Vésteinn Aðalgeirsson fyrirmynd í námi fullorðinna

Vésteinn Aðalgeirsson, annar tveggja sem fékk viðurkenningu á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífs…
Vésteinn Aðalgeirsson, annar tveggja sem fékk viðurkenningu á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fyrir að vera fyrirmynd í námi fullorðinna.

Akureyringurinn Vésteinn Aðalgeirsson var annar tveggja sem fékk viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins þann 30. nóvember sl. Hann er 51 árs gamall og hefur undanfarna þrjá áratugi verið til sjós, samfleytt síðustu 28 ár, fyrst í þrjú ár, frá 1988 til 1991, hjá Útgerðarfélagi Akureyringa, en síðan á fimm skipum Samherja hf., lengi sem bátsmaður en er nú háseti á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11.

Vésteinn segist lengi hafa haft hjá sér opin augu fyrir því að ná sér í aukna þekkingu. Hann hafi vitað lengi af endurmenntunarsjóði sjómanna en síðan hafi hreyfing komist á málin þegar Sjómennt hafi í upphafi árs 2015 gert samning við símenntunarstöðvar um allt land. Hann hafi hlýtt á kynningu á þessum samningi hjá SÍMEY og hún hafi vakið sinn áhuga að taka nú það skref sem hann hafi lengi verið með í huga.
Til að byrja með fór hann í Sjósóknarverkefnið svokallaða og fór þar í gegnum raunfærnimat í fiskvinnslu og -veiðum. Hann hafði í huga að auka færni sína í ensku, enda lengi verið grúskari í tölvum, ekki síst í excel, en fann að hann þyrfti á því að halda að auka færni sína í enskunni. Því innritaði hann sig í ensku 103 í fjarnámi hjá Menntastoðum. Og þegar þarna var komið sögu ákvað Vésteinn vorið 2015 að innrita sig í námið Mareltækni, sem Fisktækniskólinn og Marel standa í sameiningu að. Haustönninni 2015 var fyrst og fremst varið í upplýsingatækninám en eftir áramót, á vorönn 2016, tók tæknihlutinn við og þá var sjónum m.a. beint að þeim tæknilausnum sem Marel vinnur að í framleiðslu sinni á fiskvinnsluvélum o.fl. Náminu var síðan haldið áfram núna á haustönn og í þessari viku lauk því síðan. Vésteinn er í öðrum hópnum sem lýkur Mareltækninum, fyrsti hópurinn lauk sínu námi vorið 2015.
Sem afsprengi af þessu námi, ef svo má segja, gafst Vésteini kostur á því að fara ásamt fleirum í nokkurra daga ferð til Portúgal í nóvember sl. Ferðin var farin í tengslum við Erasmus samstarfsverkefni Fisktækniskólans og skóla í Portúgal. Í þessari námsferð voru fjölmörg fyrirtæki heimsótt í því skyni að skoða fyrst og fremst saltfiskvinnslu þar í landi.

Vésteinn segir að það hafi vissulega verið töluverð viðbrigði að setja sig í námsgírinn, enda hafi hann ekki setið á skólabekk síðan í Lundi í Öxarfirði fyrir margt löngu. En námstíminn hafi verið sér mjög góður og gagnlegur og til þess fallinn að auka möguleika sína á vinnumarkaði. Hann segist hafa verið minna á sjó á þessu ári en áður til þess að geta stundað námið. Mikilvægur þáttur í þessu segir hann hafa verið að Samherji hf. hafi verið tilbúinn að leggja honum lið og greiða hans götu í náminu. „Ég er mjög sáttur við að hafa drifið í því að fara í þetta nám. Öll þekking er af hinu góða, ekki síst varðandi tölvur og tækni. Það var gott og afar gagnlegt að víkka út sjóndeildarhringinn og horfa í kringum sig og jafnframt var ákveðin afþreying í því fólgin að fara í þetta nám og brjóta upp hversdagslega rútínu,“ segir Vésteinn Aðalgeirsson.

Á hópmyndinni sem var tekin þegar Vésteinn tók á móti viðurkenningunni á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eru frá vinstri: Halldór Grönvold stjórnarformaður FA, Valgeir Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY, Vésteinn Aðalgeirsson, Souleymane Sonde, sem einnig fékk viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna, Sólveig H. Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Mími símenntun, Guðný Ásta Snorradóttir Mími símenntun, Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri FA. Að launum fengu Vésteinn og Souleymane Sonde blómvönd og spjaldtölvu.