Fréttir

Vel heppnuð fyrsta opna textílsmiðjan - næsta textílsmiðja hefst í september

Síðastliðið miðvikudagskvöld var síðasta samverustundin í opinni textílsmiðju – námskeiði sem Soffía Margrét Hafþórsdóttir fatahönnuður og Kristín Þöll Þórsdóttir klæðskeri hafa í fyrsta skipti kennt núna á vormisseri. Þær eru sammála um að vel hafi tekist til og eru hæstánægðar með útkomuna. Reynslan af þessu námskeiði hefur verið svo góð að ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn næsta haust og er nú þegar hægt að skrá sig á það námskeið, sem hefst í byrjun september og verður í það heila 80 klst. Sem fyrr segir lauk þessari fyrstu opnu smiðju í textíl í SÍMEY sl. miðvikudagskvöld. Þá voru mættar fjórar af átta konum sem sóttu námskeiðið. Það fór ekki á milli mála að þær voru allar hæstánægðar með námskeiðið og sögðust hafa lært margt og mikið og nokkrar af þeim glæsilegu flíkum sem urðu til á námskeiðinu vitna um það. Soffía og Kristín kenndu m.a. sauma, þrykk, sníðagerð, efnisfræði og hugmynda- og hönnunarvinnu að því ógleymdu að farið var í hina nýju Fab-Lab smiðju í Verkmenntaskólanum á Akureyri Soffía og Kristín hafa áður starfað saman því þær deildu um tíma vinnustofu í Gilinu og héldu þá tólf tíma námskeið. Þessa reynslu nýttu þær í opnu textílsmiðjuna í SÍMEY. Sem fyrr segir verður önnur sambærileg smiðja í haust og er ástæða til að hvetja þá sem hyggjast fara í hana að geyma ekki að skrá sig.

Á þriðja tug starfsmanna ÚA í raunfærnimati

Í þessari viku hafa 23 starfsmenn í fiskvinnslu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa verið í raunfærnimati Í SíMEY en í sem stystu máli er raunfærni samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Starfsreynsla þessara starfsmanna er misjafnlega löng en í mörgum tilfellum hafa þeir starfað í fiskvinnslu til fjölda ára. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem starfsmenn í fiskvinnslu fara í gegnum raunfærnimat hjá SÍMEY, það hafa áður gert starfsmenn í fiskvinnslu Samherja á Dalvík og á þessu ári er miðað við að níu starfsmenn þar fari í gegnum slíkt mat. Raunfærnimat er öflugt „verkfæri“ til þess að meta færni og reynslu einstaklinga í því skyni að bæta við sig námi eða þekkingu af öðrum toga. Fólk í ólíkum geirum atvinnulífsins hefur farið í gegnum raunfærnimat og almennt hefur reynslan af því verið afar góð.

"Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að fara í þetta nám"

