Námsbrautin Nám og þjálfun hefst í næstu viku - skráning í fullum gangi

Í Námi og þálfun eru kenndir áfangar í lífsleikni, upplýsingatækni, íslensku, ensku og stærðfræði.
Í Námi og þálfun eru kenndir áfangar í lífsleikni, upplýsingatækni, íslensku, ensku og stærðfræði.

Í næstu viku hefst nám á nýrri námsbraut hjá SÍMEY sem hefur hlotið yfirskriftina Nám og þjálfun. Námsbrautin tekur til fjögurra námsgreina, íslensku, upplýsingatækni, stærðfræði og ensku, auk lífsleikni, sem er í upphafi námsins, annars vegar hópefli og hins vegar námstækni.

Fyrir hverja er Nám og þjálfun?
Námið tekur mið af námskrám Aðalnámskrár framhaldsskóla fyrir þessar námsgreinar en í náminu verður sérstök áhersla á mismunandi námsnálgun þátttakenda í náminu og samþættingu námsþátta. Um er að ræða grunnáfanga í þessum greinum og er námið fyrir alla sem vilja auka þekkingu sína. Námið nýtist t.d. sérstaklega vel fólki sem hefur lokið raunfærnimati í iðngreinum og stefnir á að ljúka sveinsprófum í sínum faggreinum.

Nám með fullri vinnu – kennt tvö kvöld í viku og á laugardögum
Námið er sett þannig upp að fólk geti sótt það með fullri vinnu. Samkvæmt fyrirliggjandi stundaskrá verður íslenska kennd fyrir áramót, öll mánudags- og miðvikudagskvöld kl. 17-20 fram að jólum (síðasti kennsludagur verður miðvikudagurinn 18. desember). Sex laugardaga til jóla, kl. 09-12, verður kennd upplýsingatækni (síðasti upplýsingatæknitíminn verður 14. desember.) Eftir áramót verða fjórir upplýsingatæknitímar 6., 8., 13. og 15. janúar kl. 17-20 og þar með lýkur upplýsingatækninni í náminu. Þá tekur við stærðfræði og hún verður kennd alla mánu- og miðvikudaga kl. 17-20 og auk þess fjóra laugardaga kl. 09-12. Síðasti stærðfræðitíminn verður samkvæmt stundaskrá 18. mars 2020. Að lokum verður enska kennd og verður fyrsta kennslustundin í henni máudaginn 23. mars. Sem fyrr verður kennt á mánudögum og miðvikudögum kl. 17-20 og einnig verður kennt fjóra laugardaga kl. 09-12.

Íslenska, lífsleikni, stærðfræði, enska og upplýsingtækni
Í heildina er námið 198 klukkustundir (með hléum og kaffitímum) sem skiptist svo: Lífsleikni (hópefli og námstækni) 6 klukkustundir, íslenska 42 klukkustundir, upplýsingatækni 30 klukkustundir, stærðfræði 66 klukkstundir og enska 54 klukkustundir.

Sem fyrr segir hefst Nám og þjálfun í næstu viku, nk. mánudag, 28. október, með lífsleikni. Íslenskan hefst 4. nóvember, upplýsingatæknin 9. nóvember, stærðfræðin 20. janúar og enskan 23. mars.

Engin próf verða í áföngunum, námsmatið verður eingöngu í formi símats og/eða verkefnavinnu.

Vert er að undirstrika að menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að námsleiðina megi meta til styttingar á námi í framhaldsskóla. Jafnframt er vakin athygli á því að mat á fyrra námi nemenda er á ábyrgð skólameistara viðkomandi framhaldsskóla.

Það er ekki of seint að skrá sig í þetta nám. Hér er hægt að skrá sig og einnig eru hér nánari upplýsingar um áfangana.