Þátttakendur ánægðir með FabLab námskeiðin

Fólk önnum kafið á námskeiði í FabLab Akureyri, sem er til húsa í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Fólk önnum kafið á námskeiði í FabLab Akureyri, sem er til húsa í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Frá opnun FabLab Akureyri í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri á síðasta ári hefur SÍMEY staðið fyrir fjölmörgum FabLab námskeiðum þar sem farið er í ýmis grunnatriði sem opna nemendum oft og tíðum sýn inn í nýjan og óþekktan tækniheim og varpa ljósi á hvernig hlutirnir verða til frá hönnun á tölvuskjá til þrívíddarprentunar eða skurðar í laser- eða vínilskurðvélum.

Núna stendur yfir námskeið á vegum SÍMEY sem kallast „Hönnunar- og tilraunasmiðja í FabLab“ og koma þátttakendur úr ýmsum áttum. Þetta er heilmikið nám, samtals í 80 klukkustundir eða sem svarar til tveggja vinnuvikna. Námið hófst seinnipartinn í september og lýkur í lok nóvember. Kennararnir eru Jón Þór Sigurðsson, Helga Björg Jónasardóttir og Ólafur Pálmi Guðnason. Einnig býður SÍMEY upp á styttri FabLab námskeið núna á haustönn og eftir áramót er gert ráð fyrir sambærilegri hönnunar- og tilraunasmiðju í FabLab og nú er í fullum gangi.

Glíman við forritunina
Þegar kíkt var í heimsókn í kennslustund í FabLab Akureyri var Ólafur Pálmi að kenna nemendum nokkur grunnatriði í forritun og tengdi hana við rafmagnsfræði. Hann segir að fyrir marga nemendur sé þetta óþekktur heimur en almennt gangi nemendum vel að tileinka sér þessa hluti, þótt þeir geti verið algjörlega nýir og framandi. „Þess eru auðvitað dæmi að fólk er svolítið hrætt við forritunina en þegar það kemst yfir hræðsluna er þetta ekkert mál. Þetta eru svo sem engin geimvísindi,“ segir Ólafur Pálmi, en hann er menntaður forritari og starfar í gagnagrunnsmálum hjá fyrirtækinu Wise lausnum á Akureyri. Einnig er hann stundakennari í tölvuáföngum í Háskólanum á Akureyri. „Ég hef kennt á nokkrum námskeiðum á vegum SÍMEY í FabLab og flestir eru að glíma við forritun í fyrsta skipti, fólk kemur hingað af eldmóð og áhuga og langar til að skapa eitthvað sjálft,“ segir Ólafur Pálmi.

Forritunin er einn af mörgum þáttum í náminu. Meðal annars er farið í þrívíddarhönnun og kennd notkun ýmissa forrita. Síðan er að sjálfsögðu unnið með þann vélbúnað sem er til staðar í smiðjunni – t.d. laser- og vínilskurðarvélarnar, þrívíddarprentarana og CNC fræsara.

Af áttatíu klukkustunum í náminu eru 60 klukkustundir í fyrirlestrum og verklegu námi í kennslustundum en í 20 klukkustundir eru nemendur að vinna í opnum tímum í FabLab Akureyri.

Fyrsta skrefið var erfiðast
Einn af nemendunum að þessu sinni er Sigrún Stella Ólafsdóttir. Hún býr á Dalvík og leggur því mikið á sig til að sækja námið. „Þetta er öðruvísi en allt annað sem ég hef prófað. Mig langaði til þess að læra eitthvað algjörlega nýtt og reynsla mín er sú það sem af er að þetta er mjög áhugavert og skemmtilegt,“ segir Sigrún Stella. Hún er heimavinnandi húsmóðir og hefur tekið nokkur styttri námskeið á undanförnum árum en rifjar upp að hún hafi ekki setið á skólabekk að ráði síðan hún lauk 10. bekk grunnskóla árið 1992. „Ég viðurkenni það fúslega að mér fannst fyrsti dagurinn lang erfiðastur, að taka skrefið innfyrir þröskuldinn. En síðan var okkur öllum tekið svo vel og þetta hefur bara verið frábærlega skemmtilegt. Margt er framandi fyrir mér í þessu en þá er bara að spyrja kennarana sem eru fúsir að leiðbeina okkur. Í þessu námi fáum við ákveðinn grunn og ég get alveg séð fyrir mér að ég byggi ofan á hann síðar. Við sjáum bara til hvert þetta leiðir mig, ég er alltaf til í ný ævintýri,“ segir Sigrún Stella Ólafsdóttir.

Forvitnilegur heimur
Signý Arnardóttir hefur starfað við að hanna og teikna innréttingar til fjölda ára hjá SS Byggi/Tak innréttingum. Hún segist hafa farið með starfsfólki SS Byggis á kynningu á FabLab Akureyri í VMA og þá hafi ekki verið aftur snúið, henni fannst þessi heimur FabLab vera forvitnilegur og vildi kynnast honum nánar. Því hafi hún ákveðið að slá til og fara í þetta nám hjá SÍMEY núna á haustönn. „Ég viðurkenni alveg að fyrst vissi ég ekkert hvað ég var að gera en síðan hefur þetta komið smám saman. Í stuttu máli sagt finnst mér FabLab opna ákveðnar leiðir til þess að gera svo ótal margt í hönnun,“ segir Signý.