Í gær lauk fjórði hópurinn námi í markþjálfun í SÍMEY. Níu luku náminu að þesu sinni og fengu viðurkenningaskjöl því til staðfestingar. Haustið 2015 var fyrsta slíka námskeiðið haldið á Akureyri sem var jafnframt fyrsta markþjálfanámskeiðið utan Reykjavíkur. Árið 2004 settti Matilda Gregersdotter, sem heldur utan um námið, á stofn fyrirtækið „Leiðtoga“ sem síðar breyttist í Evolvia ehf. og hefur það á sínum snærum markþjálfanám hér á landi. Evolvia hefur ACSTH vottun frá International Coach Federation sem þýðir að ACC markþjálfanám og framhaldsnám í markþjálfun hjá Evolvia er viðurkennt og uppfyllir öll skilyrði og kröfur ICF (International Coach Federation). Námið í SÍMEY er grunnnám í markþjálfun, svokallað ACC markþjálfanám. Markþjálfun má í stuttu máli lýsa sem samtalsaðferð þar sem einstaklingurinn lærir m.a. ýmislegt um sjálfan sig, varðandi lífið sjálft og starf hvers og eins. Í hópi þeirra nemenda sem luku námi í markþjálfun í SÍMEY í gær voru Inga Karlsdóttir, þjónustustjóri í fyrirtækjamálum í Landsbankanum á Akureyri, og Axel Ernir Viðarsson, slökkviliðsmaður í Slökkviliði Akureyrar Þau voru mjög ánægð með námið og segja öllum hollt að fara í það: Inga: Ég þekki nokkra markþjálfa og hafði sjálf farið til þeirra. Aðferðafræðin sem þetta byggir á þykir mér mjög áhugaverð og auk þess hafði ég lært jákvæða sálfræði og hluti af því námi var að fá innsýn í markþjálfun. Mér fannst þetta því tengjast vel og vera spennandi, þess vegna ákvað ég að slá til. Axel Ernir: Ég tek undir það sem Inga segir að ég þekki nokkra sem höfðu tekið markþjálfun og undantekningalaust mæltu þeir eindregið með þessu námi. Að endingu ákvað ég að slá til og sé svo sannarlega ekki eftir því. Námið felst að töluverðu leyti í því að fara inn á við og það veitir góða sýn á svo fjölmargt. Maður fer að horfa öðruvísi á hlutina og mér finnst þetta nám stuðla að bættum samskiptum. Almennt vil ég segja að námið var gríðarlega skemmtilegt og lærdómsríkt fyrir alla. Inga: Ég tel að sú aðferðafræði sem markþjálfun byggir á styrki alla. Markþjálfun er frábær í verkfærakistu stjórnenda en tvímælalaust nýtist hún öllum vel. Maður fer mikið inn á við og skoðar sjálfan sig og við erum látin fara djúpt í tilfinningar og upplifanir og finna neistann í sjálfum okkur til þess að fara þangað sem okkur langar að fara. Í mínum huga er þetta aðferðafræði sem hjálpar fólki til að finna neistann sinn. Axel Ernir: Margir fara í þetta nám til þess að vinna sem markþjálfar í framtíðinni en aðrir fara í námið til þess að efla sjálfsöryggi og þetta er tvímælalaust góð leið til þess. Sjálfur hef ég alltaf hugsað mér að vinna sem markþjálfi til hliðar við mitt starf sem slökkviliðsmaður, með það í huga að hjálpa fólki að bæta líf sitt og ná árangri. Inga: Ég fór í námið fyrst og fremst með það í huga að tileinka mér þessa aðferðafræði. Ég hafði ekki í huga að starfa sem markþjálfi. En því meira sem ég hef lært í þessu því meiri áhuga hef ég á að stunda markþjálfun með vinnu. Það er mjög gefandi þegar manni tekst að hjálpa fólki að kveikja neistann og sjá hlutina gerast. Axel Ernir: Námið er töluvert viðameira og gefur manni enn meira en ég átti von á. Það veiti manni nýja sýn og bætir færni á mörgum sviðum. Fyrirfram átti ég von á að námið myndi gefa mér umtalsvert en það hefur gefið mér margfalt meira en ég átti von á. Það er einfaldlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að fara í þetta nám. Þetta er vissulega krefjandi og okkur var sagt að við skyldum taka frá kvöldin þá daga sem væri kennt því við myndum klára alla okkar orku. Það reyndist alveg rétt. Það fer mikil orka í að gefa svona mikið af sér en það var margfaldlega þess virði. Inga: Með þessu námi erum við í raun orðin markþjálfar en til þess að fá svokallaða ACC-vottun þurfum við að safna 100 klukkutímum í að markþjálfa aðra og það hef ég fullan hug á að gera. Axel Ernir: Ég tek undir það að ég hef fullan hug á að safna þessum tímum og fá ACC-vottun. Hver og einn getur gert þetta á sínum hraða, það eru engin tímamörk á því hvenær fólk að ljúka tilskildum fjölda tíma í markþjálfun.

