Fréttir

SÍMEY er aðili að samstarfssamningi um miðlun fræðslu til fyrirtækja og starfsmanna í ferðaþjónustu

Þann 21. september sl. var undirritaður samstarfssamningur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins við fjórar símenntunarmiðstöðvar – þar á meðal Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - um tilraunaverkefni um fræðslu starfsmanna í ferðaþjónustu. Framkvæmd samningsins verður í höndum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem FA vistar. Hinar þrjár símenntunarmiðstöðvarnar sem eiga aðild að samningnum eru Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Mímir – símenntun og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi. Verkefnið hefur það að markmiði að ná til fyrirtækja í ferðaþjónustu með fræðslu og þjálfun af ýmsu tagi. Verkferlar verða samhæfðir, aðilar munu skiptast á efni, ráðgjöf og öðru sem að gagni kemur til auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu og hvernig ná má til fleiri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, fagnar aðild SÍMEY að þessum samningi. Hann segir að unnið verði að framkvæmd hans í náinni samvinnu við Hildi Bettý Kristjánsdóttur, starfsmann Fræðumiðstöðvar atvinnulífsins, sem raunar er fyrrverandi starfsmaður SÍMEY. Á næstunni verður hafist handa við heimsóknir til ferðaþjónustufyrirtækja á starfssvæði SÍMEY og þeim kynntir möguleikar í fræðslu fyrir fyrirtækin og fjármögnun fræðslunnar. Í hlut SÍMEY kemur einnig að halda utan um tölulegar upplýsingar um heimsóknirnar og árangur af þeim. Samkvæmt verkáætlun lýkur þessu verkefni að rösku ári liðnu, í október 2018. Í janúar sl. var undirritaður samningur um Hæfnisetur ferðaþjónustunnar á grundvelli samþykktar Alþingis frá október 2016. Starfsemi þess miðar að því að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar fyrir aukna hæfni og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta í hæfni starfsmanna. Lögð er áhersla á samvinnu við greinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld við að þróa leiðtogafræðslu, námslotur fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu, þrepaskipt starfsnám og raunfærnimat í starfsgreinum ferðaþjónustunnar.

Jákvætt viðhorf nemenda á vorönn 2017 til náms í SÍMEY

Síðastliðið vor sendi SÍMEY bréf til allra þátttakenda á námskeiðum SÍMEY á vorönn 2017 þar sem kannaður var hugur þeirra til námsins. Með slíkri viðhorfskönnun vildi SÍMEY fá afstöðu þátttakenda til námsins og starfsemi SÍMEY í því skyni að bæta þjónustuna. Niðurstöður þessar könnunar gefa til kynna að almennt ríki almenn ánægja þeirra sem sækja nám í SÍMEY með námið. Þannig svöruðu 96% svarenda því játandi að námið í SÍMEY hefði verið þeim gagnlegt og álíka hátt hlutfall þátttakenda sagði að þeim hefði liðið vel í náminu í SÍMEY. Spurt var um námsmat og skipulag námsins og einnig aðgengi þátttakenda að starfsfólki. Einnig voru þátttakendur spurðir um traust til SÍMEY sem fræðsluaðila og hversu vel starfsfólk tæki tillit til þeirra þarfa. Í svörum við báðum þessum spurningum gáfu 92% svarenda jákvætt svar. Þá kom fram í könnuninni að um 90% þátttakenda lýstu ánægju sinni með aðstöðu til námsins í SÍMEY.

