Þriðji markþjálfahópurinn útskrifaður

Á þessari mynd, sem var tekin við lok námskeiðsins í gær, eru frá vinstri: Helgi Þorbjörn Svavarsson…
Á þessari mynd, sem var tekin við lok námskeiðsins í gær, eru frá vinstri: Helgi Þorbjörn Svavarsson, María Hólmgrímsdóttir, Kristín Irene Valdemarsdóttir, Brynhildur Óladóttir, Sigurbjörg Ósk Sigurðardóttir og Matilda Gregersdotter kennari. Á myndina vantar Evu Dögg Fjölnisdóttur.

Í gær var síðasti dagur þriðja hópsins sem lýkur staðarnámi í markþjálfun í SÍMEY. Að þessu sinni luku sex náminu og fengu viðurkenningaskjöl því til staðfestingar. Leiðbeinandi á námskeiðinu var sem fyrr Matilda Gregersdotter, MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hún hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation.

Fyrir ári síðan var fyrsta slíka námskeiðið haldið á Akureyri – raunar fyrsta markþjálfanámskeiðið utan Reykjavíkur. Matilda setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama tíma hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Námið í SÍMEY er grunnnám í markþjálfun, svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku sex - fimm konur og einn karl - staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjöl því til staðfestingar. Námi sexmenninganna er þó ekki að fullu lokið því í vetur munu þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun í netumhverfi.

Markþjálfun verður ekki svo auðveldlega skilgreind eða lýst í einni setningu. Matilda Gregersdotter segir að markþjálfun megi e.t.v. lýsa sem samtalsaðferð þar sem einstaklingurinn læri m.a. ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins.

Sem fyrr segir er um að ræða grunnnám í markþjálfun en síðan er unnt að fara í framhald og öðlast þannig alþjóðlega vottun sem markþjálfi. Hér segir einmitt frá nemendum sem tóku grunnnámið á Akureyri og héldu síðan áfram í framhaldsnám.

Þrjú námskeið í markþjálfun eru sem sagt að baki á Akureyri og það fjórða er á dagskrá eftir áramótin. Hér eru allar upplýsingar og skráning á það námskeið.