SÍMEY vinnur að þróunarverkefni um hæfnimat í íslensku

Hæfnimatið á vefnum auðveldar fólki sem vill læra íslensku sem annað mál að meta hæfni sína og velja…
Hæfnimatið á vefnum auðveldar fólki sem vill læra íslensku sem annað mál að meta hæfni sína og velja íslenskunámskeið við hæfi.

SÍMEY hefur undanfarna mánuði unnið að þróunarverkefni sem felst í því að setja upp á vefnum hæfnimat í íslensku sem öðru máli. Þessi vinna er nú á lokastigi og er við það miðað að áður en langt um líður geti allar símenntunarmiðstöðvar landsins nýtt sér þetta mat fyrir nemendur sína.

Vorið 2020 fékk SÍMEY styrk úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar til þess að vinna veflægt hæfnimat fyrir íslenskunám. Verkefnið fólst í því að setja upp hæfnimat á vefnum fyrir þá sem hyggjast læra íslensku.

„Þeir sem skrá sig á námskeið í íslensku sem öðru námi hjá okkur í SÍMEY og öðrum símenntunarmiðstöðvum hafa mismikla kunnáttu í íslensku, sumir eru nýfluttir til landsins og hafa því eðlilega litla kunnáttu í málinu, aðrir hafa verið búsettir hér á landi um hríð og náð nokkurri færni í íslensku. Rafræna matið er hugsað til þess að fólk geti staðsett sig sjálft, fundið út hver kunnátta og færni þess er í tungumálinu og valið námskeið með hliðsjón af niðurstöðu matsins. Um leið auðveldar hæfnimatið fræðsluaðilanum að setja upp námshópa þar sem þátttakendur eru með svipaða kunnáttu í tungumálinu, sem gerir það að verkum að kennslan verður markvissari og betri,” segir Sif Jóhannesdóttir, verkefnastjóri í SÍMEY. Hún og Kristín Björk Gunnarsdóttir verkefnastjóri hafa leitt vinnuna við gerð hæfnimatsins.

Hæfnimatið var unnið í samstarfi við tungmálaskólann Studieskolen í Kaupmannahöfn. Þar getur fólk lært fjölda tungumála, þar á meðal íslensku, og þátttakendur á námskeiðum skólans hafa aðgang að hæfniprófinu „sprogtest“ þar sem fólk getur kannað dönskukunnáttu sína á vefnum og valið sér námskeið við hæfi. Úr varð að þetta hæfnipróf Studieskolen, sem er tengt við Evrópska tungumálarammann, var þýtt og staðfært á íslensku og var þýðingin í höndum Finns Friðrikssonar, dósents við Háskólann á Akureyri. Í staðinn fær Studieskolen aðgang að hæfnimati á íslensku sem verður aðgengilegt á heimasíðu skólans. Ávinningurinn af þessu samstarfi er því gagnkvæmur.

Hæfnimatið tekur til hlustunar, málfræði, lesskilnings og samskipta. Það er viðamikið en aðgengilegt og segir Sif að þessa dagana sé verið að villuprófa hæfnimatið og rýnihópur að prófa og leggja mat á það. Komi einhverjir ágallar í ljós við þá yfirferð verði þeir færðir til betri vegar en að því loknu verði hæfnimatið kynnt öðrum fræðslumiðstöðvum og það gert þeim aðgengilegt til notkunar.