Formleg opnun nýs námsvers SÍMEY á Dalvík

SÍMEY hefur fært sig um milli húsa á Dalvík – úr gamla húsi Dalvíkurskóla á jarðhæð Víkurrastar. Nýtt námsver var opnað þar formlega í gær, föstudaginn 15. september. Tónlistarskólinn á Tröllaskaga og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hafa undanfarin ár deilt húsnæði í gamla barnaskólahúsinu á Dalvík og nú hafa báðar stofnanir flust yfir í Víkurröst. Þar hafa SÍMEY og Tónlistarskólinn komið sér fyrir á neðri hæðinni og einnig hefur skólinn til afnota rými á efri hæðinni. Við formlega opnun hins nýja námsvers í gær sagði Valgeir Blöndal Magnússon fagnaðarefni að SÍMEY hefði nú afnot af þessu góða rými í Víkurröst en bæði er um að ræða minni og stærri kennslurými og skrifstofurými. Starfsemi SÍMEY á Dalvík er og hefur verið fjölbreytt. Boðið er upp á námskeið af ýmsum toga og er sérstök ástæða til þess að geta fjögurra anna náms í fisktækni sem hópur starfsmanna Samherja á Dalvík stundar. Þessar myndir voru teknar við formlega opnun námsversins á Dalvík. Á þessari mynd er Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík, Kristín Björg Gunnarsdóttir, verkefnastjóri SÍMEY á Akureyri og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Aníta Jónsdóttir nýr náms- og starfsráðgjafi hjá SÍMEY

Aníta Jónsdóttir hefur tekið til starfa sem náms- og starfsráðgjafi /verkefnastjóri í SÍMEY. Hún hefur undanfarin tuttugu ár verið grunnskólakennari í Dalvíkurskóla, Hrafnagilsskóla og Naustaskóla á Akureyri. „Ég lauk kennaranámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1995 og er því eins og sagt er; meðal íslenski kennarinn, 47 ára gömul kona! Ég hef kennt án uppihalds í þennan tíma að einu ári undanskildu þegar ég fór veturinn 1999-2000 í diplómanám í náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands.“ Aníta er fædd og uppalin á Selfossi en málin æxluðust þannig að hún fór norður til Dalvíkur og hóf að kenna þar 1997. Þetta var mikill snjóavetur og Sunnlendingurinn Aníta hafði aldrei séð annað eins. Fannfergið dró þó ekki úr henni kjarkinn og hún kenndi á Dalvík í tvo vetur en síðan lá leiðin inn í Eyjafjarðarsveit þar sem hún kenndi við Hrafnagilsskóla og síðustu ár hefur Aníta verið við kennslu í Naustaskóla á Akureyri. „Síðastliðið vor tók ég þá ákvörðun að hvíla mig á kennslunni – án þess þó að hafa tryggt mér annað starf. Ég sá síðan þetta starf hjá SÍMEY auglýst, sótti um og mín var gæfan að fá það. Ég hef lengi horft til starfs Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og einnig hefur lengi blundað í mér að vinna sem náms- og starfsráðgjafi með fullorðnu fólki. Þarna kom tækifærið upp í hendurnar á mér og mér líkar mjög vel að starfa hér. Á hverjum degi tekst ég á við nýja hluti sem er í senn gefandi og þroskandi. Starfið er víðfeðmt, allt frá einstaklingsráðgjöf í að skipuleggja námskeið fyrir vinnustaði. Eitt af þeim verkefnum sem ég kem til með að vinna með er raunfærnimat sem mér þykir frábært „verkfæri“.“ Aníta hefur í gegnum tíðina kennt ýmislegt en rauði þráðurinn hefur þó verið annars vegar íslenska og hins vegar kristinfræði. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íslensku en hafði ekki bakgrunn í kristinfræðinni að öðru leyti en því að frá unglingsaldri tók ég þátt í kirkjustarfi á Selfossi. Þegar ég síðan var í námi í náms- og starfsráðgjöf var ég beðin um að vera þann vetur meðhjálpari í Selfosskirkju. Það var skemmtileg reynsla og og núna starfa ég sem einn af meðhjálpurum Glerárkirkju hér á Akureyri og einnig er ég meðhjálpari í Munkaþverárkirkju.“ Undanfarin ár hefur Aníta kennt námskeið sem kallast „Jákvæður agi“ – bæði fyrir kennara og foreldra. „Í tengslum við þetta námskeið kviknaði áhugi minn á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og meðfram vinnu hef ég stundað meistaranám í þessum fræðum í Háskóla Íslands. Ég ákvað hins vegar að taka mér frí frá náminu á þessari önn á meðan ég væri að komast inn í nýtt starf hér í SÍMEY,“ segir Aníta Jónsdóttir.

