Ánægja með fyrsta markþjálfanámskeiðið á Akureyri

Ánægðar að loknu vel heppnuðu námskeiði.
Ánægðar að loknu vel heppnuðu námskeiði.

Síðastliðinn föstudag, 11. desember, lauk staðarnámi hjá SÍMEY í markþjálfun. Þetta er jafnframt fyrsta námskeið sinnar tegundar sem SÍMEY býður upp á en til þessa hafa slík námskeið verið í boði í Reykjavík. Leiðbeinandi var Matilda Gregersdotter, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hún er MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation. Fimm konur luku þessu fyrsta markþjálfanámskeiði í SÍMEY og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar.

Matilda Gregersdotter er fædd og uppalin í Stokkhólmi en hefur búið hér á landi síðan 1998. „Þetta námskeið í markþjálfun hér á Akureyri er það fyrsta utan Reykjavíkur,“ segir Matilda en hún setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama ári hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Í SÍMEY var boðið upp á grunnnám í markþjálfun – svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku fimm konur staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. „Við hófum námið hér í september og erum núna að ljúka kennslulotunum en síðar í vetur munum við verða áfram í sambandi við þessa nemendur í gegnum netið þar sem þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun. Við munum verða í sambandi í netumhverfi vikulega í tíu vikur frá og með lok febrúar.“

En hvað er markþjálfun? Matilda segir að um sé að ræða samtalsaðferð sem lúti ekki síst að því að einstaklingurinn læri ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins.

Á heimasíðunni www.markthjalfun.is segir m.a.:

  • Markþjálfun er samstarf um krefjandi og skapandi ferli sem vinnur með styrkleika til að hámarka árangur.
  • Markþjálfun byggir á gagnkvæmu trausti og trúnaðarsambandi markþjálfa og viðskiptavinar.
  • Markþjálfun aðstoðar einstaklinga við að skilgreina hvað virkilega skiptir þá máli og hvers vegna, finna kjarnann.
  • Markþjálfar vinna að því að virkja sköpunargleði einstaklinga og hvetja þá til athafna, rúlla hlutum af stað og finna farveg til þess að koma markmiðum í framkvæmd.
  • Markþjálfun nýtist vel á vinnustöðum við að efla enn frekar hæfni starfsmanna og stjórnenda eða stuðla að lausnum á afmörkuðum vandamálum varðandi frammistöðu.
     

Matilda segir reynsluna sýna að markþjálfun nýtist fólki á ýmsan hátt. Til dæmis komi það stjórnendum fyrirtækja að góðum notum og það sama megi segja um uppalendur. „Markþjálfun nýtist fólki líka vel í hjónabandi. Almennt má segja að það nýtist fólki vel í samskiptum af ýmsum toga. Ég er mjög ánægð með útkomuna hér á Akureyri og tel að þetta námskeið hafi verið mjög árangursríkt,“ segir Matilda. Ekki verður látið staðar numið við þetta eina námskeið í markþjálfun í SÍMEY því 15. febrúar nk. hefst nýtt námskeið. Skráning á það er nú þegar hafin og er hér hægt að fá nánari upplýsingar. Einnig veitir Kristín Björk Gunnarsdóttir hjá SÍMEY nánari upplýsingar.

Ekki var annað að heyra að þátttakendur á þessu fyrsta markþjálfanámskeiði á Akureyri væru mjög ánægðir með útkomuna. Á meðfylgjandi mynd eru þátttakendur á námskeiðinu með sín viðurkenningarskjöl ásamt leiðbeinanda. Frá vinstri: Ragnhildur Sverrisdóttir, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, Matilda Gregersdotter, Kristín Björk Gunnarsdóttir, Ingibjörg Lóa Birgisdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir.