna í desember. Móðir mín, sem er núna 67 ára gömul, talar ekki íslensku en hún skilur töluvert.“ Fljótlega eftir að Dragan og fjölskylda komu til Íslands árið 2003 fékk hann vinnu hjá Stefáni Jónssyni, málarameistara. Fimm árum síðar, árið 2008, benti Stefán honum á að nýta sér þjónustu Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.  „Ég fór í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY og fór síðan að læra að verða málari. Tók bókleg fög hér í SÍMEY en verkleg fög í VMA. Úr þessu námi útskrifaðist ég með sveinspróf í málaraiðn. Ég hóf að vinna í VMA árið 2010 en síðar ákvað ég að halda áfram námi og er núna, auk daglegarar vinnu í VMA, að ljúka þriðju önn í meistaraskólanum í fjarnámi, til þess að verða málarameistari. „Mér finnst mjög gott að geta tekið meistaraskólann í fjarnámi. Auðvitað er þetta mikil vinna, mörg hugtök á ég ekki auðvelt með að skilja en þá leita ég bara aðstoðar og það hefur gengið vel,“ segir Dragan. Hann segir að það hafi komið sér mjög á óvart þegar hann fékk upphringingu um að hann hefði verið útnefndur einn af fjórum fyrirmyndarnemendum 2015 í fullorðinsfræðslu. „Það kom mér skemmtilega á óvart en ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þetta,“ segir Dragan Pavlica.   

Útskrift SÍMEY

Útskrift SÍMEY fer fram við hátíðlega athöfn í húsnæði SÍMEY föstudaginn 18. desember kl. 17:00. Nemendur okkar eru hvattir, hér með til að taka daginn frá! Starfsfólk SÍMEY

Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði komið á fót

Á næsta ári verður Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði ýtt úr vör og verður hún til húsa í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Fab Lab smiðjan er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum. Stofnfundur félagsins FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur smiðjunnar, var haldinn á Akureyri í gær. Samþykktir FabEy staðfestu fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Verkmenntaskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Í stjórn FabEy voru kjörnir aðalmenn: Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, atvinnumálafulltrúi Akureyrarbæjar, Benedikt Barðason, áfangastjóri VMA, Erla Björg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri SÍMEY og Sigurður Steingrímsson, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri.  Í samþykktum fyrir FabEy kemur fram að með rekstri á stafrænni smiðju í Eyjafirði sé stefnt að því að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum, verkefninu sé ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Þá er einnig tilgreint það markmið með verkefninu að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda. FabEy mun gera samstarfssamning við VMA um rekstur Fab Lab smiðjunnar. Stefnt er að því að ráða tvo starfsmenn að smiðjunni. Auk Akureyrar hafa sveitarfélög við Eyjafjörð sýnt mikinn áhuga á verkefninu og mun FabEy gera sérstaka samninga við hvert og eitt sveitarfélag sem vill taka þátt. Nú þegar hafa Eyjafjarðarsveit og Hörgárbyggð ákveðið að koma að verkefninu. Auk þess hafa fagfélög við Eyjafjörð lofað stuðningi.  Fab Lab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í Fab Lab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl. Reynslan af Fab Lab smiðjunum sem þegar hefur verið komið á fót hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru Fab Lab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu. Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf Fab Lab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „Fab Lab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra. FabEy mun verða þátttakandi í þessu samstarfi

Höldur lýkur fræðslustjóra að láni

Höldur-Bílaleiga Akureyrar lauk í gær fræðslustjóra að láni verkefni sem hófst formlega í febrúar á þessu ári. Verkefnið fólst í því að þarfagreina allt fyrirtækið m.t.t. sí- og endurmenntunar, þjálfunar í starfstengdri færni og annara jákvæðra breytinga. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar-SÍMEY og IÐAN fræðslusetur unnu verkið. Fyrir liggur fræðsluáætlun til 3ja ára. SVS-Starfsmenntasjóður verslunar og skrifstofufólks styrktu verkefni, Landsmennt og IÐAN fræðslusetur. Fræðsluáætlunin mun ná til allra starfsmanna og felur í sér aukið framboð námskeiða á vinnutíma og utan vinnutíma, aukinni innleiðingu innri fræðslu, bætt upplýsingaflæði, og auknu framboði þjálfunar fyrir Iðnaðarmenn. Höldur-Bílaleiga Akureyrar er rótgróið fyrirtæki með um 200 starfsmenn, höfuðstöðvar eru á Akureyri, og stórar starfsstöðvar í Reykjavík og Reykjanesbæ. Fyrirtækið rekur stærstu bílaleigu landsins, er með alhliða bílaþjónustu, dekkjaverkstæði og bílasölu. Á meðfylgjandi mynd eru samstarfsaðilar í verkefninu: Geir Kr. Aðalsteinsson mannauðsstjóri Hölds, Selma Kristjánsdóttir frá Starfsmenntasjóði verslunar og skrifstofufólks, Iðunn Kjartansdóttir Markvissráðgjafi IÐUNNI fræðslusetri, Kristín Njálsdóttir frá Landsmennt, Valgeir Magnússon Markvissráðgjafi SÍMEY, Sigrún Árnadóttir verkefnisstjóri hjá Höldi / fulltrúi í stýrihóp, Sigurbjörg Sigurðardóttir frá Höldi Reykjavík, Ragnar B. Ingvarsson sviðsstjóri bílgreinasviðs IÐUNNAR.

MIG MAG suðusmiðja-nokkur sæti laus!