Tuttugu og sjö starfsmenn í fiskvinnslu luku raunfærnimati

Þann 15. ágúst sl. voru 27 starfsmenn í fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja á Dalvík brautskráðir úr raunfærnimati í fiskvinnslu, þar af 18 starfsmenn á Akureyri en 9 á Dalvík. Raunfærni felur í sér samanlagða færni sem einstaklingur hefur náð með t.d. starfsreynslu, starfs-, frístunda- eða skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Þeir starfsmenn í fiskvinnslu sem luku raunfærnimatinu með formlegum hætti um miðjan ágúst hafa margir að baki langa starfsreynslu í fiskvinnslu og því aflað sér mikillar þekkingar. Síðastliðið vor tóku ráðgjafar hjá SÍMEY viðtöl við umrædda starfsmenn og síðan var unnið úr þeim. Almennt gekk raunfærnimatið mjög vel og leiddi í ljós mikla færni starfsmannanna, að sögn Svanfríðar Ingu Jónasdóttur, verkefnastjóra hjá SÍMEY. Hún segir að síðustu daga hafi verið rætt við þessa starfsmenn og þeim kynntir möguleikar á því að innritast í nám í fisktækni, sem er fjögurra anna nám, skipulagt með vinnu. Um 20 starfsmenn Samherja á Dalvík hafa stundað slíkt nám þar og eru nú hálfnaðir með það. Þessir nemendur útskrifast sem fisktæknar frá Menntaskólanum á Tröllaskaga næsta vor, en hann er einskonar móðurskóli þessa náms. Svanfríður segir mjög góða reynslu af fisktæknináminu á Dalvík og hún muni koma að góðum notum við skipulagningu sambærilegs náms á Akureyri, ef af því verði en það mun skýrast á næstu dögum. Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, tók þessar myndir við við brautskráninguna 15. ágúst sl. Auk fiskvinnslufólksins og starfsmanna SÍMEY var Ásdís V. Pálsdóttir verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands viðstödd brautskráninguna.

Unnið samkvæmt þriggja ára fræðsluáætlun fyrir starfsfólk grunnskóla Akureyrarbæjar

Í síðustu viku var boðið upp á fræðslu í SÍMEY fyrir starfsfólk grunnskóla Akureyrarbæjar, aðra en kennara. Fræðslan er liður í fræðsluáætlun 2017-2020 fyrir starfsfólk grunnskólanna, sem er ávöxtur umfangsmikils samstarfs SÍMEY og og fræðslusviðs Akureyrarbæjar um fræðslu starfsmanna bæjarfélagsins. Samstarf SÍMEY og fræðslusviðs Akureyrarbæjar á sér nokkurra ára sögu. Í nóvember 2016 var undirritaður samningur SÍMEY við fræðslusvið Akureyrarbæjar, Mannauðssjóð Kjalar og Sveitamennt um áframhaldandi samstarf í fræðslumálum – svonefndan Fræðslustjóra að láni. Í framhaldi af samningnum var unnin þarfagreining innan grunnskóla Akureyrarbæjar samkvæmt hugmyndafræði Markviss. Gerð var viðhorfskönnun meðal starfsfólks skólanna og unnin starfagreining. Í kjölfarið var síðan myndaður stýrihópur sem í voru sjö starfsmenn grunnskólanna, aðrir en kennarar, einn skólastjóri og einn starfsmaður fræðslusviðs Akureyrarbæjar. Hópurinn vann náið með ráðgjöfum SÍMEY að mótun fræðslustefnu fyrir starfsfólk grunnskólanna til næstu þriggja ára. hann hittist reglulega frá janúar til júní á þessu ári til þess að vinna að fræðsluáætlunni og einnig var farið í heimsóknir í grunnskólana og hún kynnt. Nú er sem sagt byrjað að vinna eftir fyrirliggjandi fræðsluáætlun og var í síðustu viku boðið upp á þrjú ólík námskeið fyrir starfsfólk grunnskólanna, aðra en kennara. Í fyrsta lagi var Eyrún Kristína Gunnarsdóttir með fræðslu um greiningar og sérþarfir barna, Helga Hauksdóttir og Helgi Þ. Svavarsson ræddu um fjölmenningu í skólum og Edda Björgvinsdóttir flutti fyrirlestur sem hún kallaði „Húmor og vinnugleði“. Sem fyrr segir er sú fræðsluáætlun sem nú er farið að vinna eftir til þriggja ára – sex annir. Síðasta önnin verður að vori árið 2020. Sú fræðsla sem boðið verður upp á tekur mið af þeim óskum og þörfum sem komið hafa fram bæði í áðurnefndum stýrihópi og beint frá starfsmönnum grunnskóla Akureyrarbæjar.

SÍMEY brautskráði 127 nemendur

Í dag voru brautskráðir 127 þátttakendur úr ýmsum námsleiðum hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Brautskráningin var í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri. Námsleiðirnir sem brautskráningarnemarnir 127 luku eru „Menntastoðir“- kvöldnám, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, félagsliðabrú, „Help start“-grunnur og framhaldshópur, sölu- markaðs og rekstrarnám, Fab Lab - opin smiðja - hópur 1 og 2, textílsmiðja, opin smiðja – málmsuðusmiðja, alvöru bóhaldsnámskeið - 75 klst. nám sem þjálfar þátttakendur í nútímabókhaldi - unnið í samstarfi við Tölvufræðsluna og „Mannlegi millistjórnandinn“. Fyrir og eftir brautskráninguna í dag spilaði og söng fyrir gesti hinn ungi og bráðefnilegi tónlistarmaður Birkir Blær Óðinsson. Auk Valgeirs Magnússonar framkvæmdastjóra SÍMEY fluttu ávörp við brautskráninguna annars vegar Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri Öldrunarheimila Akureyrar og hins vegar Ósk Helgadóttir sem brautskráðist í dag af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Sí- og endurmenntun 21. aldar Í ávarpi sínu ræddi Helga Erlingsdóttir um gildi menntunar frá ýmsum hliðum en fræðslumál starfsmanna Öldrunarheimila Akureyrarbæjar eru mikið á hennar borði. Helga sagði að símenntun starfsfólk væri mikilvægari en nokkru sinni áður – á tíma hraðra tæknibreytinga. Í því sambandi nefndi hún að árið 2007 hafi iphone-síminn komið fram á sjónarsviðið – fyrir aðeins áratug – en nú eigi nánast hver maður snjallsíma. Áfram haldi tæknibyltingin, sagði Helga, og nú sé farið að tala um að innan fárra ára verði sjálfkeyrandi ökutæki á götunum. Helga sagðist telja að símenntun 21. aldarinnar yrði fyrst og fremst í gegnum mismunandi samfélagsmiðla og snjalltæki þannig að fólk gæti stundað sína endur- og símenntun þegar því hentaði. „Geng glöð út í sumarið“ Sem fyrr segir brautskráðist Ósk Helgadóttir í dag af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú. Hún rifjaði upp að hún hefði lokið grunnskólanámi árið 1979 og síðan hafi lífið tekið við með því sem það bauð upp á þeim tíma. Menntun hafi ekki verið sér ofarlega í huga á þessum tíma. Síðan hafi hún eignast fjölskyldu og komið börnum upp en alltaf hafi undir niðri blundað í sér löngunin til að takast á við nám. Hins vegar hafi hún ekki haft trú á sjálfri sér til þess að setjast aftur á skólabekk. En loksins hafi hún ákveðið að byrja með því að taka nokkur fög í fjarnámi í VMA og í framhaldi af því skráði hún sig til náms í SÍMEY. Þetta var árið 2014. Síðan sagðist Ósk hafa tekið nám af ýmsum toga í SÍMEY og sagðist hún vera starfsfólki SÍMEY og samnemendum ævarandi þakklát fyrir stuðninginn, kennsluna og frábæra samveru. „Það er mikið átak að rífa sig af stað,“ sagði Ósk, „en ég er mun sterkari manneskja en áður og geng glöð út í sumarið.“ Uppskera árangurs „Dagurinn í dag er uppskera árangurs, þið hafið lagt á ykkur mikla vinnu, farið út fyrir þægindarammann og dagurinn í dag gæti líka verið dagur nýrra markmiða og væntinga. Þið hafið bætt við ykkur þekkingu og öðlast hæfni og getu til að að takast á við ný verkefni og án efa skapað ykkur ný tækifæri í lífinu. Dagurinn í dag er líka dagur stoltsins. Það getur verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefst dugnaðar og seiglu. Fólk þarf að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda sem geta fylgt okkur. Fyrir okkur sem vinnum