Skráning á vorönn í fullum gangi - er ekki upplagt að gefa námskeið í jólagjöf?

Ein af smiðjunum sem verður í boði á vorönn 2018 er í FAB Lab í VMA.
Ein af smiðjunum sem verður í boði á vorönn 2018 er í FAB Lab í VMA.

Skráning á námskeið á vorönn er í fullum gangi og er óhætt að segja að hún hafi almennt farið mjög vel af stað. Það er því full ástæða til þess að benda fólki á að geyma ekki að skrá sig til þess að tryggja að það fái pláss á námskeiðunum. Á sumum námskeiðum þarf að takmarka fjölda þátttakenda og því gildir hið forkveðna; fyrstir koma, fyrstir fá.

Að venju er framboð náms á vorönn fjölbreytt og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nú þegar hafa verið kynnt hér á heimasíðunni námskeið og heildstætt nám sem fer af stað eftir áramót. En fleira á eftir að bætast við og verður kynnt betur síðar.

Meðal þess sem verður boðið upp á á vorönninni er bókhaldsnám, mannlegi millistjórnandinn, vinsælt námskeið sem unnið er í samstarfi við Hagvang, og markþjálfunarnám

Ekki má gleyma hinum ýmsu verklegu smiðjum sem njóta alltaf jafn mikilla vinsælda. Lágmarksfjöldi þátttakenda í þessar smiðjur eru 10 og að hámarki 12 manns. Nefna má FAB Lab smiðjuna sem hefur sannarlega fengið fljúgandi start síðan henni var komið upp í VMA fyrir tæpu ári. FAB-Lab námskeið SÍMEY sl. vetur voru mjög vel bókuð og sömuleiðis sl. haust. Textílsmiðjan hefur líka verið afar vinsæl. Hér má sjá myndir sem voru teknar í textílsmiðjunni í SÍMEY. Þá hefur málmsuðusmiðjan jafnan verið vel sótt, að ekki sé minnst á listasmiðjurnar í málun og teikningu.

Allar þessar fimm smiðjur verða sem sagt í fullum gangi á vorönn, ef nægilega margir skrá sig í þær. Af þeim verður enginn svikinn, svo mikið er víst og er vert að kasta því fram hér sem hugmynd að gefa námskeið í SÍMEY í jólagjöf. Þátttökugjaldið í hverja þessara fimm smiðja er kr. 31.000.