Grunnnámskeið í spænsku á Dalvík

Í þessari viku hófst spænskunámskeið á vegum SÍMEY á Dalvík og verður grunnurinn í spænsku kenndur á námskeiðinu, sem stendur til jóla, en þess er vænst að mögulega verði unnt, ef nægilegur fjöldi þátttakenda fæst, að bjóða upp á framhaldsnámskeið eftir áramót.

Sif Jóhannesdóttir verkefnastjóri, sem hefur umsjón með starfsemi SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð, segir að námskeiðið hafi komið þannig til að hópur fólks á Dalvík hafi sýnt því áhuga að sækja námskeið í spænsku og í kjölfarið hafi verið könnuð möguleg þátttaka. Þegar síðan fékkst tilskilinn lágmarksfjöldi þátttakenda á námskeiðið, sem er átta manns, var farið af stað. Að óbreyttu verða níu á námskeiðinu.

„Á þessu námskeiði verða sex kennslustundir, tvo tíma í senn, og það er kennt í Dalvíkurskóla. Því lýkur fyrir jól og síðan vonumst við til þess að geta farið af stað með framhaldsnámskeið eftir áramót,“ segir Sif.

Hvernig þetta námskeið kom til er til marks um að ef hópur fólks tekur sig saman og hefur áhuga á því að læra ákveðna hluti er um að gera að hafa samband við SÍMEY. Orð eru til alls fyrst.

Bjarney Lea Guðmundsdóttir er kennari á námskeiðinu en hún býr í Ólafsfirði og hefur í gegnum tíðina m.a. verið fararstjóri á Spáni og miðlað spænskukunnáttu sinni til kolleganna í fararstjórn á Spáni.

„Þetta er grunnnámskeið í spænsku og ég fylgi kennslubók sem er notuð á spænskunámskeiðum hjá símenntunarstöðvunum en ég mun einnig sníða námskeiðið töluvert að því fólki sem situr það og reyni að mæta þörfum þess og óskum. Þátttakendur á námskeiðinu eru að stórum hluta fólk sem hefur áhuga á Spáni og hefur ferðast þar en skortir grunnkunnáttu í tungumálinu til þess að geta bjargað sér dags daglega. Auðvitað er takmarkað hversu mikið er hægt að kenna í sex skipti en ég veit þó að við munum komast yfir töluvert á þessum tíma. Fyrst og fremst legg ég áherslu á að þetta verði lifandi og skemmtilegt og vonandi verður hægt að halda framhaldsnámskeið eftir áramót,“ segir Bjarney Lea.

Hún segist hafa kennt fararstjórum spænsku á Kanaríeyjum í tæp tvö ár. „Ég var að vinna þar sem fararstjóri og jafnframt kenndi ég kollegum mínum í fararstjórn spænsku. Ég bjó í fjögur ár á Kanaríeyjum og einnig var ég í tvö ár á Costa del Sol,“ rifjar Bjarney upp.

Óneitanlega er það nokkð löng leið að fara frá hitanum á Kanaríeyjum og í snjóinn norður í Ólafsfjörð. „Já, það er alveg rétt, þetta er eins og svart og hvítt,“ segir Bjarney og hlær. „Ég er uppalin í Njarðvíkunum en á fjölskyldu í Ólafsfirði og var mikið hér sem barn. Ég ákvað síðan að setja mig niður í Ólafsfirði og hér hef ég verið í tæp þrjú ár. Ég rek hótelráðgjafarfyrirtæki sem er með skrifstofur bæði í Reykjavík og hér í Ólafsfirði og einnig er ég með ferðaskrifstofu sem vinnur að því að taka á móti útlendingum í gistingu og skipuleggja ferðir fyrir fólk sem kemur á Tröllaskaga og sömuleiðis aðstoða ég fólk sem fer til útlanda á eigin vegum,“ segir Bjarney og bætir við að hún hafi ekki alveg slitið tengslin við fararstjórn á Kanaríeyjum, þar séu foreldrar hennar fararstjórar yfir vetrarmánuðina og fyrr í þessum mánuði hafi hún unnið þar sem fararstjóri/skemmtanastjóri fyrir Heimsferðir.