Fréttir

Þriðji markþjálfahópurinn útskrifaður

Í gær var síðasti dagur þriðja hópsins sem lýkur staðarnámi í markþjálfun í SÍMEY. Að þessu sinni luku sex náminu og fengu viðurkenningaskjöl því til staðfestingar. Leiðbeinandi á námskeiðinu var sem fyrr Matilda Gregersdotter, MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hún hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation. Fyrir ári síðan var fyrsta slíka námskeiðið haldið á Akureyri – raunar fyrsta markþjálfanámskeiðið utan Reykjavíkur. Matilda setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama tíma hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Námið í SÍMEY er grunnnám í markþjálfun, svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku fimm konur staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. Námi sexmenninganna er þó ekki að fullu lokið því í vetur munu þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun í netumhverfi. Markþjálfun verður ekki svo auðveldlega skilgreind eða lýst í einni setningu. Matilda Gregersdotter segir að markþjálfun megi e.t.v. lýsa sem samtalsaðferð þar sem einstaklingurinn læri m.a. ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins. Sem fyrr segir er um að ræða grunnnám í markþjálfun en síðan er unnt að fara í framhald og öðlast þannig alþjóðlega vottun sem markþjálfi. Hér segir einmitt frá nemendum sem tóku grunnnámið á Akureyri og héldu síðan áfram í framhaldsnám. Þrjú námskeið í markþjálfun eru sem sagt að baki á Akureyri og það fjórða er á dagskrá eftir áramótin. Hér eru allar upplýsingar og skráning á það námskeið. Á þessari mynd, sem var tekin við lok námskeiðsins í gær, eru frá vinstri: Helgi Þorbjörn Svavarsson, María Hólmgrímsdóttir, Kristín Irene Valdemarsdóttir, Brynhildur Óladóttir, Sigurbjörg Ósk Sigurðardóttir og Matilde Gregersdotter kennari.

SÍMEY kynnir þjónustu á fyrirtækjasviði í nýjum bæklingi

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar vill í auknum mæli leggja áherslu á þjónusta fyrirtæki og stofnanir, án þess þó að slaka á í framboði á fjölbreyttum námskeiðum fyrir einstaklinga. Liður í því að kynna aukna sókn SÍMEY inn á fyrirtækjamarkaðinn var útgáfa á bæklingi, sem er byrjað að dreifa til fyrirtækja og stofnana. Þar eru kynntir þeir margþættu möguleikar sem atvinnulífinu stendur til boða, því óhætt er að segja að þar sé af mörgu af taka – eins og t.d. ráðgjöf, námskeiðahald, markþjálfun og þarfagreiningu. Á heimasíðu SÍMEY eru alltaf nýjustu upplýsingar um þau námskeið sem eru í boði hverju sinni og er óhætt að segja að þau séu af ýmsum toga. Finni stjórnendur fyrirtækja ekki námskeið sem þeim hentar er SÍMEY tilbúin til að sérsníða þau að þörfum viðkomandi fyrirtækja. Einnig er boðið upp á styttri fyrirlestra, skipulagningu hópeflis, starfsdaga eða funda. SÍMEY hefur nú þegar unnið mikið með mörgum fyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu. Nægir þar að nefna Samherja, Akureyrarbæ og Höld. Reynslan af samstarfinu við þessi tvö stóru eyfirsku fyrirtæki og Akureyrarbæ var almennt mjög jákvæð. Til margra ára hefur SÍMEY starfað náið með Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og nú hefur SÍMEY tekið upp samstarf við Hagvang um fræðslumál í fyrirtækjum og stofnunum og námskeiðahald. Hinn nýi bæklingur, þar sem leitast er við að varpa ljósi á starfsemi SÍMEY á fyrirtækjasviði, er 24 síður. Auk ítarlegra upplýsinga í bæklingnum um það sem SÍMEY getur boðið upp á á þessu sviði er hann ríkulega myndskreyttur. Starfsmenn Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar eru sem fyrr tilbúnir að koma í fyrirtæki og stofnanir og kynna það sem hún hefur upp á að bjóða á þessu sviði.

