Fréttir

Frábært nám sem höfðaði sterkt til mín

Dalvíkingurinn Guðbjörg Stefánsdóttir var í hópi nemenda sem lauk námi af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú hjá SÍMEY í síðustu viku. Þetta er fjögurra anna nám sem Guðbjörg segist hæstánægð með að hafa drifið sig í.

Öflugri út í lífið

Ég mun taka mikið með mér úr þessu námi. Tölvukunnáttan hefur aukist til mikilla muna, gerð auglýsinga er mikið markvissari en áður, markaðsfræðin gerði mjög mikið fyrir mig og kenndi mér að nýta samfélagsmiðla og auglýsingasíður mun betur.

Raunfærnimatið var hvatningin sem ég þurfti

„Þetta var hvatningin sem ég þurfti,“ sagði Jenný Dögg Heiðarsdóttir, aðstoðarmatráður á leikskólanum Krílakoti á Dalvík, en hún tók við skírteini við útskrift SÍMEY í dag til staðfestingar á því að hún hafi lokið raunfærnimati í matartækni.

Áttatíu og fimm brautskráðust frá SÍMEY

Áttatíu og fimm nemendur brautskráðust af ýmsum námsbrautum SíMEY við hátíðlega athöfn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg í dag. Þar á meðal brautskráðust fjórir fisktæknar frá Fisktækniskóla Íslands.

Vel heppnað nám samkvæmt nýrri námskrá í velferðartækni

Núna á vorönn hefur SÍMEY í fyrsta skipti boðið upp á nám í velferðartækni og raunar er þetta í fyrsta skipti sem slíkt nám er í boði hér á landi. Um var að ræða nám fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu sem varð til í framhaldi af styrk að upphæð 1,2 milljónir króna frá velferðarráðuneytinu til Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og SÍMEY til að þróa námsefni og námsleið í velferðartækni. Námið, sem hófst í SÍMEY í janúar sl., á sér nokkurn aðdraganda. Fyrir tæpum fjórum árum var unnið stefnuskjal um þróun í velferðarþjónustu og var í framhaldinu auglýst eftir styrkjum til þess að þróa nám í velferðartækni. Öldrunarheimili Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborg sóttu um styrk og síðan komu að verkefninu SÍMEY og Framvegis – miðstöð símenntunar í Reykjavík. Í febrúar 2018 var sett upp verkáætlun fyrir verkefnið og hafist handa við að móta það. Verkefnið var tvíþætt, annars vegar að þróa námsefni í velferðartækni og hins vegar að prufukeyra námið. Í stýrihópi um gerð námskrár voru Halldór S. Guðmundsson frá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar, Ingunn Helga Bjarnadóttir frá SÍMEY og Vigdís Þyrí Ásmundsdóttir frá Framvegis. Í stýrihópi um prufukeyrslu námsins voru auk Halldórs og Ingunnar Helgu Þór G. Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu og Berglind Magnúsdóttir frá Reykavíkurborg. Rýnihópar voru settir upp og í þeim tóku þátt fulltrúar frá Búsetusviði Akureyrarbæjar, Dalbæ á Dalvík, Hornbrekku í Ólafsfirði og Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar. Sambærilegir rýnihópar voru settir upp hjá Framvegis – miðstöð símenntunar í Reykjavík með fulltrúum stofnana og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með vinnu rýnihópanna var að safna saman upplýsingum frá fólki sem vinnur með öldruðum og fötluðum með það að leiðarljósi að vinna námskrá um velferðartækni. Í framhaldinu var síðan gerð námskrá sem er alls 40 klukkustundir á 2. þrepi hæfniramma um menntun hér á landi. Námið skiptist í fimm námsþætti og er markmiðið með því að auka þekkingu og leikni nemenda til þess að takast á við tækniþróun í velferðarþjónustu sem snýr að nýsköpun í tækni og nýtist við umönnun, verklega aðstoð, hjálpartæki, skipulag á heimilum, þjálfun, endurhæfingu, sérkennslu og atvinnu með stuðningi. Annar þáttur verkefnisins fólst í því að prufukeyra námskrána og var það gert í SíMEY núna á vorönn, sem fyrr segir. Þátt tóku 15 manns frá Búsetusviði Akureyrarbæjar, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar og hófst námið með staðlotu 18. janúar sl. og lauk með staðlotu 1. mars. Milli staðlotanna voru fjarkenndar lotur, verkefnavinna og vinnustaðaheimsóknir. Í það heila var námið 40 kennslustundir. Kennslukerfið INNA var notað til samskipta við nemendur og miðlunar námsefnis. Í seinni staðlotunni var námskeiðsmat lagt fyrir þátttakendur og kallað eftir upplýsingum nemenda um hvað hafi tekist vel og hvað mætti betur fara í skipulagi og innihaldi námsins. Í náminu í SÍMEY voru fimm námsþættir: Velferðarþjónusta og tækni, stefnur og starfsumhverfi, samskipti, miðlun og gagnvirkni, velferðarlausnir og vinnustaðaheimsóknir. Leiðbeinendur voru: Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar, Arnar Guðmundur Ólafsson, verkefnastjóri velferðartæknisviðs Reykjavíkurborgar, Þór G. Þórarinsson frá velferðarráðuneytinu, Stefán E. Hafsteinsson, iðjuþjálfi hjá Öryggismiðstöðinni, Aníta Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY og Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY. Nú liggur fyrir skýrsla um þetta verkefni og reynsluna af því. Þar kemur fram að námskráin Velferðartækni hafi fengið vottun sem viðurkennd námsleið í framhaldsfræðslunni og er hún nú aðgengileg á námskrárvef mennta- og menningarmálaráðuneytisins www.namskra.is. Sem þýðir að allar símenntunarmiðstöðvar geta nú boðið upp á nám í velferðartækni fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar með aðkomu Fræðslusjóðs. Á haustönn 2019 stefnir SÍMEY að því að bjóða upp á nám í velferðartækni í samvinnu við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar og mögulega fleiri aðila.

