Fréttir

Þrettán nemendur í "Stökkpalli" - námsleið fyrir þá sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu

Þann 19. október sl. hófst í SÍMEY 180 klukkustunda nám sem ber nafnið „Stökkpallur“ og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið, sem er unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun og Fjölsmiðjuna á Akureyri, er ætlað þeim sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu. Námið er mögulegt að meta til 10 námseininga á framhaldsskólastigi. Námið er á fyrsta hæfnisþrepi og skiptist í fjóra meginþætti: Markmiðasetningu og sjálfseflingu, samskipti og samstarf, vinnuumhverfi og vinnustaði og vettvangsnám á vinnustað. Verkefnastjóri Stökkpalls hjá SÍMEY er Sólveig Helgadóttir og umsjón með náminu auk hennar hefur Aníta Jónsdóttir, verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY. „Stökkpallur“ hófst sem fyrr segir 19. október sl. og lýkur með brautskráningu 5. janúar 2018. Þrettán nemendur á aldrinum 20-30 ára eru að þessu sinni og er kennt alla virka daga. Dagurinn hefst kl. 09:00 með morgunverði þátttakenda í náminu í SÍMEY og kl. 09:30 hefst kennslan og stendur til kl. 12:30. Auk kennara frá SÍMEY kenna aðrir fagaðilar ákveðna þætti í náminu og þá koma gestir úr atvinnulífinu og Einingu-Iðju og upplýsa nemendur um þá hluti sem að þeim snúa. Einnig fara nemendur í heimsóknir á vinnustaði og kynna sér ýmislegt áhugavert, t.d. hefur verið farið í FAB-LAB smiðjuna í VMA. Síðustu tvær vikurnar fyrir jól fara þátttakendur í Stökkpalli út í hin ýmsu fyrirtæki og og taka þar vettvangsnám á vinnustað. Slíkt nám hefur áður verið í boði í SÍMEY og er markmiðið ávallt hið sama; að efla og fræða viðkomandi einstaklinga og styrkja þá í því að fara út á vinnumarkaðinn og vinna störf við hæfi og/eða styðja þá til áframhaldandi náms.

Dreifðar byggðir - betri byggðir - allir velkomnir á fund á Hauganesi 27. nóvember - skráning í fullum gangi

Á síðasta ári unnu SÍMEY og Þekkingarnet Þingeyinga að verkefninu Dreifðar byggðir – betri byggðir sem fólst í því að greina tækifæri til atvinnusköpunar, annars vegar við vestanverðan Eyjafjörð – frá Hörgá og norður að Hámundarstaðahálsi – og hins vegar í Kelduhverfi. Verkefnið fólst meðal annars í viðtölum við íbúa þessara tveggja svæða og komu fram þar viðhorf þeirra til atvinnumála á svæðunum, tækifæri og ógnir. Á ýmsan hátt eru svæðin ólík en íbúar beggja svæða eru þó sammála um að bæði eigi þau mikla möguleika í ferðaþjónustu. Við vestanverðan Eyjafjörð telja íbúar ekki síst tækifæri felast í nálægð við sjóinn og byggja megi nýsköpunn á nýtingu auðlinda sjávar. Í Kelduhverfi var áhersla íbúanna hins vegar á tækifæri tengd vatnsauðlindum svæðisins og Vatnajökulsþjóðgarði. Einnig komu fram sjónarmið sem tengjast breytingum í landbúnaði með t.d. sérhæfðri framleiðslu á lífrænum afurðum í grænmetis- og kjötframleiðslu. Verkefninu verður nú fram haldið á grunni stuðnings úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og verður unnið áfram á grunni þeirra hugmynda sem komu fram í áðurnefndum viðtölum við íbúa svæðanna. Áherslan í þessum öðrum hluta Dreifðra byggða – betri byggða verður á fræðslu, nýsköpun og þróun. Á mánudag og miðvikudag í næstu viku, 27. og 29. nóvember, verður efnt til funda með íbúum þessara tveggja svæða þar sem þeim verða kynntar niðurstöður fyrsta áfanga verkefnisins, farið verður yfir hver séu skilyrði nýsköpunar, hvernig eigi vinna að því að laða fram hugmyndir og útfæra og hvaða stuðningur sé til staðar fyrir frumkvöðla og í þriðja lagi verður vinnustofa þar sem þátttakendur fá tækifæri til að vinna að hugmynd og útfæra hugmynd sem gæti leitt til atvinnusköpunar á svæðinu. Fundirnir/námskeiðin/vinnustofurnar eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Fundurinn fyrir íbúa við vestanverðan Eyjafjörð verður á Baccalá bar á Hauganesi en fundurinn fyrir íbúa í Kelduhverfi í Gljúfrastofu – gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi. Dagskrá beggja funda verður með sama sniði; kynning á niðurstöðum fyrsta hluta Dreifðra byggða – betri byggða, erindi fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri, erindi frumkvöðuls, kvöldverður, vinnustofa og samantekt. Báðir fundir hefjast kl. 16:00 og er miðað við að dagskránni ljúki um kl. 22:00. Óskað er eftir því að áhugasamir skrái sig til þátttöku fyrir 24. nóvember nk. Skráningar fara fram hjá SÍMEY í síma 460-5720 og hjá Þekkingarneti Þingeyinga í síma 464-5100. Frekari upplýsingar veita Ingunn Helga Bjarnadóttir ingunn@simey.is og 460-5720, Emil Björnsson emil@simey.is og Helena Eydís Ingólfsdóttir helena@hac.is og 464-5106

