Fréttir

Sumarfrí

SÍMEY lokar í júlí. Starfsfólk er komið aftur til starfa þann 1. ágúst. Á heimasíðu má finna allar helstu upplýsingar um námsframboð haustsins og skráningar. Með sumarkveðju Starfsfólk SÍMEY

Námskeiðahald fyrir ferðaþjónustuna

Dagurinn í dag 19. júní boðar gott varðandi faglega og góða þjónustu í Eyjafirði en haldin voru tvö Þjónanámskeið.

Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar í "Fræðslu í ferðaþjónustu"

Þann 15. maí sl. var undirritaður þríhliða samningur milli SÍMEY, Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um að Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar taki þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu”. SÍMEY sér um framkvæmd greininga og fræðslu í samstarfi við Hæfnisetrið.

Brautskráning í SÍMEY – 112 nemendur luku námi

Það var í senn léttleiki og hátíðarbragur sem einkenndi brautskriftarhátíð SÍMEY í dag. Að þessu sinni brautskráðust 112 nemendur úr fjölbreyttum námsleiðum og tveimur raunfærnimatsverkefnum. Úr vottuðu námi brautskráðust nemendur úr opinni smiðju FABLab, opinni smiðju málmsuðu, opinni smiðju – listasmiðju málun, opinni smiðju – listasmiðju teikningu, opinni smiðju textíl, „Help Start“ enskunámi, sölu-, markaðs og rekstrarnámi, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, félagsliðabrú og bókhaldsnámi (í samvinnu við Tölvufræðsluna á Akureyri). Einnig luku nemendur raunfærnimati í fisktækni (fiskvinnsla og veiðar) og iðngreinum. SÍMEY er nú á sínu átjánda starfsári. Á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY um 4.700. manns. Starfsmenn SÍMEY eru að jafnaði 12 og fyrir miðstöðina vinna allt að 140 verktakar í skemmri eða lengri tíma. Uppskerudagur Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY orðaði það svo að á þessum fallega degi væri nemendur að uppskera. „Þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. Þið hafið bætt við ykkur þekkingu og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur,“ sagði Valgeir. Nýjar áskoranir í síbreytilegum heimi Í síbreytilegum heimi þarf að takast á við nýjar áskoranir á hverjum degi, sagði Valgeir, stöðugt þurfi að nema og víkka skilning fólks á heiminum. „Þegar talað er um að nám eigi sér stað er oft átt við breytingu á hugarfari, nýja sýn og færni og þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða stórvægilega hluti eða hversdagslega, aðalatriðið er að viðkomandi gerði, upplifði og uppgötvaði eitthvað nýtt. Nútímasamfélag býður okkur mannfólkinu að endurskoða reglulega hvað við viljum verða þegar við verðum stór. Við erum ekki lengur með fyrirfram ákveðinn starfsframa sem gildir í hálfa öld eða fram að ellilífeyrisárunum. Með vaxandi áherslu á nám á fullorðinsárum hefur hugtakið ævinám fest sig frekar í sessi. Við skiljum nú betur en nokkurn tíma áður að sá lærir sem lifir. Það sem einkennir hinn fullorðna námsmann er seigla, staðfesta og dugnaður. Að gefast ekki upp þó á móti blási. Það sem einkennir fullorðið fólk sem hefur byggt upp þessa færni er að hafa trú á eigin getu og líta jákvæðum augum á lífið. Það er ábyrgðarfullt, sjálfstætt og ákveðið í að ná sínum markmiðum og geta tekist á við streitu án þess að bugast. Þessir eðlisþættir hjálpa fólki að takast á við mótlæti og vandamál með jafnaðargeði og hjálpar því að ráða við neikvæða þætti í sínu lífi,“ sagði Valgeir. Fyrir og eftir útskriftina í dag fluttu Þórhildur Örvarsdóttir sópransöngkona og Helga Kvam píanóleikari þrjú íslensk sönglög. Auk Valgeirs fluttu ávörp við útskriftina Karl Frímannsson sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar og þrír útskriftarnemar; Eygerður Björg Þorvaldsdóttir, Hólmfríður Sveinmarsdóttir og Haraldur Már Pétursson.

Útskrift SÍMEY 7.06. 2018

Útskrift SÍMEY vegna vorannar 2018, verður kl.17:00 fimmtudaginn 7. júní að Þórsstíg 4.