Boðið upp á FabLab smiðju í febrúar 2016

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar er einn af aðilum að FabLab-smiðju – FabEY - sem að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum að því að standsetja í húsnæði VMA. Nú hefur SÍMEY auglýst opna smiðju í FabLab, sem hefst í febrúar á næsta ári fyrir 20 ára og eldri. Um er að ræða 80 klukkustunda smiðju, þar af eru 13 klukkustundir ætlaðar í fabóklega kennslu. Jón Þór Sigurðsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri hinnar nýju FabLab-smiðju í VMA og hefur hann að undanförnu verið að standsetja rými smiðjunnar, sem er að stærstum hluta í tveimur kennslustofum sem rafiðnaðardeild VMA hafði áður til afnota. Tækjabúnaður smiðjunnar er að stórum hluta kominn á sinn stað – þ.m.t. tvær laserskurðarvélar, lítill fræsari, fjórir þrívíddarprentarar og vínilskeri. Til viðbótar er von á stórum svokölluðum CNC-fræsara og einnig er þessa dagana að koma í hús tölvubúnaður fyrir notendur smiðjunnar. Bóklega kennslan fer fram í minna rýminu – tölvustofunni – en verklegi hlutinn verður í rýmri stofunni. Nú þegar er byrjað að prufukeyra búnaðinn í FabLab-smiðjunni og lofar þær tilraunir góðu. Gera má ráð fyrir að smiðjan verði komin í næsta mánuði eða byrjun næsta árs í endanlega mynd og þá verður hægt að bjóða fólki að nota hana. Fyrri hluta dags er miðað við að smiðjan verði nýtt af nemendum grunn-, framhaldsskóla og háskóla en seinni part dags nýti aðrir smiðjuna, þar á meðal þeir sem skrá sig í FabLab-smiðju SÍMEY. Jón Þór Sigurðsson er Akureyringur í húð og hár. Hann á að baki þrjú ár í marmiðlunarhönnun í Barcelona á Spáni og síðan tók hann eitt ár til meistaraprófs í stafrænum arkitektúr. Stofnfundur félagsins FabEy, hollvinafélags um stofnun og rekstur smiðjunnar, var haldinn á Akureyri fyrir nákvæmlega ári, 12. nóvember 2015. Samþykktir FabEy staðfestu fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Verkmenntaskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og SÍMEY. Í samþykktum fyrir FabEy kemur fram að með rekstri á stafrænni smiðju í Eyjafirði sé stefnt að því að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum, verkefninu sé ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Þá er einnig tilgreint það markmið með verkefninu að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda. FabLab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. FabLab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í FabLab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl. Reynslan af FabLab smiðjunum sem þegar hefur verið komið á fót hér á landi sýnir að tæknilæsi og tæknifærni almennings eykst og þær hvetja ungt fólk til tæknimenntunar, sem mikil þörf er á, þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og síðast en ekki síst eru FabLab smiðjurnar til þess fallnar að efla nýsköpun í landinu. Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Áhersla er lögð á samstarf FabLab smiðjanna á Íslandi og mynda þær samstarfsvettvang, „FabLab Ísland”, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra. FabEy mun verða þátttakandi í þessu samstarfi. Á næsta ári verður Fab Lab stafrænni smiðju í Eyjafirði ýtt úr vör og verður hún til húsa hér í VMA. Fab Lab smiðjan er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum. Lengi hefur verið beðið eftir því að slíkri smiðju yrði komið á fót hér á svæðinu og nú er það loks að verða að veruleika. Við það er miðað að smiðjan verði tilbúin í húsakynnum VMA við upphaf næsta skólaárs. FabEy mun gera samstarfssamning við VMA um rekstur Fab Lab smiðjunnar. Stefnt er að því að ráða tvo starfsmenn að smiðjunni. Þau Sigríður Huld, aðstoðarskólameistari, og Benedikt Barðason, áfangastjóri, fagna þessum áfanga sérstaklega fyrir skólastarf í VMA og þau eru sannfærð um að smiðjan muni nýtast sérlega vel fyrir margar deildir skólans. En auk þess undirstrika þau að þó svo að smiðjan verði staðsett í húsakynnum VMA sé hún ekki bara hugsuð fyrir VMA, hún sé fyrir nemendur á öllum skólastigum, fyrirtæki, stofnanir og allan almenning sem hafi áhuga á að tileinka sér þessa tækni. Auk Akureyrar hafa sveitarfélög við Eyjafjörð sýnt mikinn áhuga á verkefninu og mun FabEy gera sérstaka samninga við hvert og eitt sveitarfélag sem vill taka þátt. Nú þegar hafa Eyjafjarðarsveit og Hörgárbyggð ákveðið að koma að verkefninu. Auk þess hafa fagfélög við Eyjafjörð lofað stuðningi.