Samningur SÍMEY og Akureyrarbæjar um Sterkari starfsmann

Sterkari starfsmaður er yfirskrift þriggja anna námsleiðar sem hefst í janúar 2018 fyrir starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar aðra en kennara. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar annast skipulagningu námsins í samstarfi við fræðslusvið Akureyrarbæjar og grunnskóla sveitarfélagsins og ber ábyrgð á því í samræmi við hlutverk og verkefni fræðslu- og símenntunarstöðva. Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, og Soffía Vagnsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, undirrituðu í dag samning um námið. SÍMEY og Akureyrarbær hafa lengi átt í samstarfi um menntun starfsmanna bæjarins, þar á meðal starfsmanna fræðslusviðs. Á fyrstu mánuðum þessa árs voru greindar þarfir fyrir fræðslu starfsmanna grunnskóla bæjarins annarra en kennara og niðurstöður þeirrar vinnu hafðar að leiðarljósi við skipulag námsins Sterkari starfsmaður, sem er ein af námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Í náminu verður annars vegar lögð áhersla á upplýsingatækni og hins vegar samskipti og sjálfstyrkingu. Hluti af verkefninu er að náms- og starfsráðgjafi frá SÍMEY býður starfsfólki grunnskólanna upp á ráðgjöf um Sterkari starfsmann og mögulegt viðbótarnám. Sem fyrr segir hefst námið í janúar 2018. Því verður fram haldið haustið 2018 og lýkur að vori 2019. Námið er alls 100 klukkustundir, fer fram í grunnskólunum á skólatíma og mun skipulag skólastarfsins skapa þessum starfsmönnum skólanna svigrúm til þess að sækja námið. Námið tekur til vel á annað hundrað starfsmanna grunnskóla Akureyrarbæjar og er þeim að kostnaðarlausu. Akureyrarbær greiðir námskeiðsgjöld og sækir um endurgreiðslu til fræðslusjóða stéttarfélaga starfsfólksins – annars vegar Sveitamenntar – starfsmenntunarsjóðs starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og hins vegar Mannauðssjóðs Kjalar. Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að Sterkari starfsmaður sé ánægjulegt framhald á farsælu samstarfi við Akureyrarbæ um fræðslu starfsfólks bæjarfélagsins. Þetta nýja verkefni sé viðamikið og skemmtileg áskorun fyrir SÍMEY og alla sem að því komi. Soffía Vagnsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, segist hafa miklar væntingar til námsins og samstarfsins við SÍMEY. „Ég hef væntingar til þess að námið skili okkur sterkari starfsmönnum og efli þá í starfi. Námið eins og það er sett upp er áhugavert og fjölbreytt og tekur mið af óskum starfsmannanna sjálfra, sem ég tel miklu máli skipta.“ Á þessari mynd sem var tekin við undirritun samningsins í dag standa að baki Soffíu og Valgeiri, talið frá vinstri: Kristján Sturluson, Helgi Þ. Svavarsson og Aníta Jónsdóttir, öll verkefnastjórar hjá SÍMEY og Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, forstöðumaður þjónustu á fræðslusviði Akureyrarbæjar.

