Nemendur sýna myndverk sín í "Gallerí SÍMEY"

Eitt af verkunum á sýningunni í Gallerí SÍMEY við Þórsstíg. Sýningin verður opin til 18. desember.
Eitt af verkunum á sýningunni í Gallerí SÍMEY við Þórsstíg. Sýningin verður opin til 18. desember.

Um liðna helgi var formlega opnuð myndlistarsýning nemenda í náminu „Fræðsla í formi og lit“, 200 klukkustunda nám sem þátttakendur hófu í janúar sl. og ljúka formlega með útskrift 18. desember nk. Námið byggir á vottaðri námsskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem annar tveggja kennara í náminu, Bryndís Arnardóttir – Billa, skrifaði fyrir nokkrum árum. Í námsskránni segir að námið sé ætlað „fólki á vinnumarkaði, 20 ára og eldra, með stutta formlega skólagöngu að baki og sem hefur áhuga á skapandi starfi, hugmyndavinnu, myndgerð, framsetningu og myndlistarsögu.“ Hinn kennarinn í „Fræðsla í formi og lit“ er Guðmundur Ármann myndlistarmaður og hafa þau bæði áralanga reynslu í myndlistarkennslu.

Það fer ekki á milli mála þegar augum er rennt yfir verkin á sýningunni í „Gallerí SÍMEY“ við Þórsstíg – þ.e. húsnæði Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar – að nemendur hafa lagt mikla vinnu í verkin. Sýningin er afar fjölbreytt og áhugaverð og er full ástæða til að hvetja fólk til þess að líta við í SÍMEY og skoða sýninguna, hún er opin á opnunartíma SÍMEY til 18. desember nk.

Billa segir að sem fyrr hafi hún haft ómælda ánægju að kenna fullorðnu fólki myndlist.  Áhersla sé lögð á grunnþætti og það ferli sem eigi sér stað í listsköpun. Nemendur séu upp til hópa að láta gamla drauma sína rætast og því séu þeir afar fróðleiksfúsir og vilji læra meira og meira. Þegar svo sé verði árangurinn alltaf góður. Nemendur næri sína sál í myndlistinni og það skili sér vel í verkum á sýningunni í SÍMEY.

Núna á haustönn voru sextán nemendur í „Fræðslu í formi og lit“. Fyrirkomulag námsins var á þann veg að á vorönn 2017 kenndi Guðmundur Ármann fyrri hluta námsins en síðan tók Billa við og var með síðari hluta námsins núna á haustönn. Sem fyrr segir er námið í heild sinni 200 klukkustundir og er heimilt að meta það til 20 framhaldsskólaeininga.

Undanfarin ár hefur Billa verið á vorönn við myndlistarskennslu í háskóla á Flórída í Bandaríkjunum en svo verður ekki á vorönn 2018 og því mun hún kenna á tveimur myndlistarnámskeiðum í SÍMEY sem hefjast í febrúar nk., annars vegar Listasmiðja – málun og hins vegar Listasmiðja – teikning. Skráning er í fullum gangi og um að gera fyrir áhugasama að draga ekki að skrá sig.

Þorbjörg Jónasdóttir er í hópi nemendanna sextán sem hafa verið í „Fræðslu í formi og lit“. Hún hefur verið í þrjár annir í SÍMEY – tók fyrst listasmiðjurnar í málun og teikningu og fór í framhaldinu í „Fræðslu í formi og lit“. Þorbjörg segir að námið hafi komið sér virkilega á óvart, það væri víðtækt, metnaðarfullt og kröfur gerðar til nemenda sem hún telur afar jákvætt. Hún segir að tilfinningin eftir að hafa farið í gegnum þetta nám sé að hún hafi nú fengið nauðsynlegan grunn í myndlistinni til þess að byggja frekar ofan á.

Þegar Þorbjörg hætti að vinna í VMA um áramótin 2015-2016 var hún ákveðin að leita sér frekari þekkingar á myndlistarsviðinu og stunda myndlist sér til skemmtunar. Síðastliðið sumar málaði hún vínylplötur með blandaðri tækni og afrakstur þeirrar vinnu má sjá á sýningu á kennarastofu VMA. Hér má sjá umfjöllun um sýninguna á vef VMA.

Þorbjörg segist hafa útbúið sér afdrep í bílskúrnum til þess að stunda málaralistina og þar grípi hún í penslana þegar andinn komi yfir hana. Hún segist horfa til þess að mála í auknum mæli akríl- og olíumálverk.

En Þorbjörg lætur penslana ekki duga, hún skrifar sögur og yrkir ljóð. Hún neitar því ekki að til greina komi að koma einhverju af því efni sem hún hefur skapað í gegnum tíðina fyrir almenningssjónir áður en langt um líður.