Fyrstu skrefin í nýrri fræðsluáætlun fyrir starfsmenn búsetusviðs Akureyrarbæjar

Þessi mynd var tekin á námskeiði Ragnheiðar Daggar Agnarsdóttur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í …
Þessi mynd var tekin á námskeiði Ragnheiðar Daggar Agnarsdóttur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag, 16. október.

Í þessari viku hófst fræðsla samkvæmt nýrri fræðsluáætlun fyrir starfsfólk búsetusviðs Akureyrarbæjar og reið Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir frá Heilsufélaginu ehf. á vaðið með námskeiðum sem voru haldin í Hamraborg í Hofi.

Fyrir réttu ári var undirritaður samningur SÍMEY og búsetusviðs Akureyrarbæjar sem kvað á um að greina þörf á fræðslu fyrir starfsmenn búsetusviðs með það að markmiði að vinna nýja fræðsluáætlun fyrir þá. Í framhaldinu vann SÍMEY þarfagreininguna og ný fræðsluáætlun til þriggja ára tók síðan mið af niðurstöðum hennar. Fyrsti hluti fræðsluáætlunarinnar verður „keyrður“ á þessari önn og síðan áfram unnið samkvæmt henni næstu fimm annir. Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, segir að framundan séu fjölbreytt námskeið fyrir starfsfólk búsetusviðs og einnig taki fræðsluáætlunin til tveggja stofnana, Plastiðjunnar Bjargs-Iðjulundar og Skógarlundar - miðstöðvar virkni og hæfingar - sem heyri undir fjölskyldusvið Akureyrarbæjar.

Í þessari viku hefur starfsfólk búsetusviðs Akureyrarbæjar, Plastiðjunnar Bjargs-Iðjulundar og Skógarlundar setið námskeið Ragnheiðar Daggar Agnarsdóttur, stofnanda Heilsufélagsins ehf.

Í það heila tekur fræðsluáætlunin til um 300 starfsmanna og er þeim skipt í þrjá hópa. Hver hópur situr fjögurra tíma námskeið hjá Ragnheiði Dögg þar sem m.a. er fjallað um að virkja orku starfsmanna til árangurs og lífsgæða.

Ragnheiður Dögg er með BA-próf í sálfræði og meistarapróf í mannauðsstjórnun. Áður en hún stofnaði eigin fyrirtæki var hún m.a. framkvæmdastjóri hjá Tryggingamiðstöðinni. Hluti hennar starfs hefur verið námskeiðahald, t.d. námskeið eins og í Hofi í þessari viku, og einnig hefur hún m.a. beint sjónum að styttingu vinnuvikunnar og að auka framleiðni í atvinnulífinu.

Á námskeiðunum í Hofi  hefur Ragnheiður undirstrikað mikilvægi þess að fólk gleymi ekki að rækta sig sjálft til þess að takast á við krefjandi störf, m.a. með reglulegri hreyfingu. Þátttakendur fengu í hendur svokallaða Lífsgæðadagbók sem Heilsufélagið hefur gefur út og er ætlað að hjálpa fólki að hámarka árangur og lífsgæði á degi hverjum.