Áframhaldandi samstarf milli grunnskóla Akureyrabæjar og SÍMEY

Síðastliðinn föstudag var skrifað undir samning um áframhaldandi samstarf milli grunnskóla Akureyrar og SÍMEY um fræðslu fyrir starfsmenn grunnskóla – aðra en kennara. SÍMEY hefur í gegnum árin verið í góðu samstarfi við Akureyrarbæ varðandi hin ýmsu verkefni er snúa að sí- og endurmenntun starfsmanna. Skóladeild Akureyrar hefur síðastliðin sjö ár verið í samstarfi við SÍMEY varðandi fræðslu fyrir starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar og hefur verið almenn ánægja með samstarfið. Fræðsluáætlun er unnin í samstarfi við starfsmenn með MARKVISS þarfagreiningu en verkefnið kallast „Að verða hluti af heild“. Nú er komið að því gera nýja þarfagreiningu fyrir framhald verkefnisins og liður í því var undirritun samningsins sl. föstudag. Endurmenntunarsjóðirnir Sveitamennt og Mannauðssjóður Kjalar hafa stutt dyggilega við þetta starf og eru mikilvægir bakhjarlar verkefnisins.

Markþjálfunin hitti beint í hjartastað

Næstkomandi mánudag, 7. nóvember, kl. 17:30 efnir SÍMEY til kynningarfundar um markþjálfunarnám en núna er kominn af stað þriðji námshópurinn sem stundar þetta nám í SÍMEY. Fyrsti hópurinn lauk sínu námi fyrir tæpu ári síðan, í desember 2015. Síðan hóf annar hópur grunnnámið í febrúar sl. og sá þriðji núna á haustönn. Við það er að miðað að nám fjórða hópsins hefjist í febrúar nk. og því er nú efnt til þessa kynningarfundar. „Þetta nám breytti öllu fyrir mig, svo einfalt er það. Það hitti mig beint í hjartastað. Ég skal alveg viðurkenna að áður en ég prófaði þetta var ég svolítið týnd. Ég hef lengi verið heimavinnandi en er kennari og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara aftur í kennsluna eða ef til vill að drífa mig í háskóla og læra eitthað nýtt. En eftir að ég fór í markþjálfann er ég komin á réttan stað, í þessu finn ég mig,“ segir Áshildur Hlín Valtýsdóttir, ein fjögurra kvenna á Akureyri sem nú stunda framhaldsnám í markþjálfun. Hinar eru Ingunn Helga Bjarnadóttir, Sólveig Helgadóttir og Sigríður Ólafsdóttir. Þær tóku allar grunnnámið í markþjálfun í SÍMEY á haustönn 2015 og luku því í desember á síðasta ári. Hér má sjá mynd sem var tekin við það tækifæri og er Áshildur Hlín önnur frá vinstri. Framhaldsnámið hófst í ágúst sl. og fer fram bæði norðan heiða og sunnan. Hóparnir í báðum landshlutum „hittast“ í vikulegum nettímum og síðan fór hann allur nýverið í vikuferð til Parísar, sem var mikilvægur hluti af náminu. Áshildur Hlín hefur nú þegar lokið ACC – Associate Certified Coach vottun sem markþjálfi. Það þýðir að hún hefur lokið 60 klst. grunnnámi og 10 klst. kennslu hjá mentor. Þá hefur hún lokið 100 klst. samanlagt í viðtölum – hún hefur með öðrum orðum þegar aflað sér 100 klst. reynslu í að markþjálfa. Og áfram skal haldið, Áshildur Hlín er sem fyrr segir í framhaldsnáminu og segist ætla að afla sér eins mikilla reynslu og réttinda á þessu sviði og henni er frekast unnt, enda sé hún komin á þá hillu sem hana langi til þess að vera á í framtíðinni. Eðilega er markþjálfun afar framandi fyrir flesta enda ekki svo langt síðan hún festi rætur hér á landi. Áshildur Hlín segir að markþjálfuninni sé kannski best lýst í einni setningu með því að segja að hún sé almennt til þess fallin að stækka fólk, hún veiti fólki nýja sýn á að víkka út sína möguleika í lífi og starfi. Frekari upplýsingar um markþjálfun er að finna hér.

