Breytt námsfyrirkomulag á þremur námsbrautum

SÍMEY tekur fyrst símenntunarmiðstöðva í notkun vefumsjónarkerfið Learncove.io.
SÍMEY tekur fyrst símenntunarmiðstöðva í notkun vefumsjónarkerfið Learncove.io.

Eins og vera ber er starfsemi SÍMEY núna á haustönn komin í fullan gang. Margt verður með líku sniði og undanfarin ár en þó ekki allt. Í þremur námsleiðum - Menntastoðum, Félagsliðabrú og Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú - hefur námsfyrirkomulaginu verið breytt töluvert. SÍMEY hefur tekið í notkun, fyrst símenntunarmiðstöðva hér á landi, nýtt íslenskt kennslukerfi, www.learncove.io.

„Í stórum dráttum felast breytingarnar í því að á þessum námsbrautum leggjum við aukna áherslu á vendikennslu í því skyni að auka sveigjanleika námsins. Inn í þetta nýja vefumhverfi, sem nemendur hafa aðgang að, setja kennarar alla fyrirlestra og verkefni sem þeir leggja fyrir nemendur. Þetta þýðir að nemendur geta horft á fyrirlestra kennaranna og unnið verkefni á þeim tíma sem þeim hentar. Fyrirlestrar í skólastofu heyra sögunni til en nemendur geta þess í stað horft á þá í tölvunni heima hjá sér, en jafnframt eiga þeir þess kost, kjósi þeir svo, að koma hingað í SÍMEY til að hitta kennarann og fá svarað spurningum sem upp koma og/eða njóta aðstoðar hans við úrlausn verkefna.
Í Covid höfum við í auknum mæli sent út fyrirlestra í streymi en hér er tekið næsta skref og nemendur hafa aðgang að fyrirlestrunum á vefsvæði og geta horft á þá á þeim tíma sem þeim hentar. Þessari breytingu má kannski lýsa á þann hátt að við lítum ekki lengur á kennslustofuna sem fyrirlestrasal heldur miklu fremur sem vinnuaðstöðu nemenda þangað sem þeir sem það kjósa koma á staðinn og sækja sér aðstoð og/eða bera saman bækur sínar við aðra nemendur. Þetta er svolítið ný hugsun og nálgun, virkni nemandans og ábyrgð á sínu námi eykst,“ segir Helgi Þorbjörn Svavarsson, verkefnastjóri hjá SÍMEY.

Hér að framan er vísað til vendikennslu. SÍMEY hefur í auknum mæli fetað sig inn á braut vendikennslu en nú er tekið enn stærra skref. Helgi segir að vendikennslu megi lýsa á þann veg að í stað þess að kennarinn tali til nemenda í kennslustofunni og þeir vinni í kjölfarið verkefni heima út frá hverjum fyrirlestri horfi þeir á fyrirlestrana og það sem kennarinn vill koma til nemenda í tölvunni sinni heima en vinni síðan verkefnin í kennslustofunni, þeir sem það á annað borð kjósa, og geti leitað sér aðstoðar kennarans við það.

„Þetta nýja vefumhverfi er mjög notendavænt og þægilegt fyrir nemendur og kerfið býður upp á nýjar leiðir í námsmati. Inn í það eru sett hæfniviðmið fyrir hvern áfanga sem auðveldar kennaranum að gefa nemendum einkunn fyrir vinnu sína í áfanganum,“ segir Helgi Þorbjörn og bætir við að vegna þess möguleika í námskerfinu að geta sett inn hæfniviðmið sé í bígerð að SÍMEY prófi það við raunfærnimat.