Tíu starfsmenn í sjávarútvegi við utanverðan Eyjafjörð luku raunfærnimati í fisktækni

Sex af tíu þátttakendum í raunfærnimati í fisktækni við utanverðan Eyjafjörð voru mættir á útskrifti…
Sex af tíu þátttakendum í raunfærnimati í fisktækni við utanverðan Eyjafjörð voru mættir á útskriftina í húsnæði Einingar-Iðju á Siglufirði.

Í gær, mánudaginn 24. júní, útskrifaði SÍMEY tíu manna hóp við utanverðan Eyjafjörð úr raunfærnimati í fisktækni. Útskriftin fór fram í húsnæði Einingar-Iðju á Siglufirði og eru sex af þessum tíu einstaklingum starfsmenn í rækjuvinnslu Ramma hf. á Siglufirði, þrír starfa hjá fiskvinnslufyrirtækinu Ektafiski á Hauganesi og sá tíundi er sjómaður. 

Þessir tíu starfsmenn hafa mikla og víðtæka reynslu í fiskvinnslu og sjómennsku og er því sannarlega ánægjulegt til þess að vita að þeir hafi með raunfærnimati fengið formlega staðfestingu á reynslu sinni og hæfni í sjávarútvegi. Hér má sjá myndir frá útskriftinni. Sex af tíu sem luku raunfærnimatinu gátu mætt við útskriftina. Á tveimur myndum eru annars vegar Örn Traustason og hins vegar Elín Kjartansdóttir með Kristínu Björk Gunnarsdóttur og Sif Jóhannesdóttur, verkefnastjórum hjá SÍMEY.

Þeir sem fara í raunfærnimat, í hvaða starfsgrein sem er, skulu að lágmarki vera 23 ára að aldri og hafa að baki að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu í starfsgreininni. Í stuttu máli sagt er raunfærnimat ferli þar sem er metin þekking og færni fólks í starfi, námi og félagsstörfum. Markmiðið er að geta sýnt fram á reynslu og hæfni í starfi með formlegum hætti, fá metið starf sitt til styttingar í námi í framhaldinu og að leggja mat á hvernig hver einstaklingur getur styrkt sig í starfi/námi.

Raunfærnimat í fisktækni við utanverðan Eyjafjörð hefur staðið yfir undanfarnar vikur og kom fljótt í ljós að almennt búa þessir starfsmenn yfir mikilli þekkingu og hæfni í sínu starfi og stóðust því raunfærnimatið með miklum ágætum.

Síðastliðinn vetur, nánar tiltekið í febrúar, útskriftaðist níu manna hópur á Þórshöfn á Langanesi úr sambærilegu raunfærnimati í fisktækni, sem var unnið í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og Fisktækniskóla Íslands. Hér má sjá útskriftarnemana níu ásamt Emil B. Björnssyni frá SÍMEY og Heiðrúnu Óladóttur, starfsmanni Þekkingarnets Þingeyinga á Þórshöfn. Á þessari mynd er Ásdís Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands, í samtali við einn af starfsmönnunum sem luku raunfærnimatinu á Þórshöfn.

Frá áramótum hafa á þriðja tug einstaklinga lokið raunfærnimati í fisktækni hjá SÍMEY.