Boðið upp á FabLab smiðju í febrúar 2016

Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FabEy.
Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FabEy.

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er einn af aðilum að FabLab smiðju – FabEY - sem að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum að því að standsetja í húsnæði VMA. Nú hefur SÍMEY auglýst opna smiðju í FabLab, sem hefst í febrúar á næsta ári fyrir 20 ára og eldri. Um er að ræða 80 klukkustunda smiðju, þar af eru 13 klukkustundir ætlaðar í fabóklega kennslu.

Jón Þór Sigurðsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri hinnar nýju FabLab smiðju í VMA og hefur hann að undanförnu verið að standsetja rými smiðjunnar, sem er að stærstum hluta í tveimur kennslustofum sem rafiðnaðardeild VMA hafði áður til afnota. Tækjabúnaður smiðjunnar er að stórum hluta kominn á sinn stað – þ.m.t. tvær laserskurðarvélar, lítill fræsari, fjórir þrívíddarprentarar og vínilskeri. Til viðbótar er von á stórum svokölluðum CNC-fræsara og einnig er þessa dagana að koma í hús tölvubúnaður fyrir notendur smiðjunnar. Bóklega kennslan fer fram í minna rýminu – tölvustofunni – en verklegi hlutinn verður í rýmri stofunni.

Nú þegar er byrjað að prufukeyra búnaðinn í FabLab smiðjunni og lofar þær tilraunir góðu. Gera má ráð fyrir að smiðjan verði komin í næsta mánuði eða byrjun næsta árs í endanlega mynd og þá verður hægt að bjóða fólki að nota hana. Fyrri hluta dags er miðað við að smiðjan verði nýtt af nemendum grunn-, framhaldsskóla og háskóla en seinni part dags nýti aðrir smiðjuna, þar á meðal þeir sem skrá sig í FabLab-smiðju SÍMEY.

Jón Þór Sigurðsson er Akureyringur í húð og hár. Hann á að baki þrjú ár í margmiðlunarhönnun í Barcelona á Spáni og síðan tók hann eitt ár til meistaraprófs í stafrænum arkitektúr.

Stofnfundur félagsins FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur smiðjunnar, var haldinn á Akureyri fyrir nákvæmlega ári, 12. nóvember 2015. Samþykktir FabEy staðfestu fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Verkmenntaskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og SÍMEY.

Í samþykktum fyrir FabEy kemur fram að með rekstri á stafrænni smiðju í Eyjafirði sé stefnt að því að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum, verkefninu sé ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Þá er einnig tilgreint það markmið með verkefninu að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda.

FabLab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. FabLab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. 

Reynslan af FabLab smiðjunum sem þegar hefur verið komið á fót hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru FabLab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu.

Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf FabLab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „FabLab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra. FabEy mun verða þátttakandi í þessu samstarfi.