Mikilvægt að stilla saman strengi mismunandi skólastiga

Að loknum ársfundi SÍMEY í gær, 15. maí, flutti Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, erindi með yfirskriftinni „Fyrirtækið sem námsstaður“. Að því loknu voru pallborðsumræður þar sem Sveinn sat ásamt fulltrúum mismunandi skólastiga. Yfirskrift pallborðsins var „Fræðslustigin tala saman um nám til eflingar atvinnulífinu“. Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, hlýddi á pallborðsumræðurnar og ávarpaði viðstadda. Sveinn Aðalsteinsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í tæpt ár en við því tók hann 1. júní 2016 af Ingibjörgu E. Guðmundsdóttur sem hafði verið framkvæmdastjóri frá stofnun Fræðslumiðstöðvarinnar en lét af störfum fyrir aldurs sakir. Áður hafði Sveinn verið framkvæmdastjóri fræðslusjóðsins Starfsafls, starfsmenntar Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins, frá árinu 2006. Í því starfi vann hann m.a. að uppbyggingu og framkvæmd verkefnisins "Fræðslustjóri að láni" og og jafnframt var hann verkefnisstjóri sameiginlegrar vefgáttar fræðslusjóða, Áttin.is. Áður en Sveinn kom til Starfsafls var hann skólameistari Garðyrkjuskólans á Reykjum (síðar Landbúnaðarháskóla Íslands) frá 1999 til 2005. Í erindi sínu kynnti Sveinn starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins en hún var sett á stofn árið 2002 af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Fræðslumiðstöðin starfar náið með símenntunarmiðstöðvunum um allt land og eins og Sveinn orðaði það er hún að búa til verkfæri fyrir þær er lýtur að námsskrám, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati. Sveinn tók þannig til orða að fyrirtækin í landinu væru risi sem þyrfti að virkja betur í fræðslu sinna starfsmanna. Hann sagði að víða væri margt vel gert í atvinnulífinu í þessum efnum en átaks væri þörf til að gera enn betur. Áskorunin sem þeir sem ynnu að fræðslumálum væri að gera fyrirtækin meðvituð um fræðsluhlutverk sitt gagn sínum starfsmönnum. Sveinn nefndi að í ljósi mikils vaxtar í ferðaþjónustunni á síðustu misserum og árum væri töluverð áhersla á fræðslumál í ferðaþjónustu og þar væri mikið óunnið og mörg sóknarfæri. Sem fyrr segir var Sveinn í pallborði að loknu erindi sínu en þar voru einnig Jón Baldvin Hannesson, skólastjóri Giljaskóla á Akureyri, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY. Stjórnandi pallborðsumræðna var Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. Rauður þráður í máli þátttakenda í pallborði var að margt í núverandi skólakerfi þarfnaðist nýrrar sýnar og uppstokkunar og hvatt var til þess að skólastigin myndu í auknum mæli tala saman og samræma hlutina. Í því fælust mikil sóknarfæri og taldi Eyjólfur rektor HA að með því að auka samtal og samræmingu skólastiganna í Eyjafirði væri svæðinu mögulegt að taka ákveðið frumkvæði og skipa sér í forystusveit í þessum efnum í landinu. Taldi Eyjólfur til mikils vinnandi að ná slíku fram og allar forsendur væru til þess að það væri unnt. Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, sagðist lengi hafa fylgst með starfsemi SÍMEY og fullorðinsfræðslu almennt. Hann tók undir og hvatti til þess að skólastigin töluðu saman þannig að verkefnaskipting þeirra væri öllum ljós og skýr.

