Mikill áhugi á námskeiðum í íslensku sem annað tungumál

Óvenju mikill áhugi er í haust á námskeiðum í íslensku sem annað mál – námskeið sem hugsuð eru fyrir útlendinga sem hafa verið hér á landi til skamms eða lengri tíma. Um tugur námskeiða hefur verið settur upp – sum þeirra eru þegar hafin en önnur hefjast fyrstu dagana í október. Bæta þurfti við námskeiðum frá upphaflegum áætlunum vegna mikillar eftirspurnar. Flest eru þessi námskeið í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri en einnig verða námskeið á Dalvík og í Ólafsfrði.

SÍMEY hefur tekið að sér að skipuleggja og halda utan um tungumálanámskeið fyrir starfsmenn ákveðinna fyrirtækja. Þá er tungumálanámið að hluta lagað að því starfsumhverfi sem starfsmennirnir vinna, farið í ýmis fagorð o.fl. Slík námskeið er SÍMEY fús að setja upp í auknum mæli ef áhugi er fyrir hendi.

Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá SÍMEY segir að íslenskunámskeiðin taki mið af kunnáttu þeirra sem þau sitja. Þannig sé boðið upp á grunnnámskeið fyrir þá sem hafa litla sem enga kunnáttu í íslensku og síðan sé byggt ofan á kunnáttuna á framhaldsnámskeiðum. Í fyrsta skipti í langan tíma er núna boðið upp á svokallað fjórða stigs námskeið í íslensku sem annað mál, fyrir þá sem þegar hafa góðan grunn í íslensku en vilja bæta orðaforðann, efla lesskilning og málfræðikunnáttu sína.

Þess má í þessu sambandi geta að SÍMEY býður upp á íslenskukennslu ætlaða Pólverjum eingöngu þar sem kennarinn er pólskur og því unnt að útskýra betur fyrir þátttakendum íslenska málfræði og annað í kennslunni sem auðveldara er fyrir þá að meðtaka á móðurmálinu.

Þessi aukna spurn eftir námskeiðum í íslensku sem annað tungumál helst væntanlega í hendur að nokkru leyti við góða stöðu á vinnumarkaði. Mikill fjöldi útlendinga er nú að störfum hér á landi, ekki síst í ferðaþjónustunni og hlutfallslega eru þeir fleiri að störfum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á haustin og fram á vetur, þegar skólarnir starfa.

Kristín Björk segir að auk þess að bjóða útlendingum upp á íslenskunám bjóði SÍMEY þeim upp á ýmiskonar ráðgjöf, t.d. varðandi uppfærslu ferilskráa fyrir íslenskan vinnumarkað og aðstoði þá við við mat á námi erlendis frá.