Fréttir

Kynningarfundur 28. apríl nk. á raunfærnimati fyrir sjómenn

Næstkomandi föstudag, 28. apríl, verður kynningarfundur á raunfærnimati fyrir sjómenn kl. 10:00-11:00 í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg. Fyrst og fremst verður á fundinum, sem er öllum áhugasömum opinn, leitast við að varpa ljósi á hvað felst í raunfærnimati. Í sem stystu máli snýst raunfærnimat um að viðkomandi einstaklingur fá viðurkennda færni sína og reynslu, oft og tíðum með starfi sínu um árabil, án þess að hafa af einhverjum ástæðum lokið námi í viðkomandi fagi. Með öðrum orðum er með raunfærnimati verið að kortleggja færni og auka möguleika viðkomandi til þess að bæta við sig í námi eða annarri uppbyggingu. Möguleikarnir eru óendanlega margir. Þeir sjómenn sem hafa starfað til sjós að lágmarki í þrjú ár og eru 23ja ára og eldri geta gengist undir raunfærnimat. Raunfærnimatið er bæði opið starfandi sjómönnum og einnig sjómönnum sem áður hafa verið til sjós – að lágmarki í þrjú ár - en eru það ekki lengur. Sjá bækling um raunfærnimat á íslensku. Og hér er myndband um raunfærnimatið. Fjölmargir hafa farið í gegnum raunfærnimat – úr ólíkum geirum atvinnulífsins – og almennt má segja að það hafi gefið mjög góða raun. Með kynningarfundinum nk. föstudag á Akureyri vill SÍMEY vekja sérstaklega athygli á raunfærnimati fyrir sjómenn. Annar sambærilegur fundur fyrir sjómenn við utanverðan Eyjafjörð verður á Dalvík föstudaginn 12. maí kl. 10:00-11:00.

Sterkari starfsmaður - tíu nemendur brautskráðir í dag

Í dag brautskráði SÍMEY tíu nemendur úr náminu „Sterkari starfsmaður“, sem er 150 kennslustunda námsleið á fyrsta hæfniþrepi og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið hefur verið unnið í samvinnu við „Atvinna með stuðningi“ hjá Vinnumálastofnun. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt nám er sett upp hér á landi í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar. Námið hófst í nóvember á síðasta ári og er tvíþætt, annars vegar upplýsingatækni og hins vegar sjálfsstyrking og samskipti. Námsleiðin er sérstaklega sett upp með hliðsjón af þörfum fólks með stutta skólagöngu sem vill auka færni sína í upplýsingatækni og tölvum. Helgi Þ. Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem hefur haft yfirumsjón með náminu, segir að það hafi í heildina gengið mjög vel og engin spurning sé að það gagnist þátttakendum mjög vel og sé til þess fallið að efla og styrkja fólk í starfi og daglegu lífi. Sem fyrr segir hefur sambærilegt fræðsluverkefni ekki áður verið unnið hér í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar og segir Helgi ánægjulegt hversu vel hafi tekist til og í ljósi reynslunnar verði í framtíðinni stefnt að því að halda eitt slíkt námskeið á hverjum vetri.

