Markþjálfunin hitti beint í hjartastað

Næstkomandi mánudag, 7. nóvember, kl. 17:30 efnir SÍMEY til kynningarfundar um markþjálfunarnám en núna er kominn af stað þriðji námshópurinn sem stundar þetta nám í SÍMEY. Fyrsti hópurinn lauk sínu námi fyrir tæpu ári síðan, í desember 2015. Síðan hóf annar hópur grunnnámið í febrúar sl. og sá þriðji núna á haustönn. Við það er að miðað að nám fjórða hópsins hefjist í febrúar nk. og því er nú efnt til þessa kynningarfundar.

„Þetta nám breytti öllu fyrir mig, svo einfalt er það. Það hitti mig beint í hjartastað. Ég skal alveg viðurkenna að áður en ég prófaði þetta var ég svolítið týnd. Ég hef lengi verið heimavinnandi en er kennari og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara aftur í kennsluna eða ef til vill að drífa mig í háskóla og læra eitthað nýtt. En eftir að ég fór í markþjálfann er ég komin á réttan stað, í þessu finn ég mig,“ segir Áshildur Hlín Valtýsdóttir, ein fjögurra kvenna á Akureyri sem nú stunda framhaldsnám í markþjálfun. Hinar eru Ingunn Helga Bjarnadóttir, Sólveig Helgadóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Þær tóku allar grunnnámið  í markþjálfun í SÍMEY á haustönn 2015 og luku því í desember á síðasta ári. Hér má sjá mynd sem var tekin við það tækifæri og er Áshildur Hlín önnur frá vinstri.  

Framhaldsnámið hófst í ágúst sl. og fer fram bæði norðan heiða og sunnan. Hóparnir í báðum landshlutum „hittast“ í vikulegum nettímum og síðan fór hann allur nýverið í vikuferð til Parísar, sem var mikilvægur hluti af náminu. Hér má sjá myndir af þeim Sigríði, Sólveigu, Áshildi Hlín og Ingunni Helgu í París. Áshildur Hlín hefur nú þegar lokið ACC – Associate Certified Coach vottun sem markþjálfi. Það þýðir að hún hefur lokið 60 klst. grunnnámi og 10 klst. kennslu hjá mentor. Þá hefur hún lokið 100 klst. samanlagt í viðtölum – hún hefur með öðrum orðum þegar aflað sér 100 klst. reynslu í að markþjálfa. Og áfram skal haldið, Áshildur Hlín er sem fyrr segir í framhaldsnáminu og segist ætla að afla sér eins mikilla reynslu og réttinda á þessu sviði og henni er frekast unnt, enda sé hún komin á þá hillu sem hana langi til þess að vera á í framtíðinni.

Eðilega er markþjálfun nokkuð framandi fyrir flesta enda ekki svo langt síðan hún festi rætur hér á landi. Áshildur Hlín segir að markþjálfuninni sé kannski best lýst í einni setningu með því að segja að hún sé almennt til þess fallin að stækka fólk, hún veiti fólki nýja sýn á að víkka út sína möguleika í lífi og starfi.

Frekari upplýsingar um markþjálfun er að finna hér.