Gaman að glíma við TIG-suðu

Vandað til verka á TIG-suðunámskeiðinu sem er núna í fullum gangi.
Vandað til verka á TIG-suðunámskeiðinu sem er núna í fullum gangi.

Áhugavert og skemmtilegt. Það er meginstefið í því sem þátttakendur í TIG-suðu námskeiði sem SÍMEY stendur fyrir hafa að segja um námskeiðið. SÍMEY fær afnot af frábærri aðstöðu málmiðnaðarbrautar í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir námskeiðið og kennarar eru Kristján Kristinsson og Stefán Finnbogason sem dags daglega kenna nemendum á málmiðnaðarbraut VMA.

Námskeiðið er yfirgripsmikið. Það hófst í september og er að jafnaði kennt fjórum sinnum í viku; á mánudögum, miðvikudögum, föstudögum og laugardögum. Samtals 80 klukkustundir.

Kristján kennari segir að almennt sé talað um þrennskonar málmsuðu; TIG-suðu, MIG-MAG suðu og Pin-suðu. Á þessu námskeiði sé eingöngu kennd TIG-suða sem með öðrum orðum er hlífðargassuða og einkum ætluð fyrir fínni málmsmíði í svart stál, ryðfrítt og ál. TIG stendur fyrir Tungsten Inert Gas og var þessi aðferð þróuð á fimmta áratug síðustu aldar til suðu á ál- og magnesíublöndum. Þessa suðuaðferð má nota á alla suðuhæfa málma en þó er hún oftast notuð til suðu á þunnu efni – yfirleitt milli 0,3 og 3 mm.

Slík suðunámskeið hafa verið fastur liður í námskeiðahaldi SÍMEY á undanförnum árum og er alltaf vel bókað á þau. Fólk kemur úr ýmsum áttum og ástæðurnar fyrir því að fólk lærir suðu eru eins margar og þátttakendur eru margir. En allir eiga þátttakendur á námskeiðunum það sameiginlegt, að sögn Kristjáns, að þeir koma fullir áhuga og eldmóðs og gefa sér vart tíma til þess að taka sér kaffipásur. Kristján segir að þessi námskeið veiti þátttakendum 10 einingar í framhaldsskóla, ætli þeir sér að halda áfram í námi í málmiðngreinum og ná sér í réttindi á þessu sviði, t.d. að læra til starfs málmsuðumanns. „Þátttakendur á þessum námskeiðum læra heilmikið og þess eru dæmi að þau hafa auðveldað mönnum að fá vinnu á þessu sviði,“ segir Kristján. Hér er hann að fara yfir málin með nemendum á námskeiðinu og hér eru Ólafur Aðalgeirsson og Adolf Örn Adolfsson á fullu í verkefnum dagsins.

Á þessu TIG-suðunámskeiði er aðal verkefnið að smíða lítið kolagrill. Nákvæmlega er fylgt teikningu þar að lútandi og árangurinn kemur í ljós þegar líða tekur á október.

Ekki hefur verið ákveðið með næsta suðunámskeið en Kristján telur ekki ólíklegt að eftir áramót verði haldið MIG-MAG suðunámskeið. Reynt sé að halda þessi námskeið til skiptis og aðsóknin að þeim sé jafnan góð. Nokkrir af þeim sem nú eru á TIG-námskeiðinu hafa áður setið annað suðunámskeið. Þátttakendur eru því augljóslega að safna þekkingu í sarpinn.