Samið um þarfagreiningu vegna nýrrar fræðsluáætlunar fyrir búsetusvið Akureyrarbæjar

Í dag var undirritaður samningur milli búsetusviðs Akureyrarbæjar og SÍMEY sem kveður á um að SÍMEY mun greina þörf á fræðslu starfsmanna búsetusviðs með það að markmiði að vinna nýja fræðsluáætlun fyrir þá. Að samningnum kemur einnig Sveitamennt - starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Af hálfu SÍMEY skrifaði Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SíMEY, undir samninginn en af hálfu búsetusviðs Akureyrarbæjar Jón Hrói Finnsson, sviðsstjóri. Samningurinn er liður í framhaldi á nokkurra ára samstarfi SÍMEY og búsetusviðs Akureyrarbæjar um fræðslumál starfsmanna þess. Fyrri fræðsluáætlun verður tekin upp og endurgerð í takt við breyttar áherslur og starfssvið starfsmanna. Þarfagreiningin verður unnin í nánu samstarfi ráðgjafa SÍMEY – Ingunnar Helgu Bjarnadóttur og Kristjáns Sturlusonar – og stýrihóps stjórnenda og starfsmanna búsetusviðs. Í það heila eru þeir starfsmenn búsetusviðs Akureyrarbæjar sem um ræðir á 14 vinnustöðum og heildarfjöldi þeirra er 290. Þar af eru um 80% þeirra félagsmenn Einingar-Iðju en aðrir eru félagsmenn Bandalags háskólamanna og njóta stuðnings Starfsþróunarseturs háskólamanna. Þarfagreiningin verður unnin á tímabilinu frá október 2017 til janúar 2018 og sem fyrr segir hefur hún það að markmiði að undirbúa gerð nýrrar fræðsluáætlunar sem verður unnin í framhaldinu.

Samningur um "Virkið" undirritaður í dag

SÍMEY á aðild að samningi sem var ritað undir í dagí Ungmennahúsinu Rósenborg um þverfaglegt samstarf aðila á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu sem sinna málefnum ungs fólks á aldrinum 16-29 ára. Þetta verkefni gengur undir heitinu „Virkið“ og er því ætlað að vera vettvangur um samstarf þegar þessi hópur fólks þarf, stöðu sinnar vegna, á þjónustu að halda. Þjónustu sem snýr m.a. að atvinnuleit, skólagöngu, endurhæfingu eða annarri meðferð. Nafn verkefnisins vísar til þess að því er ætlað að hafa ungt fólk í virkni í samfélaginu. Með þessum samningi er fest á blað með formlegum hætti hvernig skuli bregðast við ef t.d. nemendur hætta námi, hvernig þá er unnt að vísa þeim veginn til virkni á öðrum vettvangi. Að sama skapi er verkefninu ætlað að vísa ungu fólki veginn inn í skólakerfið hyggist það innrita sig til náms. Eftirtaldir aðilar standa að samkomulaginu auk SÍMEY: Vinnumálastofnun Norðurlands eystra, Akureyrarbær (fjölskyldusvið og Ungmennahúsið - Rósenborg), Fjölsmiðjan á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri (geðdeild og BUG teymið), Heilbrigðisstofnun Norðurlands (Heilsugæslan), Virk, Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Grófin geðverndarmiðstöð og Starfsendurhæfing Norðurlands. Meginmarkmið þessa samstarfs er að: • stuðla að bættri almennri þjónustu fyrir ungt fólk á aldrinum 16–29 ára • stuðla að bættri sérhæfðri þjónustu fyrir fólk á aldrinum 16–29 ára • efla þverfaglegt samstarf fagaðila stofnananna til hagsbóta fyrir hópinn.

