Samfélagsfræðsla og íslenskukennsla fyrir hóp innflytjenda, hælisleitenda og flóttamanna

Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, og Ahmed Essabiani, sem annast samfélagsfræðs…
Kristín Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá SÍMEY, og Ahmed Essabiani, sem annast samfélagsfræðslu og íslenskukennslu fyrir hóp innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda í SÍMEY núna á haustönn.

Þann fjórða október sl. hófst í SÍMEY samfélagsfræðsla og kennsla í íslensku fyrir hóp kvótaflóttamanna, hælisleitenda og innflytjenda. Ahmed Essabiani annast kennsluna en af hálfu SÍMEY heldur Kristín Björk Gunnarsdóttir utan um námið.

Ahmed Essabiani hefur búið og starfað á Íslandi yfir tuttugu ár. Árið 1988 flutti hann átján ára gamall frá Marokkó, þar sem hann er fæddur og uppalinn, til Frakklands og var í eitt ár í háskóla. Fór síðan til Ítalíu, lærði viðskiptafræði og vann þar í framhaldinu. Á Ítalíu bjó Ahmed í ellefu ár. Hann var líka til skamms tíma í Þýskalandi og Bandarikjunum. Til Íslands kom Ahmed fyrst árið 1999 en hefur búið hér frá 2002, á Akureyri hefur hann búið síðan 2009. Hann starfaði m.a. í Becromal í fjögur ár en árið 2016 lagði hann sitt af mörkum við móttöku flóttamanna frá Sýrlandi til Akureyrar, enda talar hann arabísku eins og Sýrlendingar. Ahmed segir að þetta hafi verið stórt og mikið verkefni en jafnframt gefandi. Sem útlendingur frá framandi menningarheimi hafi hann á sínum tíma safnað í sarpinn kunnáttu og reynslu sem hann hafi getað miðlað til flóttafólksins frá Sýrlandi við að fóta sig í nýju og ólíku landi. „Fyrir fólk sem kemur úr gjörólíkum menningarheimi er óteljandi margt sem er framandi og þarf að læra. Ég nefni sem dæmi að hér eru rafræn samskipti í stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu, en fyrir Sýrlendinga er þetta framandi,“ segir Ahmed og bætir við að ánægjulegt sé að sjá hversu vel þessu fólki hafi vegnað í íslensku samfélagi.

Þeir sem sækja kennsluna hjá Ahmed í SÍMEY eru innflytjendur, kvótaflóttamenn og hælisleitendur frá Sýrlandi, Marokkó, Írak og Sómalíu. Þegar námið hófst í október sóttu það fimmtán manns en núna eru þrettán nemendur. Tveir réðu sig í vinnu og geta því ekki sótt kennslu á vinnutíma. Kennt er þrjá daga í viku, á mánudögum og þriðjudögum og fimmtudögum, samtals sjö klukkustundir.

Ekki aðeins hefur Ahmed lagt sitt af mörkum við móttöku kvótaflóttafólks og hælisleitenda á Akureyri, það hefur hann einnig gert á Ísafirði, Blönduósi, Hvammstanga og í Fjarðabyggð. Núna einbeitir hann sér að kennslu námshópsins í SÍMEY. Hún hófst 4. október sl. og stendur fram í desember. Síðan verður þráðurinn tekinn upp aftur eftir áramót og segir Ahmed við það miðað að kennslan verði til hausts 2022.

Allir í námshópnum sem Ahmed kennir núna í SÍMEY skilja arabísku og þess vegna fer kennslan fram á því tungumáli. Hann segir að arabískan sé vissulega mjög ólík milli landa en þó gangi vel að nota hana þrátt fyrir að fólkið komi frá ólíkum löndum. Enskukunnátta þessa námshóps er lítil og því segir Ahmed mikilvægt að geta kennt á arabísku.

Kennslan er tvískipt, annars vegar samfélagsfræðsla - um íslenskt samfélag - og hins vegar íslenskukennsla. Ahmed segist styðjast við annars vegar námsefni frá Vinnumálastofnun og hins vegar noti hann kennsluefni sem hann hafi sjálfur safnað í sarpinn á undanförnum árum, m.a. í tengslum við móttöku flóttafólks á Akureyri og í öðrum framangreindum sveitarfélögum. Einnig miðli hann af sinni persónulegu upplifun og reynslu. Mikilvægt sé að leggja í byrjun áherslu á hið daglega líf, enda sé svo ótal margt á Íslandi framandi og nýtt fyrir fólk frá fjarlægum löndum, þar sem menningin er gjörólík. „Það er svo ótal margt sem þarf að fjalla um sem er fólki frá heitari löndum mjög framandi. Ég nefni t.d. mikilvægi þess að lofta húsnæði, upphitun húsa með heitu vatni og dagleg notkun þess og hvað ber að varast í því sambandi, aðgangur að heilbrigðisþjónustu, flokkun sorps, frysting matvæla, húsareglur í fjölbýlishúsum, útivist barna, öryggisnúmerin 112 og 1717, af hverju á að fara í opna tíma á heilsugæslunni í stað þess að fara á slysadeildina á sjúkrahúsinu og ótal margt fleira,“ segir Ahmed.

Eins og nærri má geta fer íslenskukennslan einnig fram á arabísku, í það minnsta til að byrja með. Ekki aðeins er talmálið fólki afar framandi heldur einnig ritmálið. Ahmed segir í byrjun leggja áherslu á stuttar setningar til þess að nota í samskiptum fólks, síðan séu tekin lítil skref fram á við stig af stigi.

Ahmed vonar að frá og með næsta ári verði unnt að bjóða upp á bæði samfélagsfræðslu og íslenskukennslu á arabísku á netinu. Þannig sé unnt að ná til fólks um allt land sem hefur arabísku sem móðurmál.