Samningur SÍMEY og Akureyrarbæjar um Sterkari starfsmann

Við samningsborðið í húsakynnum fræðslusviðs Akureyrarbæjar í dag. Að baki Soffíu Vagnsdóttur, sviðs…
Við samningsborðið í húsakynnum fræðslusviðs Akureyrarbæjar í dag. Að baki Soffíu Vagnsdóttur, sviðsstjóra fræðslusviðs Akureyrarbæjar og Valgeiri B. Magnússyni, framkvæmdastjóra SÍMEY eru talið frá vinstri: Kristján Sturluson, Helgi Þ. Svavarsson og Aníta Jónsdóttir, öll verkefnastjórar hjá SÍMEY og Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, forstöðumaður þjónustu á fræðslusviði Akureyrarbæjar.

Sterkari starfsmaður er yfirskrift þriggja anna námsleiðar sem hefst í janúar 2018 fyrir starfsmenn grunnskóla Akureyrarbæjar, aðra en kennara. Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar annast skipulagningu námsins í samstarfi við fræðslusvið Akureyrarbæjar og grunnskóla sveitarfélagsins og ber ábyrgð á því í samræmi við hlutverk og verkefni fræðslu- og símenntunarstöðva. Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, og Soffía Vagnsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, undirrituðu í dag samning um námið.

SÍMEY og Akureyrarbær hafa lengi átt í samstarfi um menntun starfsmanna bæjarins, þar á meðal starfsmanna fræðslusviðs. Á fyrstu mánuðum þessa árs voru greindar þarfir fyrir fræðslu starfsmanna grunnskóla bæjarins annarra en kennara og niðurstöður þeirrar vinnu hafðar að leiðarljósi við skipulag námsins Sterkari starfsmaður, sem er ein af námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.  Í náminu verður annars vegar lögð áhersla á upplýsingatækni og hins vegar samskipti og sjálfstyrkingu. Hluti af verkefninu felst í að náms- og starfsráðgjafi frá SÍMEY býður starfsfólki grunnskólanna upp á ráðgjöf um Sterkari starfsmann og mögulegt viðbótarnám.

Sem fyrr segir hefst námið í janúar 2018. Því verður fram haldið haustið 2018 og lýkur að vori 2019. Námið er alls 100 klukkustundir, fer fram í grunnskólunum á skólatíma og mun skipulag skólastarfsins skapa þessum starfsmönnum skólanna svigrúm til þess að sækja námið.

Námið tekur til vel á annað hundrað starfsmanna grunnskóla Akureyrarbæjar og er þeim að kostnaðarlausu. Akureyrarbær greiðir námskeiðsgjöld og sækir um endurgreiðslu til fræðslusjóða stéttarfélaga starfsfólksins – annars vegar Sveitamenntar – starfsmenntunarsjóðs starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og hins vegar Mannauðssjóðs Kjalar.

Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir að Sterkari starfsmaður sé ánægjulegt framhald á farsælu samstarfi við Akureyrarbæ um fræðslu starfsfólks bæjarfélagsins. Þetta nýja verkefni sé viðamikið og skemmtileg áskorun fyrir SÍMEY og alla sem að því komi.

Soffía Vagnsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrarbæjar, segist hafa miklar væntingar til námsins og samstarfsins við SÍMEY. „Ég hef væntingar til þess að námið skili okkur sterkari starfsmönnum og efli þá í starfi. Námið eins og það er sett upp er áhugavert og fjölbreytt og tekur mið af óskum starfsmannanna sjálfra, sem ég tel miklu máli skipta.“