á þessum vettvangi þá er þessi dagur líka afar mikilvægur en á þessum degi kristallast tilgangurinn með starfi okkar, þegar við finnum, heyrum og sjáum tilganginn með þessu öllu, sjáum þær breytingar sem hafa orðið hjá ykkur. Einhvers staðar segir að það að geta haft áhrif á aðra mannskju til góðs sé það mikilvægasta í lífinu. Með hvatningu, ráðgjöf, viðurkenningu, kennslu eða öðru. Að þessu leyti eru forréttindi að vinna á þessum vettvangi okkar, dagurinn í dag dregur það sterkt fram,“ sagði Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, m.a. þegar hann ávarpaði brautskráningarnema og gesti við brautskráninguna í dag. Að takast á við breyttan heim Valgeir sagði það staðreynd að samfélagið breytist hratt í takti við tækniframfarir á öllum sviðum. „Störf breytast, breyttar kröfur á vinnustöðum um tiltekna þekkingu, hæfileikinn til að aðlagast verður sífellt mikilvægari. Afar og ömmur sitja með snjalltækin í forundran með barnabörnin á öxlinni. Hvernig eigum við að takast á við breytilegan heim? Valdefling einstaklinga er í okkar huga sem í þessum geira störfum lykilatriði í þessu samhengi. Með því stuðla að valdeflingu einstaklinga og sjálfsuppbyggingu þá erum við að auka möguleika fólks á því að hafa fleiri valkosti, geta tekið ígrundaðri ákvarðanir, aukum hæfni í ákvarðanatöku og aðlögunarhæfni, aukið sjálfstraust og samskiptafærni. Við megum ekki um of óttast þann heim sem við lifum í. Fremur þurfum við að hugsa hvernig við getum tekið þátt í honum með uppbyggilegum hætti og nýtt hæfileika okkar sem best, fyrir okkur sjálf og umhverfi okkar. Nám hefur gjarnan mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, uppgötvun nýrra hæfileika sem maður hélt að væru ekki til staðar eða horfnir er afar jákvæð og hefur sterk áhrif á einstaklinga. Viðhorf gagnvart starfsumhvefi breytist, öryggi og viðsýni tekur völdin í huga einstaklinga. Ný tengsl myndast fólks á milli og sá þáttur að læra af öðrum skal ekki vanmeta í námi,“ sagði Valgeir. 3500 manns nýttu sér þjónustu SÍMEY 2016 Valgeir gat þess að SÍMEY væri á sínu átjánda starfsári og á þessum árum hafi orðið markverðar breytingar í starfseminni og hún vaxið. Á árinu 2016 sagði Valgeir að þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu SÍMEY hafi verið um 3500 manns. „Við höfum verið leiðandi í samstarfi við atvinnulíf varðandi ýmis þróunarverkefni, fjölmenningu, aðstoð við flóttafólk og við sinnum fullorðinsfræðslu fatlaðra. Verkefni okkar eru á víðum grunni, stór hluti starfseminnar er að bjóða fullorðnu fólki upp á vottaðar námsleiðir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, almennt námskeiðahald fyrir samfélagið og einnig klæðskersniðnar lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir í formi námskeiðahalds, fyrirtækjaskóla og mannauðsráðgjafar. Þá bjóðum við upp á íslensku fyrir útlendinga og sjáum um námskeiðahald fyrir Fjölmennt, sem er fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða.“ Breytingar á starfsmannahaldi Tólf starfsmenn eru hjá SÍMEY og auk þess um 100 verktakar – til skamms eða lengri tíma. Valgeir gat þess að þær breytingar hafi orðið á starfsmannahaldinu hjá SÍMEY að Anna Lóa náms- og starfsráðgjafi lét af störfum eftir um tveggja ára starf en tveir nýir starfsmenn hafi verið ráðnir til starfa, Kristján Sturluson og Aníta Jónsdóttir. Þakkaði Valgeir Önnu Lóu fyrir hennar störf undanfarin tvö ár og óskaði nýjum starfsmönnum velfarnaðar.