Útskrift SÍMEY vor 2019

Útskrift þátttakenda úr námi hjá miðstöðinni og einnig úr raunfærnimati, verður fimmtudaginn 6.júní kl.17:00

Áframhaldandi vöxtur í starfsemi SÍMEY

Á árinu 2018 sóttu 4.639 manns námskeið á vegum SÍMEY og auk þess nýttu um 700 manns sér aðra þjónustu í tengslum við náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat o.fl.

Boðið upp á raunfærnimat í matreiðslu og matartækni

SÍMEY í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga býður núna á vordögum upp á raunfærnimat fyrir fólk sem starfar í matvælagreinum – matsveina og matartækna - en hefur ekki ákveðna formlega menntun á þessu sviði.

Saga Travel tekur þátt í fræðslu í ferðaþjónustu

Fyrirtækið Saga Travel á Akureyri tekur þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu” og hefur gert samstarfssamning við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar þess efnis. SÍMEY sér um framkvæmd greininga og fræðslu í samstarfi við Hæfnisetrið.  Starfsmenntastjóðirnir Landsmennt, Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks kosta verkefnið undir merkjum Fræðslustjóri að láni og liggur þar fyrir þríhliðasamningur milli SÍMEY, Saga Travel og sjóðanna. Samningurinn tekur strax gildi og er hann til sextán mánuða, til júlí 2020. Samningurinn er víðtækur en rauði þráðurinn í honum er fræðsla fyrir starfsmenn Saga Travel. Myndaður verður stýrihópur innan fyrirtækisins sem mun vinna að verkefninu með Kjartani Sigurðssyni og Emil Bjarkar Björnssyni, verkefnastjórum SÍMEY og Hildi Betty Kristjánsdóttur, starfsmanni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar. Meðal þess sem verður unnið í þessu tilraunaverkefni er að setja upp fræðsluáætlun fyrir Saga Travel. Það verður gert í kjölfar vinnu stýrihópsins innan fyrirtækisins og áðurgreindra sem stýra verkefninu fyrir hönd SÍMEY og Hæfnisetursins.

Sandra Sif Ragnarsdóttir ráðin til starfa hjá SÍMEY

Sandra Sif Ragnarsdóttir er nýr starfsmaður hjá SÍMEY og annast náms- og starfsráðgjöf og ýmis önnur verkefni.