Árið 2016 gert upp á ársfundi SÍMEY 2017

„Hlutverk SÍMEY, sem staðið hefur óbreytt í mörg ár, er að efla símenntun og auka samstarf milli atvinnulífs og skóla og styrkja þannig samkeppnishæfni fyrirtækja og stofnana á svæðinu. SÍMEY stuðlar að því að einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu hafi aðgang að hagnýtri þekkingu á öllum skólastigum. Samstarfsaðilar eru allir þeir sem vinna að eða bjóða upp á fræðslu, innan eða utan hefðbundinna menntastofnana, hvort sem um er að ræða starfsmenntun, tómstundanám, bóklega eða verklega fræðslu.“ Þannig komst Arna Jakobína Björnsdóttir, stjórnarformaður SÍMEY, m.a. að orði í ávarpi sínu á ársfundi SÍMEY í húsnæði miðstöðvarinnar við Þórsstíg. Á fundinum fóru Arna Jakobína og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, yfir helstu atriði í starfsemi SÍMEY á árinu 2016 og framtiðarsýn. SÍMEY er nú á sínu átjánda starfsári og á þessum tíma hefur starfseminni vaxið fiskur um hrygg. Arna Jakobína sagði í ávarpi sínu að beint samband væri á milli stöðunnar á vinnumarkaði hverju sinni og sókn fólks í lengra nám. Um leið og atvinnuástandið batnaði minnkaði aðsókn í lengri námsleiðir símenntunarmiðstöðva um allt land. Um þessar mundir sagði Arna Jakobína að væri mikil spurn eftir námskeiðum og fyrirlestrum um samskipti og líðan á vinnustað, sem væri rökrétt þróun og ein birtingarmynd þeirra miklu breytinga sem íslenskt atvinnulíf hafi gengið í gegnum. „Á síðari árum er að aukast að fólk skipti um vinnu alla vega einu sinni á starfsævinni og hverfi jafnvel tímabundið af vinnumarkaði til að auka við sig menntun. Vaxandi er að fólki gefist kostur á að þróa sig áfram í starfi innan fyrirtækis og taka smám saman við stærri og meira krefjandi verkefnum þar. Að liðsinna starfsmönnum á „þeirra heimavelli“ við að auka færni sína og treysta samskiptin við samstarfsfólkið hefur farist SÍMEY einkar vel úr hendi. Það segir sína sögu að um 1.700 manns nýttu sér fyrirtækjaþjónustuna á árinu,“ sagði Arna Jakobína m.a. Ársreikningar SÍMEY voru kynntir og bornir upp til samþykktar. Rekstrartekjur stofnunarinnar á árinu 2016 námu kr. 217,3 milljónum króna en voru kr. 203,2 millónir. árið 2015 og hafa hækkað um 6,9% á milli ára. Hagnaður ársins nam kr. 3,9 milljónum í samanburði við kr. 6,3 milljóna króna tap árið 2015. Heildareignir námu í árslok kr. 119,9 milljónum króna og eigið fé var kr. 93,0 milljónir. Í skýrslu Valgeirs B. Magnússonar, framkvæmdastjóra SÍMEY, kom fram að á síðasta ári voru 11-12 starfsmenn hjá SÍMEY í 10 stöðugildum. Um 3.500 manns nýttu sér þjónustu SÍMEY á árinu samanborið við 3.800 árið 2015, fjöldi á námskeiðum var um 2.700 sem er ívið fleiri þátttakendur en árið á undan og náms- og starfsráðgjafarviðtöl voru 929 árið 2016 samanborið við 775 árið 2015. Þá fór 71 einstaklingur í raunfærnimat á vegum SÍMEY árið 2016 en árið 2015 voru þeir 50. Sem fyrr var á síðasta ári yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda á námskeiðum hjá SÍMEY konur eða 1.769 en 892 karlar. Í lok samantektar sinnar fjallaði Valgeir framkvæmdastjóri um nokkur atriði sem verði ofarlega á baugi á þessu ári. Hann nefndi að tryggja verði sess framhaldsfræðslunnar í lögum um framhaldsfræðslu en hún hefur verið fjármögnuð í gegnum Fræðslusjóð. Valgeir segir að aukin áhersla verði lögð á náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu, mannauðs- og fyrirtækjaráðgjöf og markþjálfun – auk þeirra hefðbundu verkefna sem SÍMEY hefur verið að sinna. Ný stjórn var kjörin á ársfundinum. Í henni eru fyrir hönd opinberra stétttarfélaga Arna Jakobína Björnsdóttir, til vara Hjördís Sigursteinsdóttir, fyrir hönd fræðslustofnana Jón Már Héðinsson, til vara Eyjólfur Guðmundsson, fyrir hönd opinberra fyrirtækja Hugrún Hjörleifsdóttir, til vara Ingimar Eydal, fyrir hönd almennra stéttarfélaga Anna Júlíusdóttir, til vara Halldór Óli Kjartansson, fyrir hönd almennra fyrirtækja Sverrir Gestsson, til vara Anna María Kristinsdóttir, fyrir hönd sveitarfélaga við Eyjafjörð Axel Grettisson, til vara María Albína Tryggvadóttir, fyrir hönd Akureyrarbæjar Halla Margrét Tryggvadóttir, til vara Hlynur Már Erlingsson.

