Háskólabrú á Akureyri í haust í staðnámi - um 40% lækkun námsgjalda

Stefnt er að því að bjóða upp á svokallaða „Háskólabrú“ á Akureyri næsta haust í samstarfi Keilis og SÍMEY, verði næg þátttaka. Eins og nafnið gefur til kynna er námið sett upp til undirbúnings fyrir háskólanám. Keilir hefur frá árinu 2007 boðið upp á slíkt aðfaranám til háskóla en næsta haust stendur nemendum til boða nám á Háskólabrú á Akureyri í staðnámi með vinnu. Þetta nám verður í félagsvísinda- og lagadeild Keilis en vilji fólk styrkja sig frekar á t.d. raungreinasviði getur það bætt við sig raungreinum í fjarnámi. Möguleikarnir til þess að raða saman námi hvers og eins eru þannig miklir. 

Námsgjöld í félagsvísinda- og lagadeild hafa verið lækkuð um 40% og má hér sjá upplýsingar um þau.

Umsóknarfrestur um námið er til 12. júní nk.

Nám á Háskólabrú Keilis er hugsað fyrir fólk sem ekki hefur lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis. Fyrirkomulag námsins tekur mið af því að þeir sem það stunda geti jafnframt sótt vinnu. Staðnámið á Akureyri verður í lotum þrisvar í viku, seinnipart dags, og einnig á laugardögum. Eitt fag verður kennt í einu.

Hér eru frekari upplýsingar um Háskólabrú Keilis.