Næstu skref tekin í Sjósókn

Fyrir um tveimur árum var ýtt úr vör verkefninu Sjósókn sem að stóð starfsmenntasjóðurinn Sjómennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samvinnu við Iðuna fræðslusetur og fjórar símenntunarstöðvar, þar á meðal SÍMEY. Verkefnið var fyrst og fremst fólgið í því að bjóða starfandi sjómönnum sem ekki höfðu lokið framhaldsskóla upp á raunfærnimat í ýmsum greinum sem tengjast sjávarútveginum, námskeið í fiskvinnslu og námsleiðina Menntastoðir. Horft var til þess að starfandi sjómenn gætu fengið yfirgripsmikla reynslu og þekkingu metna inn í námið, gætu stundað nám samhliða vinnu, fengið ráðgjöf um hvaða leiðir væru færar fyrir þá um námsval og síðast en ekki síst orðið hæfari starfsmenn. Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY segir að um hafi verið að ræða ákveðið tilraunaverkefni og hafi SÍMEY haft ákveðið frumkvæði í málinu samkvæmt samningi við Sjómennt. Tvímælalaust hafi verkefnið skilað góðum árangri og sýnt fram á mikilvægi þess að gefa sjómönnum kost á að víkka út sjóndeildarhringinn og um leið að veita þeim upplýsingar um þá kosti sem bjóðist nú til dags, á tímum æ betri fjarskipta. Fyrir nokkrum árum hafi nám sjómanna jafnhliða sjómennsku ekki verið auðvelt vegna þess að flotinn hafi ekki verið í góðu netsambandi og afar kostnaðarsamt hafi verið að nýta sér netsamskipti. Þetta hafi hins vegar breyst mjög til batnaðar og um leið opnað á æ fleiri möguleika sjómanna til menntunar. Valgeir segir að nú þegar þessum fyrsta áfanga verkefnisins sé lokið sé nú verið að hefja annan áfanga þess sem af hálfu SÍMEY felist fyrst og fremst í því að vera í sambandi við aðrar símenntunarstöðvar og tala fyrir þessu verkefni. Jafnframt að bjóða fram ráðgjöf og kynningarefni sem geti nýst símenntunarmiðstöðvunum við næstu skref. Nú þegar segir Valgeir að mikill áhugi sé á að bjóða sjómönnum annars vegar hjá Ísfélaginu á Þórshöfn og hins vegar Síldarvinnslunni í Neskaupstað upp á raunfærnimat. Að þessu verði unnið á næstunni. „Við höfum þegar séð og vitum að fyrir marga sjómenn er töluvert átak að komast yfir þann þröskuld að ákveða að nýta sér þann kost að fara í raunfærnimat og fá þannig metna all þá miklu starfsreynslu sem þeir búa yfir. Síðan þegar komið er yfir þröskuldinn er það okkar reynsla að oft opnist sjómönnum nýr og áður óþekktur heimur. Reynslan sýnir að raunfærnimat er mörgum afar mikilvægt og dýrmætt. Okkar verkefni á næstunni verður að tala fyrir raunfærnimati fyrir sjómenn og í því skyni verðum við í sambandi við aðrar símenntunarmiðstöðvar,“ segir Valgeir B. Magnússon.

Mikill áhugi á námskeiðum í íslensku sem annað tungumál

Óvenju mikill áhugi er í haust á námskeiðum í íslensku sem annað mál – námskeið sem hugsuð eru fyrir útlendinga sem hafa verið hér á landi til skamms eða lengri tíma. Um tugur námskeiða hefur verið settur upp – sum þeirra eru þegar hafin en önnur hefjast fyrstu dagana í október. Bæta þurfti við námskeiðum frá upphaflegum áætlunum vegna mikillar eftirspurnar. Flest eru þessi námskeið í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri en einnig verða námskeið á Dalvík og í Ólafsfrði. SÍMEY hefur tekið að sér að skipuleggja og halda utan um tungumálanámskeið fyrir starfsmenn ákveðinna fyrirtækja. Þá er tungumálanámið að hluta lagað að því starfsumhverfi sem starfsmennirnir vinna, farið í ýmis fagorð o.fl. Slík námskeið er SÍMEY fús að setja upp í auknum mæli ef áhugi er fyrir hendi. Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að íslenskunámskeiðin taki mið af kunnáttu þeirra sem þau sitja. Þannig sé boðið upp á grunnnámskeið fyrir þá sem hafa litla sem enga kunnáttu í íslensku og síðan sé byggt ofan á kunnáttuna á framhaldsnámskeiðum. Í fyrsta skipti í langan tíma er núna boðið upp á svokallað fjórða stigs námskeið í íslensku sem annað mál, fyrir þá sem þegar hafa góðan grunn í íslensku en vilja bæta orðaforðann, efla lesskilning og málfræðikunnáttu sína. Þess má í þessu sambandi geta að SÍMEY býður upp á íslenskukennslu ætlaða Pólverjum eingöngu þar sem kennarinn er pólskur og því unnt að útskýra betur fyrir þátttakendum íslenska málfræði og annað í kennslunni sem auðveldara er fyrir þá að meðtaka á móðurmálinu. Þessi aukna spurn eftir námskeiðum í íslensku sem annað tungumál helst væntanlega í hendur að nokkru leyti við góða stöðu á vinnumarkaði. Mikill fjöldi útlendinga er nú að störfum hér á landi, ekki síst í ferðaþjónustunni og hlutfallslega eru þeir fleiri að störfum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á haustin og fram á vetur, þegar skólarnir starfa. Kristín Björk segir að auk þess að bjóða útlendingum upp á íslenskunám bjóði SÍMEY þeim upp á ýmiskonar ráðgjöf, t.d. varðandi uppfærslu ferilskráa fyrir íslenskan vinnumarkað og aðstoði þá við við mat á námi erlendis frá.