Háskólabrú á Akureyri í haust í staðnámi - um 40% lækkun námsgjalda

Stefnt er að því að bjóða upp á svokallaða „Háskólabrú“ á Akureyri næsta haust í samstarfi Keilis og SÍMEY, verði næg þátttaka. Eins og nafnið gefur til kynna er námið sett upp til undirbúnings fyrir háskólanám. Keilir hefur frá árinu 2007 boðið upp á slíkt aðfararnám til háskóla en frá og með næsta hausti geta nemendur í fyrsta skipti valið að hefja nám á Háskólabrú í staðnámi bæði á Ásbrú og á Akureyri, í fjarnámi eða með vinnu. Með breyttu fyrirkomulagi á fyrirkomulagi þessa náms hefur Keilir ákveðið að lækka námsgjöld um 40% og má hér sjá upplýsingar um þau. Umsóknarfrestur um námið er til 12. júní nk. Nám á Háskólabrú Keilis er hugsað fyrir fólk sem ekki hefur lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis. Fyrirkomulag námsins tekur mið af því að þeir sem það stunda geti jafnframt sótt vinnu. Staðnámið á Akureyri verður í lotum þrisvar í viku, seinnipart dags, og einnig á laugardögum. Eitt fag verður kennt í einu. Staðnámið á Akureyri næsta haust verður á félagsvísinda- og lagadeild Keilis en vilji fólk styrkja sig frekar á t.d. raungreinasviði getur það bætt við sig raungreinum í fjarnámi. Möguleikarnir til þess að raða saman námi hvers eru þannig miklir. Hér eru frekari upplýsingar um Háskólabrú Keilis.

Kristján Sturluson ráðinn verkefnastjóri hjá SÍMEY

Kristján Sturluson hóf í byrjun apríl störf sem verkefnastjóri hjá SÍMEY. Í því felst miðlun upplýsinga um starfsemi SÍMEY, fyrirtækjaþjónusta, ráðgjöf um nám og starfsþróun og skipulagning af ýmsum toga. Kristján er Akureyringur í húð og hár. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 2001 og síðan BA-prófi í sálfræði í Háskólanum á Akureyri árið 2007. Tveimur árum síðar lauk Kristján kennsluréttindanámi í sama skóla sem gefur réttindi til kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Og núna á vordögum lýkur Kristján diplómanámi á meistarastig í jákvæðri sálfræði í Endurmenntun Háskóla Íslands. Árið 2009 hóf Kristján störf á rannsóknasviði Capacent á Akureyri – síðar Gallup á Íslandi – og vann þar uns hann hóf störf hjá SÍMEY fyrir nokkrum vikum. „Tíminn hjá Capacent/Gallup var einstaklega góður og gefandi en það er gott að breyta til og þegar ég sá þetta starf auglýst í vetur ákvað ég að sækja um. Þetta nýja starf gefur aukna möguleika á mannlegum samskiptum og það hugnast mér vel. Mér líst afar vel á starfið og vinnustaðinn, þetta verður í senn skemmtilegt, fjölbreytt og krefjandi. Okkar starf felst hér eftir sem hingað til í því að vinna fyrir fólk, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu,“ segir Kristján Sturluson.