Þjónandi forysta með léttum morgunverði

Fimmtudaginn 6. apríl nk. kl. 08:30 - 10:00 verður morgunverðarfundur í boði SÍMEY fyrirtækjasviðs í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg, þar sem dr. Sigrún Gunnarsdóttir heldur fyrirlestur um þjónandi forystu. Við sama tækifæri verður kynntur fyrirtækjabæklingur SÍMEY, sem nýlega kom út. Fyrirlestur dr. Sigrúnar er ætlaður stjórnendum fyrirtækja og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Dr. Sigrún Gunnarsdóttir er dósent við Háskólann á Bifröst og hefur einnig kennt við aðra hérlenda háskóla. Jafnframt leiðir hún Þekkingarsetur um þjónandi forystu. Í Háskólanum á Bifröst er Sigrún verið dósent á viðskiptasviði með áherslu á kennslu og leiðsögn rannsókna um forystu og stjórnun. Í fyrirlestri sínum í SÍMEY mun Sigrún fjalla um hvernig svokölluð þjónandi forysta (Servant Leadership) getur verið leið til að bæta árangur á vinnustöðum með áherslu á markviss samskipti og samvinnu. Í því sambandi mun hún fjalla um hvernig nýta megi góða hlustun, skarpa sýn á tilgang verkefna, sjálfsþekkingu og auðmýkt til að rækta innri starfshvöt og ábyrgðarskyldu sem verði síðan grunnur að starfsánægju og árangri fyrirtækja. Í einni af mörgum tímaritsgreinum sem Sigrún hefur skrifað um þjónandi forystu skilgreinir hún viðfangsefnið á þennan hátt: „Þjónandi forysta er ólík hugmyndum um stjórnun og forystu sem ríkt hafa hér á landi undanfarna áratugi. Hún felur í sér mannúð og siðgæði sem birtist í umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Þjónandi forysta grundvallast á jafningjabrag, samstilltri þátttöku starfsfólks og samfélagslegri ábyrgð. Hugmyndin gerir kröfu til sjálfsþekkingar og innri styrks leiðtogans umfram það sem tíðkast í viðteknum stjórnunarstíl og forystukenningum. Hið einstaka er að forystan er veitt með þjónustu við samstarfsfólk og samfélag.“ Skráning á morgunverðarfyrirlesturinn 6. apríl nk. er á heimasíðu SÍMEY https://www.namsnet.is/simey/applications/?progid=54242 Rétt er að undirstrika að morgunverðurinn og fyrirlesturinn er þátttakendum að kostnaðarlausu. Sem fyrr segir verður við sama tækifæri nýlegur fyrirtækjabæklingur SÍMEY kynntur en hann var gefinn út í nóvember á síðasta ári og gefur gott yfirlit yfir þá margþættu þjónustu sem SÍMEY býður atvinnulífinu upp á. Óhætt er að segja að margt sé í boði, t.d. ráðgjöf, námskeiðahald, markþjálfun og þarfagreining.

Gagnrýnin og skapandi hugsun í síbreytilegum heimi

Heimurinn breytist hratt þessi misserin. Það sem var í gær verður ekki á morgun. Tæknibreytingarnar eru hraðar sem aldrei fyrr og áður en langt um líður verður drjúgur hluti þeirra starfa sem nú eru á vinnumarkaði unninn af tölvum. Að óbreyttu þýðir það fjöldaatvinnuleysi. Handan við hornið er fjórða iðnbyltingin og hún er í raun nú þegar hafin. Gervigreind er hugtak sem verður æ meira áberandi í umræðunni. Öll heimsbyggðin stendur frammi fyrir stórum áskorunum. Mikil óvissa svífur yfir vötnum og hún teygir sig út um allt samfélagið – hún nær til atvinnulífsins, stjórnkerfisins, félagasamtaka o.fl. Þetta er í stórum dráttum sú mynd sem Hrund Gunnsteinsdóttir, þróunar- og átakafræðingur, dró upp í fyrirlestri í SÍMEY í dag. Hrund hefur víða komið við bæði hérlendis og erlendis. Hún heldur fjölda fyrirlestra hér á landi og erlendis, hefur skrifað fjölda greina um m.a. skapandi og gagnrýna hugsun, er formaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs og hefur unnið að ýmsum verkefnum hér á landi og erlendis, t.d. hefur hún unnið að stórum verkefnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, t.d. í Kosovo eftir stríðið á Balkanskaga. Fyrirlestur sinn kallaði Hrund „Gagnrýnin og skapandi hugsun í síbreytilegum heimi“ og þar velti hún upp ýmsum áhugaverðum hliðum á þjóðfélagsþróuninni og þeim hröðu breytingum sem þjóðir heims takast á við þessi misserin. Hún nefndi að Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum) hafi sett það fram að eftirsóknarverðustu hæfniskröfur á vinnumarkaði árið 2020 séu í fyrsta lagi að geta leyst flókin vandamál, í öðru lagi skapandi og gagnrýnin hugsun og í þriðja lagi mannleg samskipti. Hrund fjallaði um skapandi og gagnrýna hugsun frá ýmsum hliðum og velti fyrir spurningunni „hvað er skapandi hugsun?“ Hún sagði ekkert einhlítt svar vera við þeirri spurningu en hins vegar væri ástæða til þess, í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem ættu sér stað, að endurhugsa menntunina að töluverðu leyti (sú vinna væri raunar þegar hafin) og efla þyrfti svokallaða frumkvöðlahugsun. Hrund sagði það segja ýmislegt um hina hröðu þróun að 65% ungs fólks í heiminum eigi í framtíðinni eftir að vinna störf sem ekki eru til í dag. Hrund skrifaði handrit að heimildamyndinni Innsæi – the sea within sem var frumsýnd í Berlín á síðasta ári og frumsýnd á Íslandi í Bíó Paradís í október sl. Í myndinni er fjallað frá ýmsum hliðum um hvernig nýir tímar kalli á breytt hugarfar og meðvitaða skynjun. Rétt er að geta þess að myndin verður sýnd í Ríkissjónvarpinu um páskana.

