SÍMEY býður upp á raunfærnimat í ýmsum starfsgreinum

Raunfærnimat er fastur liður í starfsemi SÍMEY.
Raunfærnimat er fastur liður í starfsemi SÍMEY.

Einn af föstum liðum í starfi SÍMEY er að meta raunfærni fólks á vinnumarkaði og svo er einnig núna á haustönn. Þessa dagana er unnið að mati á raunfærni fjölmargra einstaklinga í mismunandi iðngreinum. Liður í því eru viðtöl við náms- og starfsráðgjafa, gerð færnimöppu og viðtöl við viðkomandi.

Raunfærnimat er mikilvægt tæki til þess að leggja mat á færni fólks á vinnumarkaði og eykur möguleika þess til þess að bæta við sig námi eða öðrum hlutum til eflingar í starfi. Margir hafa unnið árum saman í ákveðnum störfum og byggt upp mikla færni en ekki lokið formlegu námi í viðkomandi starfsgrein. Raunfærni er samanlögð færni sem fólk hefur náð með starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.

Raunfærnimat hefur verið þróað víða um heim á síðustu áratugum. Fyrst var það tekið upp í Bandaríkjunum en síðan í Evrópulöndum og víðar. Hér á landi hafa fjölmargir farið í gegnum raunfærnimat á síðustu árum og almennt hefur reynslan verið afburða góð. Þetta er því sannarlega leið sem fólk ætti að gefa gaum því raunfærnimat styttir ekki aðeins leið fólks að settu marki heldur veitir því einnig sjálfstraust til að takast á við nýjar áskoranir þegar kemur að frekara námi eða framgangi í starfi. Aukið sjálfstraust fólks er mikilvægt fyrir samfélagið allt og fleiri ná sér í formlega fagmenntun. 

Fræðslusjóður leggur fram fé til raunfærnimats og það er því þátttakendum að kostnaðarlausu. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati er að viðkomandi sé að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafi að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.

Rétt er að undirstrika að allir þeir sem hafa hug á því að fara í raunfærnimat geta fengið allar frekari upplýsingar með því að hafa samband við SÍMEY. Einnig er hægt að fá frekari upplýsingar hér.

Þá er vert að ítreka að fólk getur alltaf sótt um að fara í raunfærnimat. Hér er umsóknarformið í gegnum heimasíðu SÍMEY.