Höldur - Bílaleiga Akureyrar er Menntafyrirtæki ársins 2019

Höldur – Bílaleiga Akureyrar er Menntafyrirtæki ársins 2019. Þetta var tilkynnt í dag í Hörpu í Reykjavík á Menntadegi atvinnulífsins en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér er upptaka frá Menntadeginum í dag og hefst umfjöllun um afhendingu verðlauna fyrir Menntafyrirtæki ársins á 01:34:18. Í myndbandi sem var spilað á Menntadeginum í dag segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, að árið 2006 hafi hafist átak í fræðslumálum innan fyrirtækisins í samstarfi við SÍMEY. Uppihald hafi verið í þessum málum í efnhagshruninu en þráðurinn hafi verið tekinn upp á síðustu árum.

Fræðsluáætlun Hölds hefur verið unnin í samstarfi við SÍMEY og Iðuna fræðslusetur.

Sigrún Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Höldi, segir að fyrirtækið hafi leitast við að taka ný skref í fræðslumálunum og í því skyni hafi nýverið verið gerður samningur við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SÍMEY um þátttöku í tilauaverkefninu „Fræðsla í ferðaþjónustu“. „Ég trúi því að fræðsla og þjálfun skili okkur mikilli fagmennsku inn í starfið. Við vijum vera best og þess vegna þurfum við að þjálfa og fræða okkar starfsfólk til þess að hafa besta starfsfólkið. Við viljum að þjónustulundin skili sér alla leið til viðskiptavina okkar,“ segir Sigrún.

Steingrímur segir ástæðulaust að finna upp hjólið í þessum efnum, mikilvægt sé að vinna með þeim fyrirtækjum og stofnunum sem búi yfir þekkingu á þessu sviði, hann segir alveg ljóst að fyrirtækið hefði aldrei náð þessum árangri í fræðslumálum ef það hefði ekki verið í nánu samstarfi við símenntunarmiðstöðvar og háskóla sem hafi miðlað sinni þekkingu til starfsfólks Hölds.

„Við leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á fræðslu fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins. Við viljum líka heyra raddir starfsmanna, hvaða fræðsla er það sem starfsmaðurinn vill og þarf. Viðurkenning eins og þessi hvetur okkur til þess að halda áfram og við erum bara rétt að byrja,“ segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, mannauðsstjóri Hölds.