SÍMEY býður upp á raunfærnimat í sjávarútvegi

Nú stendur yfir skráning í raunfærnimat á vegum SÍMEY fyrir fólk sem starfar í sjávarútvegi eða í tengslum við sjávarútveg – fiskvinnslufólk, sjómenn og fólk sem starfar í netagerð. Sem fyrr er markmiðið með raunfærnimatinu að þátttakendur fái reynslu sína og þekkingu af oft og tíðum margra ára starfi metna inn í nám auk þess sem þátttakendur eru veittar upplýsingar um hvaða leiðir þeim eru færar í námi. Einnig er litið á raunfærnimat sem öflugt tæki til þess að efla starfsfólk og gera það hæfara í sínu starfi. Raunfærnimatið er gert samhliða vinnu fólks. Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að raunfærnimat hafi sýnt sig að vera afar mikilvægur þáttur í að ýta undir að fólk sæki sér aukna starfsmenntun og um leið sé raunfærnimatið vel til þess fallið að efla starfsfólk í sínu starfi. Valgeir segir að á næstunni muni SÍMEY hafa samband við sjávarútvegsfyrirtæki við Eyjafjörð og kynna raunfærnimatið fyrir þeim. .Hann væntir góðrar þátttöku og bindur vonir við að í framhaldinu verði mögulegt næsta haust að hefja á Akureyri fjögurra anna fiskvinnslunám í samstarfi við Fisktækniskóla Íslands, sambærilegt við nám sem SÍMEY býður nú upp á á Dalvík í samstarfi við Fisktækniskólann og Menntaskólann á Tröllaskaga. Það nám hófst sl. vor og segir Valgeir það hafa gengið afar vel og þátttaka mikil.

