Sigló hótel þátttakandi í "Fræðslu í ferðaþjónustu"

Undirritun samstarfssamnings um
Undirritun samstarfssamnings um "Fræðslu í ferðaþjónustu". Frá vinstri: Hildur Betty Kristjánsdóttir, starfsmaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Sigríður María Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Sigló hótels, og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.

Undirritaður hefur verið þríhliða samningur milli SÍMEY, Sigló hótels á Siglufirði og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um að Sigló hótel taki þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu”.  SÍMEY sér um framkvæmd greininga og fræðslu í samstarfi við Hæfnisetrið.  Starfsmenntastjóðurinn Landsmennt sem kostar verkefnið undir merkjum Fræðslustjóri að láni og liggur þar fyrir þríhliðasamningur milli SÍMEY, Sigló hótel og Landsmenntar.

Rétt er að rifja upp í þessu sambandi að í byrjun síðasta árs var sett á stofn Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, sem hefur það að markmiði að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu. Það hefur með höndum að greina þörfina fyrir fræðslu starfsfólks í ferðaþjónustu, sem eins og kunnugt er hefur vaxið mjög að umfangi á síðustu árum. Hæfnisetrið hefur gert samning við fjórar símenntunarmiðstöðvar, þar á meðal SÍMEY, um að vinna að tilraunaverkefni sem felst í því að fræða starfsfólk í ferðaþjónustu og auka hæfni þess. SÍMEY efndi til fundar 14. nóvember sl. fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var kynnt. Í framhaldi af þessum kynningarfundi var málið kynnt frekar fyrir ferðaþjónustufyrirtækjum og er Sigló hótel fyrsta fyrirtækið á Norðurlandi sem hefur gert samning um að taka þátt í þessu verkefni.

Samningurinn, sem var undirritaður af Sigríði Maríu Róbertsdóttur f.h. Sigló hótels, Valgeiri B. Magnússyni f.h. SÍMEY og Hildi Betty Kristjánsdóttur f.h. Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, er til sextán mánaða eða til júní 2019 og tekur til viðamikillar vinnu sem verkefnastjórar af hálfu SÍMEY – Helgi Þorbjörn Svavarsson og Ingunn Helga Bjarnadóttir - og Hildur Betty Kristjánsdóttir, starfsmaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, stýra í samstarfi við Sigló hótel. Til að byrja með verður sett upp verkefnið „Fræðslustjóri að láni“, sem gengur út á að ráðgjafi greini fræðsluþörf starfsmanna Sigló hótels og í framhaldinu verður unnin markviss símenntunar- og fræðsluáætlun fyrir fyrirtækið. Í lok verkefnisins, að tæpu hálfu öðru ári liðnu, verður unnin lokaskýrsla og metinn árangur af verkefninu.

Sigló hótel er öflugt og vaxandi ferðaþjónustufyrirtæki á Siglufirði. Hjá fyrirtækinu eru um 25 heilsársstörf en yfir sumarmánuðina, þegar umfangið er mest, eru um 50 manns á launaskrá. Meginhluti starfsmanna er í stéttarfélaginu Einingu Iðju sem er aðili að Landsmennt.