Þrettán nemendur í "Stökkpalli" - námsleið fyrir þá sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu
20.nóvember 2017
Þann 19. október sl. hófst í SÍMEY 180 klukkustunda nám sem ber nafnið „Stökkpallur“ og byggir á námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námið, sem er unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun og Fjölsmiðjuna á Akureyri, er ætlað þeim sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu. Námið er mögulegt að meta til 10 námseininga á framhaldsskólastigi.
Námið er á fyrsta hæfnisþrepi og skiptist í fjóra meginþætti: Markmiðasetningu og sjálfseflingu, samskipti og samstarf, vinnuumhverfi og vinnustaði og vettvangsnám á vinnustað. Verkefnastjóri Stökkpalls hjá SÍMEY er Sólveig Helgadóttir og umsjón með náminu auk hennar hefur Aníta Jónsdóttir, verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY.
„Stökkpallur“ hófst sem fyrr segir 19. október sl. og lýkur með brautskráningu 5. janúar 2018. Þrettán nemendur á aldrinum 20-30 ára eru að þessu sinni og er kennt alla virka daga. Dagurinn hefst kl. 09:00 með morgunverði þátttakenda í náminu í SÍMEY og kl. 09:30 hefst kennslan og stendur til kl. 12:30.
Auk kennara frá SÍMEY kenna aðrir fagaðilar ákveðna þætti í náminu og þá koma gestir úr atvinnulífinu og Einingu-Iðju og upplýsa nemendur um þá hluti sem að þeim snúa. Einnig fara nemendur í heimsóknir á vinnustaði og kynna sér ýmislegt áhugavert, t.d. hefur verið farið í FAB-LAB smiðjuna í VMA. Síðustu tvær vikurnar fyrir jól fara þátttakendur í Stökkpalli út í hin ýmsu fyrirtæki og og taka þar vettvangsnám á vinnustað.
Slíkt nám hefur áður verið í boði í SÍMEY og er markmiðið ávallt hið sama; að efla og fræða viðkomandi einstaklinga og styrkja þá í því að fara út á vinnumarkaðinn og vinna störf við hæfi og/eða styðja þá til áframhaldandi náms.