Háskólabrú í tveggja ára staðnámi á Akureyri næsta haust

Stefnt er að því að bjóða upp á svokallaða „Háskólabrú“ næsta haust í samstarfi Keilis og SÍMEY, verði næg þátttaka. Eins og nafnið gefur til kynna er námið sett upp til undirbúnings fyrir háskólanám og verður það til tveggja ára í staðnámi á Akureyri. Háskólabrú Keilis hefur til nokkurra ára boðið upp á nám fyrir fólk sem ekki hefur lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis. Fyrirkomulag námsins tekur mið af því að þeir sem það stunda geti jafnframt sótt vinnu. Helgi Þorbjörn Svavarsson verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að námið verði í svokölluðum staðlotum þrisvar í viku, seinnipart dags, og einnig á laugardögum. Eitt fag verður kennt í einu. Að sögn Helga Þorbjörns verður að þessu sinni boðið upp á nám í félagsvísinda- og lagadeild Keilis en vilji fólk styrkja sig frekar á t.d. raungreinasviði geti það bætt við sig raungreinum í fjarnámi. Möguleikarnir til þess að raða saman námi hvers og eins segir Helgi að séu þannig miklir. Tvisvar áður hafa Keilir og SÍMEY átt samstarf um slíkt nám og hefur reynslan af því verið mjög góð. Hér eru frekari upplýsingar um Háskólabrú Keilis og hér er hægt að sækja um námið.

Stökkpallur skilar góðum árangri

Stökkpallur er heiti á námsleið hjá SÍMEY sem sextán nemendur byrjuðu á 19. janúar sl. Þar af komu fjórtán nemendur í gegnum Vinnumálastofnun og tveir frá Fjölsmiðjunni. Umsjón með náminu hafa Anna Lóa Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY og Guðfinna Árnadóttir frá Vinnumálastofnun. Náminu lýkur 30. mars nk. Stökkpallur er hluti af námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er 180 klukkustunda langt. Áhersla er lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust þátttakenda og þjálfa þá til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi eða til áframhaldandi náms. Þá er lögð áhersla á að þátttakendur vinni markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu og skapandi verkefnum. Anna Lóa segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að skapa gott andrúmsloft fyrir hópinn og byrja hvern dag á morgunmat og spjalli og efla þannig félagstengslin til að auka líkur á því að hópurinn sjálfur væri ákveðið félags- og stuðningsnet. „Það er skemst frá því að segja að hópurinn – sem er á aldrinum 17-28 ára - er algjörlega til fyrirmyndar. Þátttakendur töluðu strax um að námið hefði komið þeim á óvart, það væri gott að hitta aðra í sömu stöðu og þetta væri nauðsynlegt til að snúa sólarhringnum við og komast í rútínu. Þátttakendur hafa lýst yfir ánægju sinni og talað um mikla fjölbreytni, áherslu á sjálfstyrkingu og tengsl við atvinnulífið,“ sagði Anna Lóa og bætti við að einn þátttakenda hefði orðað það svo að námið hefði orðið til þess að hann hafi farið að hugsa hlutina upp á nýtt og séð þá í öðru ljósi. Þá nefndi Anna Lóa að gestir sem hafi komið í heimsókn úr atvinnulífinu hafi hrósað hópnum fyrir góðar móttökur og gagnlegar og áhugaverðar spurningar. „Við hjá SÍMEY og þátttakendur erum mjög ánægð með hvernig til hefur tekist og við stefnum að því að hafa Stökkpall aftur á boðstólum - svo framarlega sem þörfin verði til staðar,“ segir Anna Lóa Ólafsdóttir.

