Fjölmargt áhugavert í boði á vorönn 2022

Sem fyrr verður fjölmargt í boði í SíMEY á vorönn 2022.
Sem fyrr verður fjölmargt í boði í SíMEY á vorönn 2022.

Nám á vorönn er farið af stað eða er í startholunum þessa dagana. Eins og síðustu annir, frá því að kóvídfaraldurinn hófst, hefur námið færst töluvert yfir á netið og í sumum námskeiðum og námsleiðum er það blanda stað- og fjarnáms.  Í Skrifstofuskólanum, Menntastoðum og brúarnámi (Félagsliðabrú og Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú) geta nemendur valið að vera í fjarnámi en þeim gefst kostur á að koma í vinnulotur í staðnámi og fá upplýsingar frá kennurum. Hér má sjá upplýsingar um fyrirkomulag námsins sem hefur verið reynt með ágætum árangri á haustönn 2021.

Framhald verður á vorönn á samstarfi um vefnámskeið við Farskóla Norðurlands vestra en þessi námskeið hafa tekist mjög vel.

Íslenskukennslan verður sem fyrr mikilvægur þáttur í starfseminni og er unnið að því að þróa kennsluna í framhaldi af hæfnimati í íslensku sem SÍMEY vann að á síðari hluta ársins 2020. Hæfnimatið var unnið í samstarfi við Studieskolen í Kaupmannahöfn, sem er tengt við Evrópska tungumálarammann, og var hæfnipróf hans þýtt og staðfært á íslensku. Það má orða það svo að í þessu felist að ábyrgð á náminu færist í auknum mæli á nemendur.

Á haustönn 2021 var SÍMEY með samfélagsfræðslu og kennslu í íslensku fyrir hóp kvóttaflóttamanna, hælisleitenda og innflytjenda. Ahmed Essabiani annaðist kennsluna, sem fór fram á arabísku. Ahmed mun halda áfram með þennan hóp í íslenskukennslu núna á vorönn.

Sem fyrr er fjölbreytt námsframboð í SÍMEY á vorönn 2022 – eins og hér má sjá.

Þann 12. janúar sl. var Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, í viðtal við Fréttablaðið um starfsemi SÍMEY. Hér er greinin.