Ingunn Helga Bjarnadóttir nýr starfsmaður hjá SÍMEY

Ingunn Helga Bjarnadóttir er nýr starfsmaður hjá SÍMEY og hóf hún störf sl. mánudag, 1. nóvember. Þennan mánuð er hún í 50% starfi verkefnastjóra hjá SÍMEY á móti 50% starfshlutfalli hjá sínum fyrri vinnuveitanda, Akureyrarbæ, en þar hefur hún gegnt starfi verkefnastjóra starfsþróunar. Frá og með 1. desember nk. verður Ingunn í fullu starfi hjá SÍMEY. Ingunn Helga ólst upp á Húsavík og lauk stúdentsprófi frá Framhaldskólanum þar. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hún nam landfræði og lauk því námi árið 1995. Síðan fór hún til Írlands í meistaranám í landfræði og beindi sjónum að skipulagsmálum. Þar kynntist hún eiginmanni sínum, Tom Barry, sem einnig er landfræðingur. Tom er framkvæmdastjóri CAFF-skrifstofunnar á Akureyri (Conservation of Arctic Flora and Fauna) en hún er til húsa á Borgum, rannsóknahúsi HA. Eftir námið á Írlandi starfaði Ingunn á þróunarsviði Byggðastofnunar á Sauðárkróki, þar sem hún hafði m.a. verkefni tengd menntun á landsbyggðinni á sínu borði. Frá Króknum lá leiðin til Akureyrar þar sem Ingunn var ráðin til starfa á Jafnréttisstofu. Að tveimur árum liðnum var hún síðan ráðin til Akureyrarbæjar sem verkefnastjóri starfsþróunar og því starfi hefur hún gegnt síðustu ellefu ár. Ingunn Helga tók jafnhliða vinnu kennsluréttindanám í Háskólanum á Akureyri og nýttist námið afar vel í því starfi sem hún hefur gegnt hjá Akureyrarbæ undanfarin ár. Ingunn hefur ekki lagt námsbækurnar á hilluna því núna stundar hún meistaranám í fullorðinsfræðslu á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þá stundar hún einnig í vetur framhaldsnám í markþjálfun. „Starf mitt hjá Akureyrarbæ fólst m.a. í því að aðstoða stofnanir og vinnustaði bæjarins við fræðslumál sinna starfsmanna og jafnframt að þróa námsskrár og námsefni. Starfið var mjög skemmtilegt og fjölbreytt en eftir ellefu ár í þessu starfi taldi ég tímabært að breyta til og þegar starf hjá SÍMEY bauðst ákvað ég að taka skrefið. Ég tel að sú reynsla sem ég hef á þessu sviði og sú menntun sem ég hef lokið og er að bæta við mig nýtist vel í starfi verkefnastjóra hér. Auk þess þekkti ég ágætlega til starfseminnar, bæði vegna samskipta við SÍMEY í starfi mínu hjá Akureyrarbæ og einnig sat ég um tíma í stjórn hér sem fulltrúi Akureyrarbæjar,“ segir Ingunn. „Ég velti því auðvitað lengi fyrir mér hvort ég ætti að taka skrefið og skipta um starfsvettvang, enda er Akureyrarbær mjög góður vinnustaður og því ekki sjálfgefið að segja sig frá áhugaverðu og fjölbreyttu starfi þar. En ég mat það svo að þetta væri gott vaxtarskref fyrir mig og jafnframt væri gott á þessum tímapunkti fyrir Akureyrarbæ að fá nýjan starfsmann í verkefnastjórn starfsþróunar með nýja sýn og nýjar áherslur. Ég hlakka mikið til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða mín hér hjá SÍMEY,“ segir Ingunn Helga Bjarnadóttir.