Árangursríkt samstarf við Slippinn Akureyri

Síðastliðið haust hóf SÍMEY samstarf við Slippinn Akureyri ehf. í framhaldi af því að fyrirtækið óskaði eftir greiningu á þörf fyrir fræðslu og menntun starfsmanna fyrirtækisins og tillögum um úrbætur í ýmsum málum er lúta að samskiptum, líðan og aðbúnaði starfsmanna. Gerður var samningur um verkefnið í septemberbyrjun 2016. Slippurinn gerði jafnframt samning við Iðuna fræðslusetur, endurmenntunarsjóðinn Landsmennt og Verkstjórasamband Íslands um „Fræðslustjóra að láni“. Ráðist var í þarfagreiningu innan Slippsins Akureyri eftir hugmyndafræði Markviss, en sú greining byggir á þörfum viðkomandi á fræðslu og öðru sem tengist uppbyggingu starfsmanna. Einnig var gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna og einnig farið í starfagreiningu. Stýrihópur var myndaður innan Slippsins og voru í honum sjö starfsmenn fyrirtækisins. Einnig vann Kristján Heiðar Kristjánsson mannauðs- og gæðastjóri Slippsins ötullega að verkefninu. Af hálfu SÍMEY hafa unnið að verkefninu Emil Bjarkar Björnsson, Helgi Þorbjörn Svavarsson og Ingunn Helga Bjarnadóttir. Frá því að verkefnið hófst í september sl. hafa verið haldnir fjórtán fundir, þ.m.t. fundir stýrihópsins og almennir starfsmannafundir. Lokafundur verkefnisins verður síðan haldinn að ca. hálfum mánuði liðnum. Þar er er ætlunin að kynna útfærða fræðsluáætlun fyrir 2017, sem ætlunin er að vinna eftir í framhaldinu. Kristján Heiðar Kristjánsson mannauðs- og gæðastjóri Slippsins Akureyri segist afar ánægður með hvernig til hafi tekist í samstarfi við SÍMEY. „Ég er gríðarlega ánægður með samstarfið og tel að verkefnið hafi tekist mjög vel. Þegar við fórum af stað með þetta verkefni vorum við að leita eftir sérfræðiráðgjöf í fræðslumálum fyrir starfsmenn fyrirtækisins en síðan Slippurinn Akureyri var settur á stofn hefur ekki verið ráðist í slíkt fræðsluátak fyrir starfsmenn fyrirtækisins,“ segir Kristján og upplýsir að heildarstarfsmannafjöldi Slippsins sé um 160 manns. „Það má segja að afurð þessarar vinnu síðan sl. haust sé beinagrind að fræðsluáætlun sem við ætlum okkur að byrja að vinna eftir strax núna á vorönn 2017 og horfum við til þess að eftir þessari fræðsluáætlun verði unnið til loka haustannar 2018. Fræðsluáætlunin tekur mið að óskum fólks innan fyrirtækisins en í stýrihópi verkefnisins voru fulltrúar sem komu úr mismunandi deildum fyrirtækisins. Það má því orða það svo að eignarhald þessa verkefnis sé í höndum starfsmannanna sjálfra. Við sjáum fyrir okkur að fræðsluáætlunin taki til um 140 af 160 starfsmönnum fyrirtækisins – þar er um að ræða starfsmenn „á gólfinu“ og millistjórnendur – þ.e. verkstjóra. Námskeiðin koma til með að verða bæði hér innan svæðisins og einnig verður leitað út fyrir athafnasvæði Slippsins,“ segir Kristján. Hann segist hafa væntingar um að þetta fræðsluátak muni skila sér í aukinni starfsánægju og fagþekkingu. „Almennt vil ég segja að sú vinna sem þegar hefur farið fram er fyllilega í takti við okkar væntingar. Af hálfu stjórnenda Slippsins er mikill skilningur á því að efla fræðslu starfsmanna og gefa þeim tíma til þess afla sér aukinna þekkingar,“ segir Kristján Heiðar Kristjánsson.

