SÍMEY býður upp á raunfærnimat í ýmsum starfsgreinum núna á vorönn

Núna á vorönn býður SÍMEY upp á raunfærnimat í mörgum starfsgreinum.
Núna á vorönn býður SÍMEY upp á raunfærnimat í mörgum starfsgreinum.

Raunfærnimat er afar mikilvægt „tæki“ til þess að draga saman á einn stað samanlagða færni sem einstaklingur hefur náð eða aflað sér með t.d. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi. Á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins segir eftirfarandi um raunfærnimat: „Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda raunfærni, sem hann býr yfir á ákveðnum tíma, þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann kann eða öðlist framgang í starfi. Raunfærnimatið staðfesti hans hæfni.“

Núna á vorönn býður SÍMEY upp á raunfærnimat í ýmsum starfsgreinum:

Þjónustugreinar
Raunfærnimat í félagsvirkni og uppeldisgreinum er ætlað einstaklingum sem náð hafa 23 ára aldri og hafa unnið sem félagsliðar, skólaliðar, stuðningsfulltrúar, leikskólaliðar eða félagsmála- og tómstundafulltrúar í a.m.k. 3 ár. Með raunfærnimati er færni einstaklinga skoðuð og hægt að fá metna á móti námskrám ofangreindra greina í framhaldsskóla.

Félagsliðar og stuðningafulltrúar hafa verið mest áberandi og hefur raunfærnimatið stytt verulega brúarnám.

Tengiliður er Sandra Sif Ragnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi (sandra@simey.is).

Fisktækni
Raunfærnimat í fisktækni styttir fólki verulega leið í námi í fisktækni sem er kennt í Fisktækniskóla Íslands. Fjölmargir sem hafa starfað lengi í fiskvinnslu fara í raunfærnimat og innritast í kjölfarið í fisktækni í Fisktækniskólanum. Margir fara í framhaldinu í gæðastjórnun og/eða Marel vinnslutækni í Fisktækniskólanum og hafa þá aflað sér víðtækrar þekkingar og standa mun sterkar að vígi á vinnumarkaði.

Tengiliðir eru Kristín Björk Gunnarsdóttir (kristin@simey.is) og Sif Jóhannesdóttir (sif@simey.is).

Matvælagreinar
Starfsmenn í matvælagreinum – fólk sem starfar við matreiðslu í mötuneytum eða á veitingastöðum - er raunfærnimetið. Það styttir leiðina í námi til matartæknis eða matsveins sem kennt er við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Tengiliðir eru Kristín Björk Gunnarsdóttir (kristin@simey.is) og Sif Jóhannesdóttir (sif@simey.is). 

Almenn starfshæfni
Í þessu raunfærnimati er metin lykilfærni á vinnumarkaði út frá starfstengdri og persónulegri reynslu (aðlögunarhæfni, samskipti, umhverfisvitund, öryggismál, grunnfærni). Miðað er við íslenska hæfnirammann IQF. Matsaðili leggur lokamat á hæfni þátttakenda í viðtali sem má líkja við jákvætt atvinnuviðtal. Sjá nánar á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Tengiliðir eru Sandra Sif Ragnarsdóttir (sandra@simey.is) og Valgeir B. Magnússon (valgeir@simey.is). 

Verslunarfulltrúi
Raunfærnimat fyrir þá sem hafa starfað við hvers konar verslun, þjónustu eða sölu. Hér eru nánari upplýsingar. Margir sem hafa farið í gegnum þetta raunfærnimat hafa aflað sér fjölda námseininga og stytt sér leið í námi.

Tengiliður er Kjartan Sigurðsson (kjartan@simey.is).

Iðngreinar
Raunfærnimat er í boði í mörgum iðngreinum – allar greinar eru skoðaðar í samstarfi við þátttakendur.

Tengiliður er Kristín Björk Gunnarsdóttir (kristin@simey.is).