SÍMEY er aðili að samstarfssamningi um miðlun fræðslu til fyrirtækja og starfsmanna í ferðaþjónustu

Þann 21. september sl. var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins við fjórar símenntunarmiðstöðvar – þar á meðal Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Hinar þrjár símenntunarmiðstöðvarnar sem eiga aðild að samningnum eru Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Mímir – símenntun og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi. Verkefnið hefur það að markmiði að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Verkferlar verða samhæfðir, aðilar munu skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, fagnar aðild SÍMEY að þessum samningi. Hann segir að unnið verði að framkvæmd hans í náinni samvinnu við Hildi Bettý Kristjánsdóttur, starfsmann Fræðumiðstöðvar atvinnulífsins, sem raunar er fyrrverandi starfsmaður SÍMEY. Á næstunni verður hafist handa við heimsóknir til ferðaþjónustufyrirtækja á starfssvæði SÍMEY og þeim kynntir möguleikar í fræðslu fyrir fyrirtækin og fjármögnun fræðslunnar. Í hlut SÍMEY kemur einnig að halda utan um tölulegar upplýsingar um heimsóknirnar og árangur af þeim. Samkvæmt verkáætlun lýkur þessu verkefni að rösku ári liðnu, í október 2018. Í janúar sl. var undirritaður samningur um Hæfnisetur ferðaþjónustunnar á grundvelli samþykktar Alþingis frá október 2016. Starfsemi þess miðar að því að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Lögð er áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.

Jákvætt viðhorf nemenda á vorönn 2017 til náms í SÍMEY

Síðastliðið vor sendi SÍMEY bréf til allra þátttakenda á námskeiðum SÍMEY á vorönn 2017 þar sem kannaður var hugur þeirra til námsins. Með slíkri viðhorfskönnun vildi SÍMEY fá afstöðu þátttakenda til námsins og starfsemi SÍMEY í því skyni að bæta þjónustuna. Niðurstöður þessar könnunar gefa til kynna að almennt ríki almenn ánægja þeirra sem sækja nám í SÍMEY með námið. Þannig svöruðu 96% svarenda því játandi að námið í SÍMEY hefði verið þeim gagnlegt og álíka hátt hlutfall þátttakenda sagði að þeim hefði liðið vel í náminu í SÍMEY. Spurt var um námsmat og skipulag námsins og einnig aðgengi þátttakenda að starfsfólki. Einnig voru þátttakendur spurðir um traust til SÍMEY sem fræðsluaðila og hversu vel starfsfólk tæki tillit til þeirra þarfa. Í svörum við báðum þessum spurningum gáfu 92% svarenda jákvætt svar. Þá kom fram í könnuninni að um 90% þátttakenda lýstu ánægju sinni með aðstöðu til námsins í SÍMEY.

Formleg opnun nýs námsvers SÍMEY á Dalvík

SÍMEY hefur fært sig um milli húsa á Dalvík – úr gamla húsi Dalvíkurskóla á jarðhæð Víkurrastar. Nýtt námsver var opnað þar formlega í gær, föstudaginn 15. september. Tónlistarskólinn á Tröllaskaga og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hafa undanfarin ár deilt húsnæði í gamla barnaskólahúsinu á Dalvík og nú hafa báðar stofnanir flust yfir í Víkurröst. Þar hafa SÍMEY og Tónlistarskólinn komið sér fyrir á neðri hæðinni og einnig hefur skólinn til afnota rými á efri hæðinni. Við formlega opnun hins nýja námsvers í gær sagði Valgeir Blöndal Magnússon fagnaðarefni að SÍMEY hefði nú afnot af þessu góða rými í Víkurröst en bæði er um að ræða minni og stærri kennslurými og skrifstofurými. Starfsemi SÍMEY á Dalvík er og hefur verið fjölbreytt. Boðið er upp á námskeið af ýmsum toga og er sérstök ástæða til þess að geta fjögurra anna náms í fisktækni sem hópur starfsmanna Samherja á Dalvík stundar. Þessar myndir voru teknar við formlega opnun námsversins á Dalvík. Á þessari mynd er Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík, Kristín Björg Gunnarsdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á Akureyri og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.