Afar gagnlegt námskeið í menningarlæsi

Núna á haustönn hefur Bryndís Arnardóttir – Billa kennt námskeið í menningarlæsi hjá SÍMEY. Þetta er í fyrsta skipti sem þar er boðið upp á slíkt námskeið og segir Billa að reynslan hafi verið mjög góð. Tólf þátttakendur voru í byrjun á námskeiðinu og komu þeir víða að; frá Portúgal, Póllandi, Belgíu, Hollandi, Katalóníu og Rúmeníu. „Á námskeiðinu lagði ég áherslu á að við næðum að finna sameiginlegan flöt til þess að vinna út frá í sjónrænni verkefnavinnu. Við leituðumst við að bera saman ólíkar aðstæður þátttakenda og að þeir deildu með öðrum sinni reynslu og menningarheimi,“ segir Billa. Kennt var á íslensku en ef þátttakendur áttu í erfiðleikum með að skilja hugtök þýddi Billa þau á ensku. „Mér fannst þetta dásamlegt og það var einstaklega skemmtilegt fyrir mig að fá innsýn í þeirra menningarheim um leið og þátttakendunum fannst auðvitað áhugavert að fá innsýn í okkar menningarheim. Þótt sumir þeirra sem voru á námskeiðinu hafi verið hér á landi í nokkur ár fengu þeir nýja sýn og skilning á ýmsa hluti. Ég miðlaði upplýsingum sjónrænt til fólksins og það var mjög áhugavert fyrir okkur öll. Við vorum að gera þetta í fyrsta skipti en ég segi alveg hiklaust að það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut. Ég tel til dæmis að varðandi þá flóttamenn sem eru væntanlegir til Akureyrar sé mikilvægt að þeir verði sem fyrst læsir á okkar menningu jafnframt því sem við þurfum sem fyrst að vera læs á þeirra menningu. Í mínum huga er mikilvægt að hafa annað slíkt grunnnámskeið og ég tel einnig vel koma til greina að byggja ofan á þetta námskeið og efna til framhaldsnámskeiðs,“ segir Billa. Sem fyrr segir var kennslan á þessu námskeiði að stórum hluta sjónræn og hér má sjá hluta af því sem nemendur unnu á námskeiðinu. Myndsköpunin er til sýnis í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4. David Barbosa frá Porto í Portúgal er einn þeirra sem tók þátt í menningarlæsisnámskeiðinu hjá Billu. Hann er hæstánægður með útkomuna og segir að námskeiðið nýtist sér vel. Ástæðuna fyrir því að hann kom til Íslands fyrir nokkrum árum var sú að Brynjólfur Oddsson, skipstjóri hjá Samherja, sem er giftur föðursystur hans, hafi hvatt hann til þess að reyna fyrir sér hér á landi. Í Portúgal hafi hann numið markaðsfræði til þess að nota í ferðamálum en vegna efnahagslægðarinnar þar í landi hafi ekki reynst auðvelt að fá vinnu á því sviði. „Brynjólfur hvatti mig til þess að koma til Akureyrar og úr varð að ég og kærasta mín komum í febrúar 2013 og ég fékk vinnu á veitingastaðnum Strikinu. Seinna fór ég einnig að vinna í frystihúsi ÚA og það varð síðan úr að ég var ráðinn sem kokkur í Sveitahótelinu í Sveinbjarnargerði, þar sem ég starfa í dag og þar búum við líka.“ David segir að yfir vetrarmánuðina sé rólegra í veitingabransanum og þá gefist kostur á að afla sér þekkingar. Úr hafi orðið að bæði hann og kærasta hans ákváðu að taka námskeiðið hjá Billu í menningarlæsi og það hafi verið mjög gagnlegt. „Við kynntumst ýmsu varðandi íslenska menningu og einnig fengum við kennslu í að teikna og mála. Þetta var í senn mjög gagnlegt og skemmtilegt,“ segir David Barbosa.