SÍMEY býður upp á námskeið í málmsuðu. Í þessari smiðju verður lögð áhersla á MIGMAG suðu. Nemandi sem hefur lokið smiðju í málmsuðu er fær um að sjóða samkvæmt verklýsingum og hefur þekkingu til að vinna sjálfstætt eftir suðuferilslýsingu. Einnig öðlast hann nægilega færni, leikni og öryggi í vinnubrögðum til að hann sé gjaldgengur á vinnumarkaði. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrarformi og verklegri vinnu en auk þessa þurfa þátttakendur að halda verkdagbók á meðan á námskeiði stendur. Miðað er við að fagbókleg kennsla nemai að lágmarki 13 klukkustundum af 80 klukkustunda heildarnámstíma námsins. Lengd:80 klst. Byrjar fljótlega þegar þátttaka hefur náðst. Kennt verður á mánudögum og miðvikudögum kl.16:30-20:30 og föstudögum kl.15:00-19:00 Verð: 28.000 kr. Skráning sendist á valgeir@simey.is eða undir lengri námsleiðir Málmsuðu hér á heimasíðunni

Að efla einbeitingu og sjálfstraust nemenda!

Sérsniðið námskeið fyrir kennara, náms- og starfsráðgjafa Á námskeiðinu eru kenndar aðferðir Hugarfrelsis; sjálfsstyrking, öndun, jóga, slökun og hugleiðsla. Aðferðirnar miða að því að efla einbeitingu, styrkleika, sjálfsmynd, draga úr kvíða og auka ró og kyrrð nemenda.Innifalið. Kennslubók, verkefnahefti, heilræðaspjöld, geisladiskur með slökunartónlistLengd: 6 klst.kennari: Leiðbeinendur frá Hugarfrelsi (www.hugarfrelsi.is)Hvar: SÍMEY, Þórsstíg 4Hvenær: 13.október kl.13:00-20:00Verð: 29.900

Spennandi námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila hefst 21.október

Námskeiðið hefst 21.október, vikuleg myndbönd og verkefni.5 vikna fjarnám og vinnustofa þann 19.nóvember kl.13-17 Námskeiðið er ætlað aðilum í ferðaþjónustu til að skapa sér sess á netinu. Það nýtist sérstaklega einyrkjum og smærri fyrirtækjum án markaðsdeildar til að uppgötva nýjar leiðir til að einfalda alla vinnu við markaðsmál, vöruþróun og samskipti við viðskiptavini á netinu. Hvað er tekið fyrir?Fjallað verður um hagnýtar markaðsaðgerðir, virkni Tripadvisor.com og Facebook og samspil þessara miðla. Skoðuð verða dæmi um frábæra umsagnarækt og tækifæri til úrbóta. Hvað mun ég læra á námskeiðinu?Að námskeiði loknu munu þátttakendur hafa skýr svör við eftirfarandi spurningum:•Hvað eru mikilvægustu markaðsaðgerðirnar fyrir mitt fyrirtæki?•Á hverju byggja aðgerðir sem eru bæði einfaldar og áhrifamiklar?•Hvernig finn ég tíma til að sinna markaðsmálum? •Námskeiðið hefst 21.október með fjarnámi - nemendur fá senda tölvupósta 5 x í viku með kennslumyndböndum og verkefnum.•Námskeiðinu lýkur með vinnustofu 6 kennslustundir, t.d. frá kl. 13-17 á fimmtudaginn 19.11. kl.13-17 Kennari: Helgi Þór Jónsson frá Sponta  Vinnulotan fer fram 19.11, kl.13-17 í SÍMEY, Þórsstíg 4 Verð: 39.000 kr.  Allar frekari upplýsingar hjá SÍMEY og skráning s.4605720 eða á www.simey.is - starfsnám

Starfsmenn Grunnskóla Akureyrar á námskeiði

Fimmta  árið í röð tekur SÍMEY þátt í sí- og endurmenntun skólaliða, stuðningsfulltrúa, ritara, húsvarða og matráða í  grunnskólum Akureyrar með námskeiðinu  „Að verða hluti af heild“. Mikil ánægja hefur verið með þetta námskeið og má segja að það sé orðið hluti af starfsdögum grunnskólanna. Tilgangurinn með námskeiðinu er að efla og hvetja starfsmenn í kröfuhörðum störfum fyrir komandi vetur. Það er von og trú allra sem að þessu verkefni  koma að vel hafi tekist til og skili þátttakendum uppbyggilegri fræðslu sem hægt er að nýta í starfi.Efla skólasamfélagið þannig að starfsmenn grunnskólanna geti dafnað í starfi og veitt nemendum sem besta þjónustu. Námskeiðið var haldið dagana 17. til 20.ágúst og í þetta sinn tóku um 120 starfsmenn þátt í 9 klukkustunda námskeiði þar sem fjallað meðal annars er um samskipti á vinnustað, frímínútnagæslu og leikjastjórnun, og reiðistjórnun/agastjórnun.  Leiðbeinendur hafa allir mikla og víðtæka þekkingu á sínu sviði. Öllum þátttakendur bauðst að sækja viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa til að skoða frekari möguleika til sí- og endurmenntunar að námskeiði loknu. Við hjá SÍMEY og Akureyrarbæ þökkum þátttakendum og leiðbeiendum kærlega samstarfið á námskeiðinu og óskum starfsfólki velfarnaðar í sínum störfum á komandi vetri.   Námskeiðið styrkja Sveitamennt og Mannauðssjóður Kjalar starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni.Námskeið