Samið um þarfagreiningu vegna nýrrar fræðsluáætlunar fyrir búsetusvið Akureyrarbæjar

Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY og Jón Hrói Finnsson sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæ…
Valgeir B. Magnússon framkvæmdastjóri SÍMEY og Jón Hrói Finnsson sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæjar handsala samninginn í dag.

Í dag var undirritaður samningur milli búsetusviðs Akureyrarbæjar og SÍMEY sem kveður á um að SÍMEY mun greina þörf á fræðslu starfsmanna búsetusviðs með það að markmiði að vinna nýja fræðsluáætlun fyrir þá. Að samningnum kemur einnig Sveitamennt - starfsmenntunarsjóður starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Af hálfu SÍMEY skrifaði Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SíMEY, undir samninginn en af hálfu búsetusviðs Akureyrarbæjar Jón Hrói Finnsson, sviðsstjóri.

Samningurinn er liður í framhaldi á nokkurra ára samstarfi SÍMEY og búsetusviðs Akureyrarbæjar um fræðslumál starfsmanna þess. Fyrri fræðsluáætlun verður tekin upp og endurgerð í takt við breyttar áherslur og starfssvið starfsmanna. Þarfagreiningin verður unnin í nánu samstarfi ráðgjafa SÍMEY – Ingunnar Helgu Bjarnadóttur og Kristjáns Sturlusonar – og stýrihóps stjórnenda og starfsmanna búsetusviðs.

Í það heila eru þeir starfsmenn búsetusviðs Akureyrarbæjar sem um ræðir á 14 vinnustöðum og heildarfjöldi þeirra er 290. Þar af eru um 80% þeirra félagsmenn Einingar-Iðju en aðrir eru félagsmenn Bandalags háskólamanna og njóta stuðnings Starfsþróunarseturs háskólamanna.

Þarfagreiningin verður unnin á tímabilinu frá október 2017 til janúar 2018 og sem fyrr segir hefur hún það að markmiði að undirbúa gerð nýrrar fræðsluáætlunar sem verður unnin í framhaldinu.