Mikil aðsókn að FAB-Lab námskeiðum

Aðsókn á fyrstu námskeiðin í FAB-Lab smiðjunni, sem er í húsakynnum Verkmenntaskólans á Akureyri, hefur farið fram úr öllum vonum. Fyrsta námskeiðið hófst í síðustu viku og nú þegar er fullbókað á næsta námskeið sem hefst 28. febrúar nk. Ekki er unnt að bæta við fleiri námskeiðum fram á vorið því hvert námkeið er 80 klukkustundir og lýkur námskeiðinu sem hefst 28. febrúar um miðjan maí. Nú þegar er farið að skrá niður fyrirspurnir á námskeið næsta haust. Á námskeiðunum kenna Helga Jónasardóttir, vöruhönnuður og kennari við listnámsbraut VMA, Halldór Grétar Svansson, þrívíddarhönnuður og Ólafur Pálmi Guðnason, sem kennir þrívíddarforritun. Föstudaginn 3. febrúar sl. var boðið til kaffisamsætis í FAB-Lab smiðjunni þar sem voru m.a. fulltrúar rekstraraðila smiðjunnar og þeirra fyrirtækja sem fjárhagslega hafa lagt henni lið við kaup á tækjabúnaði. Að FAB-Lab smiðjunni hafa staðið frá upphafi VMA, SÍMEY, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbær. Auk þess leggur Eyjafjarðarsveit smiðjunni til rekstrarframlag. Stofnsamningur um smiðjuna tekur til áranna 2016 til 2018. FAB-Lab smiðjan er ágætlega tækjum búin. Norðurorka lagði smiðjunni til myndarlega fjárupphæð til tækjakaupa. Einnig lögðu tækjakaupum lið KEA, SS Byggir, Höldur og Byggiðn – stéttarfélag. Fyrri part dags – til kl. 16 – nýta skólar á svæðinu smiðjuna en seinnipart dags eru þar námskeið á vegum SÍMEY og almenningur fær einnig aðgang að smiðjunni. Á FB-síðu smiðjunnar verður hægt að fylgjast með starfseminni og einnig verður settur upp sameiginlegur Snapchat-reikningur fyrir allar sjö FAB-Lab smiðjur landsins. Næstkomandi föstudaga, 17. febrúar, verður opið hús fyrir almenning í FAB-Lab smiðjunni í VMA, þar sem allir áhugasamir geta komið og kynnt sér starfsemina.

