Afar gagnlegt námskeið í menningarlæsi
13.desember 2015
Núna á haustönn hefur Bryndís Arnardóttir Billa kennt námskeið í menningarlæsi hjá SÍMEY. Þetta er í fyrsta skipti sem þar er boðið upp á slíkt námskeið og segir Billa að reynslan hafi verið mjög góð. Tólf þátttakendur voru í byrjun á námskeiðinu og komu þeir víða að; frá Portúgal, Póllandi, Belgíu, Hollandi, Katalóníu og Rúmeníu.
Á námskeiðinu lagði ég áherslu á að við næðum að finna sameiginlegan flöt til þess að vinna út frá í sjónrænni verkefnavinnu. Við leituðumst við að bera saman ólíkar aðstæður þátttakenda og að þeir deildu með öðrum sinni reynslu og menningarheimi, segir Billa.
Kennt var á íslensku en ef þátttakendur áttu í erfiðleikum með að skilja hugtök þýddi Billa þau á ensku. Mér fannst þetta dásamlegt og það var einstaklega skemmtilegt fyrir mig að fá innsýn í þeirra menningarheim um leið og þátttakendunum fannst auðvitað áhugavert að fá innsýn í okkar menningarheim. Þótt sumir þeirra sem voru á námskeiðinu hafi verið hér á landi í nokkur ár fengu þeir nýja sýn og skilning á ýmsa hluti. Ég miðlaði upplýsingum sjónrænt til fólksins og það var mjög áhugavert fyrir okkur öll. Við vorum að gera þetta í fyrsta skipti en ég segi alveg hiklaust að það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Ég tel til dæmis að varðandi þá flóttamenn sem eru væntanlegir til Akureyrar sé mikilvægt að þeir verði sem fyrst læsir á okkar menningu jafnframt því sem við þurfum sem fyrst að vera læs á þeirra menningu. Í mínum huga er mikilvægt að hafa annað slíkt grunnnámskeið og ég tel einnig vel koma til greina að byggja ofan á þetta námskeið og efna til framhaldsnámskeiðs, segir Billa.
Sem fyrr segir var kennslan á þessu námskeiði að stórum hluta sjónræn og hér má sjá hluta af því sem nemendur unnu á námskeiðinu. Myndsköpunin er til sýnis í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4.
David Barbosa frá Porto í Portúgal er einn þeirra sem tók þátt í menningarlæsisnámskeiðinu hjá Billu. Hann er hæstánægður með útkomuna og segir að námskeiðið nýtist sér vel. Ástæðuna fyrir því að hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum var sú að Brynjólfur Oddsson, skipstjóri hjá Samherja, sem er giftur föðursystur hans, hafi hvatt hann til þess að reyna fyrir sér hér á landi. Í Portúgal hafi hann numið markaðsfræði til þess að nota í ferðamálum en vegna efnahagslægðarinnar þar í landi hafi ekki reynst auðvelt að fá vinnu á því sviði. Brynjólfur hvatti mig til þess að koma til Akureyrar og úr varð að ég og kærasta mín komum í febrúar 2013 og ég fékk vinnu á veitingastaðnum Strikinu. Seinna fór ég einnig að vinna í frystihúsi ÚA og það varð síðan úr að ég var ráðinn sem kokkur í Sveitahótelinu í Sveinbjarnargerði, þar sem ég starfa í dag og þar búum við líka. David segir að yfir vetrarmánuðina sé rólegra í veitingabransanum og þá gefist kostur á að afla sér þekkingar. Úr hafi orðið að bæði hann og kærasta hans ákváðu að taka námskeiðið hjá Billu í menningarlæsi og það hafi verið mjög gagnlegt. Við kynntumst ýmsu varðandi íslenska menningu og einnig fengum við kennslu í að teikna og mála. Þetta var í senn mjög gagnlegt og skemmtilegt, segir David Barbosa.