SÍMEY hefur umsjón með hæfnigreiningum í fiskvinnslu

SÍMEY hefur að undanförnu unnið að svokallaðri hæfnigreiningu á tveimur störfum í fiskvinnslu – annars vegar starfi flokksstjóra og hins vegar starfi gæðaeftirlitsmanns. Hæfnigreiningar eru liður í því að skilgreina menntunarþarfir viðkomandi starfshóps og um leið að festa á blað greinargóða lýsingu á því sem viðkomandi starf felur í sér.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur yfirumsjón með hæfnigreiningu starfa og tók SÍMEY að sér sem fræðsluaðili að greina störf í mismunandi atvinnugreinum og hefur að undanförnu sjónum verið beint að fiskvinnslunni. Til þess að hæfnigreina annars vegar starf flokksstjóra í fiskvinnslu og hins vegar starf gæðaeftirlitsmanns var myndaður greiningarhópur fólks af Eyjafjarðarsvæðinu sem þekkir vel til þessara starfa. Hvor hópur hittist á þremur fundum og út úr þeirri vinnu komu svokallaðir „starfaprófílar“, sem fela m.a. í sér hæfnikröfur fyrir þessi störf og skilgreiningar á þeim.

Sólveig Sigurjónsdóttir, verkstjóri í landvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa, var ein þeirra sem sat í báðum greiningarhópunum. Hún segir að þessi vinna hafi verið í senn ánægjuleg og lærdómsrík. „Ég segi fyrir mig að það var fjölmargt sem ég lærði af þessu. Það sem ég þekki til hjá ÚA hafa verið til starfslýsingar fyrir þessi störf en þessar hæfnigreiningar eru mun ítarlegri. Að mínu mati er þetta bráðnauðsynlegt og á eftir að nýtast vel,“ segir Sólveig sem á að baki áratugi í fiskvinnslu, sem almennur fiskvinnslumaður, flokksstjóri, skrifstofumaður og verkstjóri.

SÍMEY mun halda áfram hæfnigreiningum í fiskvinnslu – ásamt greiningum á öðrum sviðum atvinnulífsins sem síðar verður sagt frá - og verður næst beint sjónum að starfi verkstjóra.

Gert er ráð fyrir að sá gagnabanki sem kemur út úr hæfnigreiningunum – í sjávarútvegi og öðrum greinum atvinnulífsins – verði öllum aðgengilegur á vefnum eftir að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur staðfest greiningarnar.