Til hamingju Samherji!

Væntanlegt fiskiðjuver Samherja á Dalvík. Tölvugerð mynd frá Samherja.
Væntanlegt fiskiðjuver Samherja á Dalvík. Tölvugerð mynd frá Samherja.

Eins og komið hefur fram í fréttum hafa forráðamenn Samherja gengið frá lóðarleigusamningi við Dalvíkurbyggð um 23 þúsund fermetra lóð á hafnarsvæðinu á Dalvík fyrir nýtt og fullkomið fiskiðjuver. Áætluð fjárfesting í nýju húsnæði og tæknibúnaði er um 3,5 milljarðar króna. Auk þess er væntanlegur í næsta mánuði nýr Björgúlfur EA til Dalvíkur sem mun leysa af hólmi núverandi Björgúlf EA sem hefur aflað hráefnis fyrir landvinnsluna á Dalvík í um fjóra áratugi. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu á Dalvík mun því nema fast að 6 milljörðum króna.

SÍMEY sendir Samherja af þessu tilefni einlægar heillaóskir. Samherji og SÍMEY hafa lengi átt afar farsælt samstarf um menntun starfsmanna fyrirtækisins. Má í því sambandi nefna að nú er að ljúka annarri önn í fjögurra anna fisktækninámi á Dalvík þar sem um 20 starfsmenn Samherja á Dalvík hafa setið á skólabekk og aflað sér aukinnar þekkingar og víkkað út sjóndeildarhringinn. Í þetta nám fóru starfsmenn Samherja að undangengnu raunfærnimati þar sem hæfni þeirra og reynsla var metin. Tuttugu og þrír starfsmenn Samherja í Útgerðarfélagi Akureyringa hafa að undanförnu farið í samskonar raunfærnimat, eins og greint var frá hér á heimasíðunni í liðinni viku.

Fisktækninám á Dalvík, sem SÍMEY heldur utan um, er unnið í samvinnu við Fisktækniskóla Íslands. Námið – sem er meðfram vinnu þátttakenda - hefur gengið afskaplega vel og hafa nemendur verið afar áhugasamir og lagt mikið á sig. Einnig hefur það skipt miklu máli að Samherji hefur stutt starfsmenn sína í náminu og ýtt undir að þeir sæktu sér aukna þekkingu.

Þegar Samherji gekk frá lóðarleigusamningi sínum við Dalvíkurbyggð á dögunum kom fram í máli Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja að árangur fyrirtækisins í landvinnslunni á Dalvík væri fyrst og fremst starfsfólki fyrirtækisins að þakka, sem hefði staðið sig frábærlega. Hann sagði að með nýrri  vinnslu myndu störfin breytast, þau yrðu fjölbreyttari og meira krefjandi en jafnframt auðveldari líkamlega. 

Fiskvinnslan hefur á undanförnum árum tekið miklum breytingum með aukinni tæknivæðingu. Þessi þróun mun halda áfram með tilheyrandi breytingum á störfum. Þess vegna er hér eftir sem hingað til mikilvægt að starfsmenn í fiskvinnslu sæki sér aukna menntun og þekkingu þannig að þeir séu í stakk búnir að takast á við breytta tíma.