SÍMEY býður upp á fimm stutt og hagnýt námskeið fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu

Í maí og júní nk. efnir SÍMEY til fimm stuttra og hagnýtra námskeiða fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu. Námskeiðin eru sett upp í samstarfi við Ferðamálastofu undir merkjum Vakans – gæða- og umhverfiskerfis í ferðaþjónustu. Öll námskeiðin verða á Akureyri en einnig verða fjögur þeirra í Fjallabyggð og á Dalvík. Starfsfólk SÍMEY hefur að undanförnu heimsótt fjölda ferðaþjónustufyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu og kynnt þeim þessi fimm námskeið: 1. Þjónusta og móttaka gesta – kennt á Akureyri 18. maí kl. 13:00-16:00 og í Fjallabyggð 23. maí kl. 13:00-16:00. Kennari: Hrefna Laufey Ingólfsdóttir, sem hefur áralanga reynslu af störfum í ferðaþjónustu – bæði á veitingastöðum og hótelum. Hún sá um rekstur Ferðaþjónustunnar á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit í sex ár. Núna stundar hún BA-nám í ferðamálafræðum við Háskólann á Hólum. Á námskeiðinu fer Hrefna Laufey m.a. yfir samskipti starfsmanna og viðskiptavina, þarfir ólíkra hópa viðskiptavina, kvartanir og ábendingar, innritun, uppgjör, persónulegt hreinlæti starfsmanna, vinnuvernd og öryggi, trúnað við gesti o.fl. Hér eru nánari upplýsingar um námskeiðið. Hér er skráning á námskeiðið. 2. Meðhöndlun matvæla – kennt á Akureyri 22. maí kl. 13:30-16:30 og 8. júní á Dalvík kl. 13:30-16:30. Kennari: Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvæla- og ferðamálabrautar VMA. Marína hefur kennt við matvælabraut VMA til margra ára og einnig hefur hún starfað sem matreiðslumeistari á hótelum og veitingastöðum. Á námskeiðinu fer Marína yfir allt mögulegt sem snýr að meðhöndlun matvæla, t.d. hreinlæti, hlífðarfatnað, vinnuvernd, örveirur og varnir gegn þeim, krossmengun og varnir gegn henni, ofnæmi og óþol, þrifaáætlanir, geymsluþol matvæla, matarsjúkdóma o.fl. Hér eru nánari upplýsingar um námskeiðið. Hér er skráning á námskeiðið. 3. Mikilvægi hreinlætis – kennt á Akureyri 24. maí kl. 13:30-16:30 og í Fjallabyggð 6. júní kl. 13:30-16:00. Kennari: Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvæla- og ferðamálabrautar VMA. Marína hefur kennt við matvælabraut VMA til margra ára og einnig hefur hún starfað sem matreiðslumeistari á hótelum og veitingastöðum. Á námskeiðinu fjallar Marína m.a. um persónulegt hreinlæti, krossmengun í matvælum og varnir gegn henni, skordýr og sníkjudýr, raka og afleiðingar hans, heilbrigði og heilsu, innra eftirlit fyrirtækisins, þrifaáætlanir og stefnu, starfsemi og þjónustu viðkomandi fyrirtækis. Hér eru nánari upplýsingar um námskeiðið. Hér er skráning á námskeiðið. 4. Þrif og frágangur – kennt á Akureyri 30. maí kl. 13:30-16:30 og Dalvík 31. maí kl. 13:30-16:30. Kennari: Hjördís Stefánsdóttir hússtjórnarkennari. Hjördís var til fjölda ára brautarstjóri og kennari við matvælabraut VMA. Þá var hún lengi skólastjóri á Laugum og hefur í mörg ár lagt sín lóð á vogarskálarnar í ferðaþjónustu, m.a. sem hótelstjóri. Á námskeiðinu fjallar Hjördís m.a. um skipulag þrifa og aðferðir við þrif og frágang, meðferð og notkun áhalda við þrif, viðbrögð við veggjalús og/eða myglusvepp og grun um sjúkdómasmit, trúnað við gesti og friðhelgi einkalífsins, samskipti við viðskiptavini, þjónustu og þjónustusamskipti, vinnuvernd o.fl. Hér eru nánari upplýsingar um námskeiðið. Hér er skráning á námskeiðið. 5. Þjónanámskeið – kennt á Akureyri 6. júní – 3-4 klst. Kennari: Hallgrímur Sæmundsson, framreiðslukennari við matvælabraut MK og stundakennari í hótelstjórnun og veitingarekstri í Háskólanum í Reykjavík. Á námskeiðinu fjallar Hallgrímur m.a. um umhverfi veitingahúsa, hvernig beri að taka á móti gestum og hvernig beri að kveðja þá, pantanir, vín og drykki, frágang reiknings fyrir viðskiptin, framreiðslu rétta og ábót og mistök – hvernig skuli taka á mistökum og hvaða heimildir starfsmaður hafi í þeim tilvikum. Eins og að framan greinir er hér um afar áhugaverð námskeið að ræða sem án nokkurs vafa nýtast starfsfólki í ferðaþjónustu afar vel – jafnt fyrir þá sem eru nýir í greininni og hafa ekki reynslu af því að starfa í henni og einnig þá sem hafa reynslu af því að starfa í greininni, því aldrei er góð vísa of oft kveðin. Starfsfólk SÍMEY er fúst að veita allar nánari upplýsingar um námskeiðin og fyrirkomulag þeirra og einnig er það tilbúið að vísa ferðaþjónustufyrirtækjum veginn í fjármögnun námskeiðsgalda starfsmanna sinna. Í því sambandi eru ýmsir möguleikar – sjá hér.