Desemberbrautskráning í SÍMEY - sextíu brautskráðir

Sextíu nemendur brautskráðust frá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar við hátíðlega athöfn í SÍMEY í gær. Jafnan er útskrifað tvisvar á ári – í lok haustannar og síðan aftur í lok vorannar. Áður en sjálf brautskráningin hófst fluttu Þórhildur Örvarsdóttir, söngkona, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti, tvö jólalög af nýútkomnum diski Þórhildar, sem hún einfaldlega kallar Hátíð. Þau fluttu síðan eitt lag til viðbótar af diskinum við lok brautskráningarinnar. Sem fyrr segir brautskráðust að þessu sinni sextíu nemendur frá SÍMEY. Nám þeirra var eins og vera ber ólíkt. Nemendurnir komu af eftirtöldum brautum: „Help – Start“ - grunn og framhaldshópur, enskunám fyrir lesblinda, listasmiðja málun, listasmiðja teikning, Fræðsla í formi og lit, Skrifstofuskólinn dagnám, Skrifstofuskólinn kvöldnám og Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, og Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri, önnuðust brautskráninguna. Auk brautskráningarræðu Valgeirs fluttu ávörp Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, Magnea Karen Svavarsdóttir, einn nemendanna sem útskrifaðist úr Skrifstofuskólanum dagnámi, og Vésteinn Aðalgeirsson, sem hóf sitt nám í SÍMEY árið 2015 og var annar tveggja sem voru útnefndir í nóvember sl. til viðurkenningarinnar „Fyrirmynd í námi fullorðinna“. Hólmkell amtsbókavörður sagðist hafa fylgst vel með þróun SÍMEY, sem á sínum tíma hafi m.a. sprottið upp úr Menntasmiðju kvenna. Ánægjulegt hafi verið að fylgjast með því mikilvæga starfi sem unnið sé í SÍMEY í því skyni að hækka menntunarstigið á svæðinu. Nefndi Hólmkell að oft væri erfitt fyrir fólk að stíga út fyrir þægindarammann í daglegu lífi og setjast á skólabekk á nýjan leik, eftir langt hlé. Það þekkti hann sjálfur, því hann hafi stigið þetta skref á liðnu hausti þegar hann hóf fjarnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Erfiðast sé að taka ákvörðunina og stíga fyrstu skrefin, en síðan þegar yfir þröskuldinn sé komið sé ánægjan ein sem því fylgi að endurræsa hugann, ef svo megi segja. Hólmkell sagðist samfagna öllum þeim nemendur sem nú hefðu lokið góðum áfanga í SÍMEY og óskaði þeim til hamingju með daginn. Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði að með brautskráningunni væru nemendur að uppskera og dagurinn gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. „Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu,“ sagði Valgeir. „Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi er þessi dagur líka afar mikilvægur því á honum kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Einhvers staðar segir að það að geta haft áhrif á aðra mannskju til góðs er það mikilvægasta í lífinu. Hugtakið ævimenntun er orðið tamt í notkun í umræðu um menntamál en eins og orðið felur í sér er öflun nýrrar þekkingar og aðlögun að því hluti af lífi okkar. Þetta er breytt heimsmynd frá því fyrir einhverjum árum og áratugum, þegar fólk lauk námi upp úr 20 ára aldri eða var í sama starfi alla ævi. Þekkingarleit og öflun nýrrar reynslu á vinnumarkaði er orðin eðlileg krafa í dag. Nám hefur gjarnan mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og þann þátt að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi. Öll eigum við okkur drauma eða við eigum að eiga okkur drauma. Ekki er óalgengt að við ýtum draumum okkar til hliðar vegna álags í persónulegu lífi eða vegna starfskrafna. Það getur verið erfitt að finna rétta tímann og erfitt að koma sér af stað. Af hverju ætti ég að vera að standa í þessu? En löngunin til að fara út fyrir þægindahringinn getur verið sterk og breytir lífi okkar. Margir taka þó ekki skrefið en það er okkar hlutverk sem stöfum á þessum vettvangi að hvetja og veita góð ráð,“ sagði Valgeir. SÍMEY er sjálfseignarstofnun, stofnuð af samfélaginu, atvinnulífi, stéttarfélögum, skólakerfinu og sveitarfélögum. SÍMEY er hluti af samstarfsneti símenntunarmiðstöðva á landinu undir merkjum Kvasis. Á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY um 3900 manns. Valgeir gat í ræðu sinni starfsmannabreytinga hjá SÍMEY á haustdögum. Erla Björg Guðmundsdóttir, sem var framkvæmdastjóri SÍMEY, hvarf til annarra starfa og sömuleiðis Hildur Bettý Kristjánsdóttir, verkefnastjóri. Í þeirra stað voru ráðnar til starfa Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri á Dalvík, og Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri á Akureyri. Þakkaði Valgeir Erlu og Hildi fyrir afar gott starf fyrir SÍMEY og bauð þær Svanfríði og Ingunni velkomna í starfsmannahópinn. „Verkefni okkar eru á víðum grunni, stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskersniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds og mannauðsráðgjafar, íslensku fyrir útlendinga og námskeiðahald fyrir Fjömennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða. Einnig sinnum við þróunarstarfi af ýmsum toga. Framhaldsfræðslukerfið er ungt að árum á Íslandi en mikill vöxtur hefur verið innan þess á síðustu árum og er hér um að ræða fimmtu stoð menntakerfisins, reikna má að um 15.000 nemendur stundi nám innan þessa kerfis á landsvísu, til samanburðar er það um helmingur af fjölda nemenda í framhaldsskólakerfinu. Þessi hópur er afar dýrmætur fyrir samfélag og atvinnulíf, kemur með dýrmæta starfreynslu og reynslu úr sínu persónulega lífi, tvíeflist gjarnan í námi og kemur með enn dýrmætari þekkingu og reynslu út í atvinnulífið og sitt samfélag, þessi hópur er að hækka menntunarstig þjóðarinnar og er ég að tala um ykkur kæru útskriftarnemendur, þið eruð að að hækka menntunarstig þjóðarinnar og það skiptir miklu máli,“ sagði Valgeir Magnússon.