"Mannlegi millistjórnandinn" í boði í haust

Núna á vorönn bauð SÍMEY í fyrsta skipti upp á námskeiðið „Mannlegi millistjórnandinn“ í samvinnu við Hagvang. Ellefu þátttakendur voru á námskeiðinu og komu þeir frá Akureyri og úr nágrannabyggðum. Námskeiðið fékk almennt afar jákvæða umsögn þátttakenda. „Mannlegi millistjórnandinn“ verður aftur á dagskrá í haust. Helsta markmiðið með námskeiðinu er að styrkja nýja stjórnendur og millistjórnendur fyrirtækja og stofnana í daglegum störfum sínum. Námskeiðið er í fjórum lotum. Í fyrsta lagi er farið í svokallaða orkustjórnun þar sem áherslan er á hvernig stjórnandinn getur nýtt hana til að auka gæði vinnunnar, afköst og framlegð og um leið aukið starfsgleði og stuðlað að auknu heilbrigði sínu og sinna starfsmanna. Í annan stað er horft til mannauðsstjórnunar - hlutverks millistjórnandans og daglegra viðfangsefna hans í tengslum við stjórnun fólks. Í þriðja lagi er fjallað um samskipti - ábyrgð einstaklinga þegar kemur að samskiptum og mikilvægi þess að vera meðvitaður um eigin samskiptatækni. Í fjórða lagi er fjallað um um leiðtogann og þjónandi forystu, m.a. hvernig stjórnendur vinni starfsfólk á sitt band og laði fram það besta í hverjum starfsmanni. Erla Björnsdóttir verkefnastjóri í tölvu- og upplýsingadeild Sjúkrahússins á Akureyri var ein þeirra sem sótti fyrsta „Mannlegi millistjórnandinn“ námskeiðið núna á vorönn. Hún segir að námskeiðið hafi verið afskaplega lærdómsríkt og nýtist tvímælalaust vel bæði stjórnendum og millistjórnendum í fyrirtækjum og stofnunum. Erla, sem vinnur m.a. að gæðamálum er lýtur að rafrænni sjúkraskrá, er í miklum mannlegum samskiptum á sínum vinnustað, enda er hún verkefnastjóri þvert á allar deildir sjúkrahússins. Hún segir að námskeiðið nýtist sér mjög vel en telur að ekki hefði sakað þótt farið hefði verið dýpra í samskiptamál, þau hafi verið og séu æ stærri þáttur í starfi stjórnenda og millistjórnenda. Hér eru nánari upplýsingar um „Mannlega millistjórnandann og skráning á næsta námskeið sem hefst í september nk.