Fjölbreyttur afrakstur myndlistarnámskeiða

„Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að vinna með fullorðnu fólki. Þátttakendur á námskeiðunum okkar núna á haustönn hafa verið á öllum aldri, sá yngsti um tvítugt og sá elsti er kominn yfir sjötugt. Meirihluti þátttakenda hefur verið konur en karlarnir eru að sækja í sig veðrið,“ segir Bryndís Arnardótttir – Billa, sem hefur á haustönn leiðbeint fólki í myndlist í SÍMEY. Síðastliðinn föstudag, 11. desember, var opnuð sýning á verkum nemendanna í húsnæði SÍMEY að Þórsstíg 4 og er fólki velkomið að koma og sjá afrakstur vinnu þeirra. Hér má sjá nokkur af þeim verkum sem eru til sýnis. „Í okkar kennslu göngum við út frá markmiðum símenntunarmiðstöðva sem er að þjónusta einstaklinga 20 ára og eldri. Við hófum þetta nám árið 2013 og í ljós kom að það var mjög mikil spurn eftir verklegri myndlist. Ég tók mig þá til og skrifaði námsskrár fyrir kennsluna sem voru síðan samþykktar af ráðuneytinu. Um er að ræða smiðju í annars vegar teikningu og hins vegar málun og eru áttatíu kennslustundir í hvorri smiðju og sú þriðja er fræðsla í formi og lit og er hún 200 kennslustundir.“ Billa er margreyndur kennari í listnámi. Hún kenndi árum saman á listnámsbraut VMA en síðan stofnaði hún eigið fyrirtæki, Listfræðsluna, og hefur sem fyrr segir sinnt listnámsfræðslu í SÍMEY undanfarin tvö ár. Það kom heldur betur í ljós að þörfin var fyrir hendi og áhuginn hefur vaxið ár frá ári. Til að byrja með var Billa eini kennarinn en nú hefur Guðmundur Ármann Sigurjónsson, sem einnig er margreyndur listnámskennari, bæst við og sjá þau í sameiningu um þetta nám hjá SÍMEY. Guðmundur Ármann mun kenna á vörönn, en þá heldur Billa til Flórída þar sem hún hefur kennt í nokkra mánuði undanfarin ár, þessi vetur er sá sjötti, í háskóla þar. Billa segir að það fólk sem hafi verið á listnámsnámskeiðunum í SÍMEY eigi það sammerkt að hafa lengi langað til þess að spreyta sig á listsköpun en ekki haft tækifæri til þess. Hún segir að markmiðið sé að nemendur tileinki sér ákveðin grunnatriði en líka að þeir átti sig á því ferli sem eigi sér stað í listsköpun. Þannig tileinki nemendur sér ákveðin vinnubrögð til þess að ná sínu takmarki. „Á þessari sýningu sýna fjórir hópar afrakstur vinnu sinnar, í það heila hafa hátt í fimmtíu manns verið á þessum námskeiðum núna á haustönn. Við kennum samkvæmt samþykktum námsskrám og heimilt er að meta námið til framhaldsskólaeininga,“ segir Billa. „Þetta er búið að vera ólýsanlega gaman, bara alveg dásamlegt,“ segir Elfa Björk Ragnarsdóttir, sem á nokkur verk á sýningunni í Galleríi SÍMEY. Hún segist í „gamla daga“ hafa tekið nokkur námskeið í Myndlistaskólanum á Akureyri en síðan þegar hún sá auglýst myndlistarnámskeið í SÍMEY hafi hún ekki verið lengi að skrá sig. „Ég hef lengi haft áhuga á þessu. Ég byrjaði á myndlistarnámskeiðunum í SÍMEY árið 2013 og er núna búin að taka öll þau námskeið sem þar eru í boði, fyrst í teikningu, síðan í málun og loks í formi og litum. Billa og Guðmundur Ármann eru dásamlegir kennarar og hafa kennt mér svo mikið,“ segir Elfa Björk og segist síður en svo hafa sett penslana á hilluna. „Nei, alls ekki. Þetta hefur kveikt í mér að halda áfram. Maður hættir sko alls ekki núna,“ segir hún og upplýsir að nokkrir nemendur sem hafi fylgst að á námskeiðunum í SÍMEY séu nú í sameiningu að vinna að því að taka húsnæði á leigu fyrir vinnustofu. Og Elfa Björk, sem starfar sem ritari á Sjúkrahúsinu á Akureyri, upplýsir einnig að hún hafi mikinn áhuga á því að mennta sig frekar í myndlist, hún sé núna með það til alvarlegrar skoðunar. Á vorönn 2016 verður SÍMEY með í boði námskeiðið Fræðsla í formi og lit og á haustönn 2016 býður Billa upp á listasmiðjur sínar í málun og teikningu. Nú er um að gera að skrá sig! Allar frekari upplýsingar um námskeiðin má finna hér á heimasíðu SÍMEY.

