Í samstarfi við Vinnumálastofnun um Betri skilning og bætt samskipti

Eitt af þeim námskeiðum sem SÍMEY býður upp heitir Betri skilningur og bætt samskipti þar sem m.a. eru skoðaðir styrkleikar og veikleikar hvers og eins út frá bandarískri hugmyndafræði sem á ensku nefnist Everything DISC. Þessi námskeið hafa bæði verið í boði í staðnámi og á vefnum. Í þessari viku hófst fyrsta námskeiðið af þessum toga fyrir atvinnuleitendur sem SÍMEY hefur sett upp í samvinnu við Vinnumálastofnun. Kjartan Sigurðsson, ráðgjafi hjá SÍMEY, er kennari á þessum námskeiðum. Kjartan þekkir vel til þessarar hugmyndafræði frá Bandaríkjunum þar sem hann var við nám og er vottaður DISC þjálfari.

„Í síðustu viku kláruðum við námskeið í Betri skilningi og bættum samskiptum, sem SÍMEY hefur verið að bjóða upp á en í þessari viku byrjum við síðan á fyrsta námskeiðinu sem við höfum breytt lítillega til þess að mæta óskum Vinnumálastofnunar. Námskeiðið er á vefnum í gegnum Zoom og í fyrstu kennslustundina sl. mánudag mættu nítján manns. Aðaláherslan á námskeiðinu er sjálfskoðun fólks, að það læri á sig sjálft  og í samskiptum við aðra. Hvað á fólk auðvelt með í samskiptum við aðra og hvaða hlutir eru erfiðari í umhverfinu, eru spurningarnar sem við reynum m.a. að svara. Í þessu felst að skoða veikleika og styrkleika, streituvalda o.fl. Áður en námskeiðið hefst tekur fólk könnun á netinu og hver og einn þátttakandi fær niðurstöður út úr  henni. Síðan vinnum við áfram með þessar niðurstöður út frá DISC hugmyndafræðinni sem fyrirtækið Wiley í Bandaríkjunum hefur gefið út. Að námskeiði loknu býðst þátttakendum viðtöl við ráðgjafa í SÍMEY þar sem farið er enn dýpra í styrk og veikleika hvers og eins, framtíðarsýn og gildi,“ segir Kjartan Sigurðsson.

„Við klárum hvert námskeið á einni viku, þátttakendur hitti ég á þremur Zoom-fundum, og á næstu tveimur vikum eftir það fá þeir þrjú einstaklingsviðtöl sem eru í senn eftirfylgni og áframhald.“