Fjölbreytt starf fullorðinsfræðslu fatlaðra á vorönn

Starfsemi fullorðinsfræðslu fatlaðra hjá SÍMEY hefur verið með nokkuð hefðbundnu sniði núna á vorönn. Bæði hafa verið í boði styttri námskeið og heildstæðar námsleiðir sem annars vegar njóta fjárhagslegs stuðnings frá Fjölmennt og hins vegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. SÍMEY hefur lengi boðið upp á nám af ýmsum toga fyrir fatlað fólk við Fjölmennt – símenntunar- og þekkingarmiðstöð í Reykjavík, sem er sjálfseignarstofnun og fær fjármagn á fjárlögum hvers árs. Þessi þáttur í starfi SÍMEY byggir á fjárframlögum frá Fjölmennt á grunni þjónustusamnings um nám fyrir fatlað fólk. Fullorðinsfræðsla fatlaðra er afar fjölbreytt og tekur til fólks með þroskahömlun og einnig nær hún til geðfatlaðra og hefur SÍMEY átt gott samstarf við Grófina – geðverndarmiðstöð á Akureyri. Einn af skemmtilegum sprotum þessa samstarfs eru Múrbrjótarnir sem eru reglulegar knattspyrnuæfingar sérstaklega ætlaðar geðfötluðum þar sem áherslan er á hreyfingu og almenna ánægju og vellíðan. Sumarið 2018 verður það þriðja sem boðið er upp á slíkar knattspyrnuæfingar og mun Björk Nóadóttir knattspyrnuþjálfari halda utan um þetta starf í sumar. Hlutfallslega lækkaðar fjárheimildir frá ríkinu til Fjölmenntar og þar með til símenntunarmiðstöðvanna, þ.m.t. SÍMEY, hafa takmarkað getu þeirra til þess að efla fullorðinsfræðslu fatlaðra. Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu hafa fjárveitingar á fjárlögum til Fjölmenntar því sem næst staðið í stað undanfarin níu ár, frá árinu 2009. Þannig voru fjárveitingar til Fjölmenntar árið 2009 258 milljónir króna en 259 milljónir á yfirstandandi ári. Til þess að halda í við verðlagsbreytingar á þessum árum hefði upphæðin átt að vera vera 344 milljónir króna í ár, 85 milljónum króna hærri en hún er. Helgi Þ. Svavarsson verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að þessi raunlækkun fjárheimilda takmarki óhjákvæmilega þjónustuframboð í fullorðinsfræðslu fatlaðra en leitast sé við að nýta fjármunina eins vel og kostur sé og koma til móts við óskir fólks um fræðslu. Helgi segir að núna á vorönn hafi í annað skipti á liðnum tveimur árum verið boðið upp á námsleiðina Sterkari starfsmann. Þessi námsbraut, sem er fjármögnuð með framlagi frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, er liður í Atvinnu með stuðningi sem SÍMEY kemur að í samstarfi við Vinnumálastofnun. Helgi segir að núna á vorönn hafi í annað skipti verið boðið upp á þessa námsleið í fullorðinsfræðslu fatlaðra og einnig hafi áður verið boðið upp á námsleiðina Þjónustuliðann. Helgi segir að SÍMEY hafi verið að vinna ákveðið frumkvöðlastarf í þessum efnum í samstarfi við Vinnumálastofnun og árangurinn sé ótvíræður. Ætlunin sé að halda áfram á sömu braut og áhugi sé fyrir því að þróa þetta nám enn frekar með nánari samstarfi við vinnustaðina. Í Sterkari starfmanni er m.a. lögð áhersla á upplýsingatækni, réttindamál á vinnumarkaði, samskipti á vinnustað og margt fleira. Hér er mynd af nemendum á þessu námskeiði á vorönn á útskriftardegi 14. maí, með einum af kennurum sínum, Önnu Maríu Richardsdóttur. Nemendur settu upp fína sýningu í annarlok og sýndu á sér skemmtilegar hliðar. Einn af þeim þáttum sem er fastur liður í fullorðinsfræðslu fatlaðra en hverskonar listsköpun. Brynhildur Kristinsdóttir hefur haldið utan um smíða- og myndlistarkennsluna, sem er til húsa í Brekkuskóla. Gaman var að sjá fjölbreytta listsköpun nokkurra nemenda á hátíðinni List án landamæra sem fór fram í Deiglunni á Akureyri dagana 26.-27. maí sl.

Endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra ganga vel - tvö námskeið í boði í júní

Reynslan af endurmenntunarnámskeiðum atvinnubílstjóra, sem hófust í febrúar sl., hefur almennt verið mjög góð. Námskeiðin eru haldin í SÍMEY í samstarfi við ökuskólann Ekil á Akureyri. Hvert námskeið hefur verið metið af þátttakendum og er ekki hægt að segja annað en að námsmatið skori bærilega hátt.

Raunfærnimat fyrir starfsfólk á sambýlum og öldrunarstofnunum

Tíu manns sem starfa við umönnun, á öldrunarstofnunum og sambýlum, eru þessa dagana í raunfærnimati í SÍMEY. Í ljósi þess að aðeins tvö ár eru síðan SÍMEY bauð síðast upp á raunfærnimat fyrir fólk í umönnunarstörfum segir Aníta Jónsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem hefur yfirumsjón með raunfærnimatinu, afar ánægjulegt hversu margir starfsmenn hafi skráð sig í raunfærnimatið að þessu sinni.

Góður grunnur fyrir allan rekstur

Í næstu viku útskrifast níu nemendur úr sölu- rekstrar- og markaðsnámi í SÍMEY. Þetta er tveggja anna nám sem hófst sl. haust og er þessa dagana að ljúka. Þráðurinn verður aftur tekinn upp í haust og þá býður SÍMEY upp á samskonar nám sem verður bæði á haust- og vorönn.

SÍMEY býður upp á nám í „Lean Management“ í haust – kynningarfundur föstudaginn 1. júní

Næstkomandi föstudag, 1. júní, kl. 12:00-12:40 heldur Pétur Arason rekstrarverkfræðingur og stofnandi og eigandi fyrirtækisins Manino kynningu á „Lean Management“, sem stendur fyrir straumlínustjórnun og er líklega ein útbreiddasta stjórnunaraðferðin í dag.