SÍMEY fær nýsköpunar- og þróunarstyrk úr Fræðslusjóði

Um er að ræða umfangsmikið þróunar- og nýsköpunarverkefni og hefst undirbúningur við það strax í sum…
Um er að ræða umfangsmikið þróunar- og nýsköpunarverkefni og hefst undirbúningur við það strax í sumar.

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar fékk nýverið úthlutað nýsköpunar- og þróunarstyrk úr Fræðslusjóði að upphæð 3 milljónir króna til þess að þróa matstæki sem gerir fólki kleift að fá greiningu á almennri starfshæfni sinni. Matstækið verði aðgengilegt almenningi á veraldarvefnum.

Hér er um afar víðtækt verkefni að ræða sem felur í sér þróun og aðlögun matstækja til þess að meta almenna starfshæfni. Í verkefninu fellst einnig forritun og þróun vefjar.

Styrknum sem SÍMEY fékk núna úr Fræðslusjóði verður varið til fyrsta áfanga verkefnisins. Kjartan Sigurðsson verkefnisstjóri hjá SÍMEY segir að strax í sumar verði fyrstu skref verkefnisins tekin. Um sé að ræða viðamikið verkefni sem muni eflaust taka nokkur ár að fullvinna. Þetta sé áhugavert nýsköpunarverkefni sem vonandi geti orðið til þess að fólk geti farið á vefinn og fengið þar greiningu á almennri starfshæfni sinni.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins annast umsýslu með Fræðslusjóði sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Samkvæmt þeim er hlutverk sjóðsins að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki, jafnframt því að taka þátt í að skapa skilyrði svo sömu einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri. Framlög til Fræðslusjóð eru ákveðin í fjárlögum hvers árs. Úthlutanir Fræðslusjóðs greinast í meginatriðum í þrennt; framlög til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald, framlög til að mæta kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu. Styrkurinn til SÍMEY er, sem fyrr segir, nýsköpunar- og þróunarstyrkur. Að þessu sinni komu 35 milljónir til úthlutunar úr Fræðslusjóði en tuttugu og sex umsóknir bárust að upphæð röskar 65 milljónir króna.