Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar í "Fræðslu í ferðaþjónustu"

Undirritun samstarfssamnings um
Undirritun samstarfssamnings um "Fræðslu í ferðaþjónustu". Frá vinstri: Valgeir Magnússon framkvæmdastjór SÍMEY, Hrefna Laufey Ingólfsdóttir, Hildur Betty Kristjánsdóttir, serfræðingur Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Sesselja I Barðdal Reynisdóttir, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, Sigríðar Ásnýjar Sólarljóss Ketilsdóttur og Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri SÍMEY

Þann 15. maí 2018 var undirritaður þríhliða samningur milli SÍMEY, Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um að Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar  taki þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu”.  SÍMEY sér um framkvæmd greininga og fræðslu í samstarfi við Hæfnisetrið.  Í Ferðamálafélagi Eyjafjarðarsveitar eru 26 fyrirtæki, veitinga- og gististaðir, afþreyingarfyrirtæki o.fl.  Í stjórn félagsins eru Sesselja I Barðdal Reynisdóttir, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, Hrefna Laufey Ingólfsdóttir, Sigríður Ásný Ketilsdóttir. 

Samningurinn tekur strax gildi og er hann til sextán mánuða, til september 2019. Samningurinn er víðtækur en rauði þráðurinn í honum er fræðsla fyrir starfsfólk innan fyrirtækjanna sem eru í Ferðamálafélagi Eyjafjarðarsveitar. Í stýrihópnum eru stjórnarmeðliðimir sem munu vinna að verkefninu með Helga Þorbirni Svavarssyni og Emili Björnssyni verkefnastjórum SÍMEY og Hildi Betty Kristjánsdóttur, starfsmanni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Meðal þess sem verður unnið í þessu tilraunaverkefni er að setja upp fræðsluáætlun fyrir Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar. Það verður gert í kjölfar vinnu stýrihópsins innan fyrirtækisins og áðurgreindra sem stýra verkefninu fyrir hönd SÍMEY og Hæfnisetursins.

Rétt er að rifja upp í þessu sambandi að í byrjun árs 2017 var sett á stofn Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, sem hefur það að markmiði að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu. Það hefur með höndum að greina þörfina fyrir fræðslu starfsfólks í ferðaþjónustu, sem eins og kunnugt er hefur vaxið mjög að umfangi á síðustu  árum.