Gott og áhugavert verkefni með ferðaþjónustufyrirtækjum í Eyjafjarðarsveit

SÍMEY vann verkefnið með Ferðamálafélagi Eyjafjarðar. Hér er horft af Súlum yfir hluta Eyjafjarðarsv…
SÍMEY vann verkefnið með Ferðamálafélagi Eyjafjarðar. Hér er horft af Súlum yfir hluta Eyjafjarðarsveitar.

Á vormánuðum 2017 fékk SÍMEY styrk kr. 2.850.000 úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslu til þess að þróa líkan fyrir starfsþróun lítilla fyrirtækja og/eða einyrkja í ferðaþjónustu. Verkefnið tók til ferðaþjónustufyrirtækja í Eyjafjarðarsveit og var Ferðamálafélag Eyjafjarðar samstarfsaðili í verkefninu. Verkefninu er nýlega lokið og liggur nú fyrir skýrsla um það sem umsjónarmenn verkefnisins hjá SÍMEY, Kjartan Sigurðsson og Helgi Þ. Svavarsson, unnu.

Sem fyrr segir var verkefnið, sem ber yfirskriftina Raunfærnimat og starfsþróun í ferðaþjónustu, unnið með Ferðamálafélagi Eyjafjarðar sem eru samtök tuttugu og fjögurra fyrirtækja og stofnana í ferðaþjónustu í Eyjafjarðarsveit – auk tveggja heiðursfélaga. Þessir aðilar eru: Ásar Guesthouse, Brúnalaug Guesthouse, Brúnir Horse, Draumagisting Casa magna, Dyngjan Lysthús, Great View guesthouse, Guesthouse Uppsalir, Hafdals hótel, Hestaleigan Kátur, Holtsel, Hælið saga um setur berklana, Iceland Yurt, Inspiration Iceland, Íslandsbærinn Old Farm, Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar, Kaffi Kú, Lamb inn Öngulstöðum, Silva gisting, Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Sólarmusterið Sigríður Ketilsdóttir, Teigur Holiday Home, Wide Open, Ysta-Gerði og Þverárgolf. Heiðursfélagarnir eru Galleríið í sveitinni og Ytra-Laugaland gisting.

Kjartan Sigurðsson segir að áherslur í verkefninu hafi tekið nokkrum breytingum frá upphaflegum markmiðum, ekki síst í ljósi þess að um hafi verið að ræða marga einyrkja í ferðaþjónustu. Ákveðið hafi verið að finna með hvaða hætti mætti nýta aðferðir framhaldsfræðslunnar til þess að efla starfsþróun innan einyrkjafyrirtækja í ferðaþjónustunni með það að markmiði að búa til líkan sem hægt væri að styðjast við til eflingar starfsþróunar einyrkja í ferðaþjónustu og um leið að efla fyrirtækin og auka gæði þeirra. Sett var upp námskeið til þess að finna út hvernig fyrirtækin gætu unnið nánar saman og eflt markaðssetningu. Kjartan segir að margir hafi verið að vinna að markaðssetningu í sínum hornum en upplifun sín hafi verið sú að verkefnið hafi leitt aðila saman til sameiginlegs átaks, þeir hafi haft sömu sýn á hlutina og verkefnið hafi aukið meðvitund fyrirtækjanna um að þau hefðu í huga að vísa á önnur fyrirtæki í sveitarfélaginu með afþreyingu, gistingu og veitingar, í stað þess að vísa á aðila utan sveitarfélagsins.

Kjartan segist meta það svo að góður árangur hafi orðið af þessu verkefni. Nú sé því lokið innan þess ramma sem því hafi verið markaður en núna sé verkefni ferðaþjónustufyrirtækjanna í Eyjafjarðarsveit í þessum efnum rétt að byrja, mikilvægt sé að vinna áfram markvisst að þeim hlutum sem voru leiddir fram og unnið með í verkefninu.