Ánægja með fyrsta markþjálfanámskeiðið á Akureyri

Síðastliðinn föstudag, 11. desember, lauk staðarnámi hjá SÍMEY í markþjálfun. Þetta er jafnframt fyrsta námskeið sinnar tegundar sem SÍMEY býður upp á en til þessa hafa slík námskeið verið í boði í Reykjavík. Leiðbeinandi var Matilda Gregersdotter, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði. Hún er MCC vottaður markþjálfi hjá International Coach Federation og hefur hannað ACSTH (Approved Coach Specific Training Hours) vottað prógram hjá International Coach Federation. Fimm konur luku þessu fyrsta markþjálfanámskeiði í SÍMEY og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. Matilda Gregersdotter er fædd og uppalin í Stokkhólmi en hefur búið hér á landi síðan 1998. „Þetta námskeið í markþjálfun hér á Akureyri er það fyrsta utan Reykjavíkur,“ segir Matilda en hún setti árið 2004 á stofn fyrirtækið Leiðtoga sem fjórum árum síðar breyttist í Evolvia ehf. og það hefur í dag á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Frá sama ári hefur Evolvia haft ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Í SÍMEY var boðið upp á grunnnám í markþjálfun – svokallað ACC markþjálfanám og sem fyrr segir luku fimm konur staðarnáminu og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar. „Við hófum námið hér í september og erum núna að ljúka kennslulotunum en síðar í vetur munum við verða áfram í sambandi við þessa nemendur í gegnum netið þar sem þeir verða þjálfaðir í því að veita markþjálfun. Við munum verða í sambandi í netumhverfi vikulega í tíu vikur frá og með lok febrúar.“ En hvað er markþjálfun? Matilda segir að um sé að ræða samtalsaðferð sem lúti ekki síst að því að einstaklingurinn læri ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins. Á heimasíðunni www.markthjalfun.is segir m.a.: Markþjálfun er samstarf um krefjandi og skapandi ferli sem vinnur með styrkleika til að hámarka árangur. Markþjálfun byggir á gagnkvæmu trausti og trúnaðarsambandi markþjálfa og viðskiptavinar. Markþjálfun aðstoðar einstaklinga við að skilgreina hvað virkilega skiptir þá máli og hvers vegna, finna kjarnann. Markþjálfar vinna að því að virkja sköpunargleði einstaklinga og hvetja þá til athafna, rúlla hlutum af stað og finna farveg til þess að koma markmiðum í framkvæmd. Markþjálfun nýtist vel á vinnustöðum við að efla enn frekar hæfni starfsmanna og stjórnenda eða stuðla að lausnum á afmörkuðum vandamálum varðandi frammistöðu.  Matilda segir reynsluna sýna að markþjálfun nýtist fólki á ýmsan hátt. Til dæmis komi það stjórnendum fyrirtækja að góðum notum og það sama megi segja um uppalendur. „Markþjálfun nýtist fólki líka vel í hjónabandi. Almennt má segja að það nýtist fólki vel í samskiptum af ýmsum toga. Ég er mjög ánægð með útkomuna hér á Akureyri og tel að þetta námskeið hafi verið mjög árangursríkt,“ segir Matilda. Ekki verður látið staðar numið við þetta eina námskeið í markþjálfun í SÍMEY því 15. febrúar nk. hefst nýtt námskeið. Skráning á það er nú þegar hafin og er hér hægt að fá nánari upplýsingar. Einnig veitir Kristín Björk Gunnarsdóttir hjá SÍMEY nánari upplýsingar. Ekki var annað að heyra að þátttakendur á þessu fyrsta markþjálfanámskeiði á Akureyri væru mjög ánægðir með útkomuna. Á meðfylgjandi mynd eru þátttakendur á námskeiðinu með sín viðurkenningarskjöl ásamt leiðbeinanda. Frá vinstri: Ragnhildur Sverrisdóttir, Áshildur Hlín Valtýsdóttir, Matilda Gregersdotter, Kristín Björk Gunnarsdóttir, Ingibjörg Lóa Birgisdóttir og Ingunn Helga Bjarnadóttir.  

Frestun nemendasýningar Gallerý SÍMEY

Vegna veðurs frestast opnun nemendasýningar í Gallerý SÍMEY í dag. Nánar auglýst síðar.