Fótbolti án fordóma á Akureyri

Síðastliðið sumar hafði SÍMEY frumkvæði að því að boðið var í fyrsta skipti upp á knattspyrnuæfingar fyrir fólk sem á eða hefur átt við geðræn vandamál að stríða. Björk Nóadóttir, þjálfari og knattspyrnukona, annaðist þjálfunina. Nú hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn og verður fyrsta æfingin í sumar að viku liðinni, miðvikudaginn 31. maí kl. 19:00 á grasvellinum á KA-svæðinu – sunnan KA-heimilisins.Þjálfarar verða Björk Nóadóttir og Haukur Snær Baldursson. Knattspyrnuæfingarnar eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Því er um að gera að nýta þetta frábæra tækifæri og æfa knattspyrnu í sumar undir stjórn afbragðs góðra þjálfara. Á fésbókarsíðu verkefnisins „Fótbolti án fordóma á Akureyri“ kemur fram að markmiðið með knattspyrnuæfingunum sé að hafa gaman, bæta heilsu, virkja fólk félagslega og draga úr fordómum. Tekið er fram að allir séu velkomnir á æfingarnar, engar kröfur séu um þátttöku, þeim sem ekki treysti sér inn á völlinn sé velkomið að mæta á staðinn, horfa á og hafa gaman.

Til hamingju Samherji!

Eins og komið hefur fram í fréttum hafa forráðamenn Samherja gengið frá lóðarleigusamningi við Dalvíkurbyggð um 23 þúsund fermetra lóð á hafnarsvæðinu á Dalvík fyrir nýtt og fullkomið fiskiðjuver. Áætluð fjárfesting í nýju húsnæði og tæknibúnaði er um 3,5 milljarðar króna. Auk þess er væntanlegur í næsta mánuði nýr Björgúlfur EA til Dalvíkur sem mun leysa af hólmi núverandi Björgúlf EA sem hefur aflað hráefnis fyrir landvinnsluna á Dalvík í um fjóra áratugi. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu á Dalvík mun því nema fast að 6 milljörðum króna. SÍMEY sendir Samherja af þessu tilefni einlægar heillaóskir. Samherji og SÍMEY hafa lengi átt afar farsælt samstarf um menntun starfsmanna fyrirtækisins. Má í því sambandi nefna að nú er að ljúka annarri önn í fjögurra anna fisktækninámi á Dalvík þar sem um 20 starfsmenn Samherja á Dalvík hafa setið á skólabekk og aflað sér aukinnar þekkingar og víkkað út sjóndeildarhringinn. Í þetta nám fóru starfsmenn Samherja að undangengnu raunfærnimati þar sem hæfni þeirra og reynsla var metin. Tuttugu og þrír starfsmenn Samherja í Útgerðarfélagi Akureyringa hafa að undanförnu farið í samskonar raunfærnimat, eins og greint var frá hér á heimasíðunni í liðinni viku. Fisktækninám á Dalvík, sem SÍMEY heldur utan um, er unnið í samvinnu við Fisktækniskóla Íslands. Námið – sem er meðfram vinnu þátttakenda - hefur gengið afskaplega vel og hafa nemendur verið afar áhugasamir og lagt mikið á sig. Sömuleiðis hefur Samherji stutt starfsmenn sína í náminu og ýtt undir að þeir sæktu sér aukna þekkingu. Þegar Samherji gekk frá lóðarleigusamningi sínum við Dalvíkurbyggð á dögunum kom fram í máli Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja að árangur fyrirtækisins í landvinnslunni á Dalvík væri fyrst og fremst starfsfólki fyrirtækisins að þakka, sem hefði staðið sig frábærlega. Hann sagði að með nýrri vinnslu myndu störfin breytast, þau yrðu fjölbreyttari og meira krefjandi en jafnframt auðveldari líkamlega. Fiskvinnslan hefur á undanförnum árum tekið miklum breytingum með aukinni tæknivæðingu. Þessi þróun mun halda áfram með tilheyrandi breytingu á störfum. Þess vegna er hér eftir sem hingað til mikilvægt að starfsmenn sæki sér aukna menntun og þekkingu þannig að þeir séu í stakk búnir að takast á við breytta tíma.