Kynningarfundur 28. apríl nk. á raunfærnimati fyrir sjómenn

Næstkomandi föstudag, 28. apríl, verður kynningarfundur á raunfærnimati fyrir sjómenn kl. 10:00-11:00 í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg. Fyrst og fremst verður á fundinum, sem er öllum áhugasömum opinn, leitast við að varpa ljósi á hvað felst í raunfærnimati. Í sem stystu máli snýst raunfærnimat um að viðkomandi einstaklingur fá viðurkennda færni sína og reynslu, oft og tíðum með starfi sínu um árabil, án þess að hafa af einhverjum ástæðum lokið námi í viðkomandi fagi. Með öðrum orðum er með raunfærnimati verið að kortleggja færni og auka möguleika viðkomandi til þess að bæta við sig í námi eða annarri uppbyggingu. Möguleikarnir eru óendanlega margir. Þeir sjómenn sem hafa starfað til sjós að lágmarki í þrjú ár og eru 23ja ára og eldri geta gengist undir raunfærnimat. Raunfærnimatið er bæði opið starfandi sjómönnum og einnig sjómönnum sem áður hafa verið til sjós – að lágmarki í þrjú ár - en eru það ekki lengur. Sjá bækling um raunfærnimat á íslensku. Og hér er myndband um raunfærnimatið. Fjölmargir hafa farið í gegnum raunfærnimat – úr ólíkum geirum atvinnulífsins – og almennt má segja að það hafi gefið mjög góða raun. Með kynningarfundinum nk. föstudag á Akureyri vill SÍMEY vekja sérstaklega athygli á raunfærnimati fyrir sjómenn. Annar sambærilegur fundur fyrir sjómenn við utanverðan Eyjafjörð verður á Dalvík föstudaginn 12. maí kl. 10:00-11:00.

Sterkari starfsmaður - tíu nemendur brautskráðir í dag

Í dag brautskráði SÍMEY tíu nemendur úr náminu „Sterkari starfsmaður“, sem er 150 kennslustunda námsleið á fyrsta hæfniþrepi og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið hefur verið unnið í samvinnu við „Atvinna með stuðningi“ hjá Vinnumálastofnun. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt nám er sett upp hér á landi í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar. Námið hófst í nóvember á síðasta ári og er tvíþætt, annars vegar upplýsingatækni og hins vegar sjálfsstyrking og samskipti. Námsleiðin er sérstaklega sett upp með hliðsjón af þörfum fólks með stutta skólagöngu sem vill auka færni sína í upplýsingatækni og tölvum. Helgi Þ. Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY, sem hefur haft yfirumsjón með náminu, segir að það hafi í heildina gengið mjög vel og engin spurning sé að það gagnist þátttakendum mjög vel og sé til þess fallið að efla og styrkja fólk í starfi og daglegu lífi. Sem fyrr segir hefur sambærilegt fræðsluverkefni ekki áður verið unnið hér í samvinnu símenntunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar og segir Helgi ánægjulegt hversu vel hafi tekist til og í ljósi reynslunnar verði í framtíðinni stefnt að því að halda eitt slíkt námskeið á hverjum vetri.