Unnið að hæfnigreiningu starfa aðstoðarmanna í málmiðnaði

Aðstoðarmenn hafa lengi verið að störfum í málmiðnaði en með þessari hæfnigreiningarvinnu eru störf …
Aðstoðarmenn hafa lengi verið að störfum í málmiðnaði en með þessari hæfnigreiningarvinnu eru störf þeirra skilgreind og fest á blað.

Núna á haustdögum hefur SÍMEY unnið að hæfnigreiningu starfa aðstoðarmanna í málmiðnaði. Hæfnigreiningar eru liður í því að festa á blað greinargóða lýsingu á því sem viðkomandi starf felur í sér og um leið að skilgreina menntunarþarfir viðkomandi starfshóps.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur yfirumsjón með hæfnigreiningu starfa og hefur SÍMEY tekið að sér sem fræðsluaðili að greina störf í mismunandi atvinnugreinum. Fyrir réttu ári síðanstýrði SÍMEY hæfnigreiningum fyrir störf flokksstjóra og gæðaeftirlitsmanns í fiskvinnslu en að þessu sinni var sjónum beint að störfum aðstoðarmanna í málmiðnaði. Að hálfu SÍMEY unnu að hæfnigreiningunni verkefnastjórarnir Emil Bjarkar Björnsson og Kristín Björk Gunnarsdóttir og störfuðu þau með annars vegar stýrihópi um verkefnið og hins vegar var myndaður stærri greiningarhópur sem greindi störf aðstoðarmanna. Hvor hópur hittist á þremur fundum og út úr þeirri vinnu komu „starfaprófílar“, sem fela m.a. í sér hæfnikröfur fyrir þessi störf og skilgreiningar á þeim.

Fræðsluaðilar um allt land eru að vinna að hæfnigreiningum og því er smám saman að verða til upplýsingabanki hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem öllum er aðgengilegur. Áður en hæfnigreining fyrir aðstoðarmenn í málmiðnaði verður öllum aðgengileg á vef Fræðslumiðstöðvarinnar þarf greiningin að fá endanlegt samþykki og staðfestingu hennar.

Leó Jóhannesson, starfsmaður Blikkrásar, er einn þeirra aðstoðarmanna í málmiðnaði sem vann að gerð hæfnigreiningarinnar, hann var bæði í stýrihópnum og greiningarhópnum. Leó segir að fyrir sig hafi þessi vinna í senn verið gagnleg og ánægjuleg. „Ég tel mjög af hinu góða að það sem við aðstoðarmenn í málmiðnaði gerum sé skilgreint og sett niður á blað. Í mínum huga hefur þessi vinna verið mér hvatning til þess að fara lengra. Það er ekkert launungarmál að ég hef lengi horft til þess að fara í raunfærnimat og fá mína færni metna, það er aldrei að vita hvað ég geri í framhaldinu,“ segir Leó. Hann segir að í greiningarhópnum hafi menn almennt verið nokkuð sammála um skilgreiningar á verkum aðstoðarmanna í málmiðnaði, „en í nokkrum tilfellum komumst við að niðurstöðu eftir ítarlegt og gott samtal. Það sem ég persónulega tek út úr þessari vinnu er að á undanförnum árum hef ég safnað í sarpinn meiri reynslu en ég gerði mér kannski sjálfur gerði sér grein fyrir. Það var bara gaman að sjá hvar maður stendur í þessu,“ segir Leó en hann hefur undanfarið hálft annað ár starfað hjá Blikkrás á Akureyri en vann áður til fjölda ára í bílaviðgerðum og bílamálun.

Jóhann R. Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, segir að þessi hæfnigreining hafi verið löngu tímabær, nauðsynlegt sé að greina öll störf í málmiðnaði, enda séu störfin mörg og ólík í þessari starfsgrein. Stjórn FMA fjallar í vikunni um þá vinnu sem SÍMEY hefur leitt á undanförnum vikum og kemur síðan sínum sjónarmiðum á framfæri. „Almennt snýst þetta um bæði réttinda- og kjarasamningsmál,“ segir Jóhann og bætir við að hann líti svo á að þessi vinna sé aðeins byrjunin, til að byrja með sé gott að hæfnigreina aðstoðarmenn í málmiðnaði en í framhaldinu sé æskilegt og í raun nauðsynlegt að skilgreina störf innan hverrar greinar í málmiðnaðinum, enda séu greinarnar afar ólíkar og störfin því mismunandi.